STAFRÆNN HÁKON

0

hákon 4

Hljómsveitin Stafrænn Hákon var stofnuð í breiðholtinu árið 1999 en sveitin var að senda frá sér sína níundu breiðskífu sem nefnist Eternal Horse. Stafrænn Hákon hefur komið víða við á löngum og viðburðaríkum ferli, sent frá sér níu breiðskífur og spilað mörg hundruð tónleika. Ólafur Örn Jósephsson forsprakki sveitarinnar er viðmælandi vikunnar á Albumm.is Ólafur sagði okkur frá eftirminnilegustu tónleikunum, hvað er það sem drífur hann áfram í tónlistinni og nýju plötunni o.fl.


Hvenær var hljómsveitin stofnuð, hvernig kom það til og hvaðan kemur nafnið Stafrænn Hákon?

stafrænn Hákon fæddist árið 1999 í kjallaranum heima hjá mér (þá foreldrahúsum í Breiðholtinu). Nafnið kom til þegar ég var í sumarbústaðferð með félögum mínum og fimbulfamb spilið var spilað af miklum eldmóð. Skýringin „Stafrænn Hákon“ poppaði upp í spilinu og það fannst okkur dásamlega undarlega skondið nafn. Mér fannst ekkert annað koma til greina en að nota þetta sem einhverskonar listamannsnafn. Fyrst var þetta bara í léttu spaugi og ég ætlaði svo sem ekkert að notast við þetta nafn, en svo rúllaði þetta bara einhvernveginn áfram og við erum enn hér. Gerði mér aldrei vonir að halda svona lengi úti þessu nafni, enda er það tvírætt. Margir sem þekkja ekki músíkina spyrja oftast hvort þetta sé ekki eitthvað raftónlistar jukk, en þetta er einmitt pínu andstæðan við það. Meira Analog en digital. En það er svo sem allt orðið digital hvernig sem maður lítur á það.

Hvernig mundir þú lýsa tónlistinni ykkar og hvernig hefur sveitin þróast í gegnum árin? 

Tónlistin sem við erum að smíða er fljótandi sveimkennt rokk með dass af poppáhrifum hér og þar. Heyra má líka elektró áhrif í efni Stafræns Hákons, sem þó hefur kannski takmarkast á síðustu plötum. Projektið hefur þróast þó nokkuð frá stofnun þess árið 1999. Upphaflega var þetta aðeins ég að leika mér að taka upp gítarambíent eftir hljómsveitar æfingar með, menntaskóla hljómsveit sem ég var í ásamt Samuel White og Sturlu Finnbogasyni sem kallaðist Sullaveiki Bandormurinn. Með tíð og tíma hefur músíkin slípast all hressilega og hefur hráleikinn þynnst aðeins út. Hljóðheimurinn hefur þó náð að halda sér nokkuð vel í gegnum árin þrátt fyrir áherslubreytingar í lagasmíðum og þess háttar. Upphaflega var náttúrulega allt saman instrumental en á plötunni Gummi frá árinu 2007 má heyra fyrst sungin lög. Síðan þá hafa plöturnar verið með sönglögum. Söngur gefur músíkinni vissa vídd og kryddar þetta heilmikið. Ég hef verið svolítið instrumental miðaður og höldum ég og Lárus gítarleikari hljómsveitarinnar úti verkefni sem nefnist Calder og er það alveg instrumental. Vorum einmitt að gefa út þriðju plötuna okkar á einhverri Japanskri útgáfu.

hákon 2

Ljósmynd: Ómar Örn Smith

Þið voruð að senda frá ykkur plötuna Eternal Horse, er hún búin að vera lengi í vinnslu og er hún frábrugðin fyrri verkum?

Vinnslan við Eternal Horse byrjaði svona í litlum skömmtum árið 2011. Einhverjir grunnar að lögunum voru svo gerðir á mismunandi tímum allt til ársins 2014. Við gáfum út plötu árið 2012 sem var svolítið öðruvísi og var ég að vinna með einskonar gítardrunur og meira elektrónísk. Sú plata var pínu svona afturhvörf til fyrra efnis og var eiginlega ekki hugsuð sem eiginleg næsta plata hjá Stafrænum Hákoni á þeim tíma, meira svona heimatilbúið efni eins og það var hér áður fyrr hjá mér. Nýja platan er aftur á móti hugsuð sem svona rökrétt framhald af plötunni Sanitas frá 2010.  Sanitas var afar vel heppnuð og hljómar mjög vel að mínu mati, stútfull af flottum poppskotnum lögum. Nýja platan er ekki ósvipuð sanitas á margan hátt, kannski ögn hnitmiðaðri og meira svona straight to the point. Finnst hún kannski svona heilsteyptasta verk okkar hingað til. Það er mjög athyglisvert hvernig plöturnar okkar þróast svona sándlega séð. T.d Ventill/Poki frá 2004 er eiginlega öll í C-dúr og Gummi frá 2007 er meira samin í  d-dúr.  Ég hef verið mikið að fikta með stillingar á gítarnum frá því ég byrjaði í þessu og stundum einhvernveginn er ég einhvernveginn búinn að vera að dúttla mér í einhverjum gítarstillingu sem heldur sér svo yfir smá tímabil og áður en ég veit af eru lögin samin í þeirri stillingu.

Þið senduð frá ykkur lagið Frigid-Bag á dögunum og því fylgdi afar skemmtilegt myndband! Hvernig kviknaði hugmyndin að myndbandinu og var ekki hrikalega kalt á meðan tökum stóð?

Þannig var mál með vexti að góðvinur okkar Hjörleifur Jónsson gerði vídeó fyrir lagið „Sót“ af nýju plötunni sem var áhugavert. Ég var svo með hugmynd að gera eitthvað svona slow motion vídeó við eitt instrumental lagið af plötunni. Hugmyndin þróaðist svo í kollinum á Hjörleifi og úr varð þetta ansi hressilega myndband við „Frigid/Bag.“ Kuldinn greip um menn mikil ósköp. Notast var við myndavél sem tók upp 500 ramma á sekúndu þannig að hver taka var ekki lengri en 2 sekúndur í rauntíma. Gaurinn sem fékk það hlutverk að skella sér ofaní Kleifarvatnið er vanur sjósundsdurgur og þetta var því auðveldara að því leyti. En það þróaðist þannig að hann þurfti að fara ofaní tvisvar eða þrisvar sinnum því að tökurnar klikkuðu. Þannig að þetta gekk svona upp og ofan en í heildina var þetta nokkuð smurt.

Stafrænn Hákon hefur farið víða og spilað víða í gegnum tíðina. Hvar eru eftirminnilegustu tónleikarnir og hvað gerir góða tónleika?

Já við höfum farið nokkrum sinnum út í stuttar tónleikarferðir. En það er orðið smá tími síðan síðast. Menn eru allir starfandi og hafa takmarkaðan tíma til að sinna þessu. Meikdraumurinn held ég hafi aldrei almennilega kviknað, heldur hefur þetta verið bara gert til þess að hafa gaman að þessu og njóta þess að spila og gera efni. Við höfum spilað marga góða tónleika erlendis og marga líka stórfurðulega og eftirminnilega. Það eru nokkrir sem standa uppúr eins og þegar við spiluðum í Leeds Brudenell Social Club árið 2004. Það var stórkostleg upplifun, fullur salur og einhvernveginn fann maður að það var pínu spenningur í kringum bandið þá. Það myndaðist bara einhver jákvæð orka þarna og við vorum líka eitthvað extra þéttir þetta kvöldið.  Annað dæmi er þegar við spiluðum í Prag árið 2011 en það var meira öfugt við Leeds. Vorum að spila með einhverju Pólsku post-rock metal bandi og fáir sem mættu og promoterinn ætlaði ekki að borga okkur. Svo bauð hann okkur gistingu á einhverju meðferðarheimili fyrir fíkla sem voru að koma af götunni í útjaðri Prag borgar, það var reynsla sem situr enn mjög framarlega í kollinum. En alltaf gaman að minnast á þetta því þetta var ótrúlega súrrealísk upplifun eftirá.

Hvaða plötu getur þú alltaf sett á fóninn og hvað er það við þá plötu sem heillar þig?

Ég get nú bara talað fyrir sjálfan mig svo sem. Það eru nokkrar plötur sem rýrna aldrei í gæðum.  Fyrst ber að nefna Laughing Stock með Talk Talk sem verður eiginlega bara betri með tímanum, óskiljanlegt verk.  Heaven or Las Vegas með Cocteau Twins er eitthvað sem situr fast í playlistanum. En Laughing Stock er bara svo vel gert og skemmtilega unnin að maður uppgötvar alltaf eitthvað nýtt við hverja hlustun. Maður fer oft að pæla í einhverjum smá atriðum í hvert skipti sem maður hlustar á hana. Hvílík plata þar á ferðinni.

hákon 5

Ljósmynd: Ómar Örn Smith

Hvaðan færðu innblástur fyrir þína tónlistarsköpun og hvaða hljómsveitir eru í uppáhaldi?

innblásturinn kemur allsstaðar frá. Hjá mér er það oft í hvaða ástandi maður er hverju sinni. Þar spila margir þættir inní, gleði, sorg, spenningur, leti, og bara allskonar hugarástand. Ég er eiginlega löngu hættur að spá í annari músík sem beinum innblæstri í mína tónlistarsköpun enda hefur maður mótað sinn stíl með árunum. Maður hefur þó verið duglegur að hlusta á allskonar djöflasýru í gegnum tíðina, djass, niose, sykurpopp, elektró, rapp og allan andskotan. Hef gaman að flestum stefnum þó sumar heilla mig meir en aðrar. Það eru svo margar góðar hljómsveitir sem hafa fest í haus manns.  Hljómsveitin Sebadoh hefur alltaf verið ofarlega í höfði mér músíklega, svo eru aðrir snillingar eins og Phil Collins, Seal verið með manni í anda, hálfgert blæti. Finnst Seal alltaf svo góður en samt hlusta ég ekkert á hann, finnst hann bara svo ansi góður.

Hvað er það besta við að vera tónlistarmaður og hvað er það sem drífur þig áfram?

Það er einhver auka orkulosun sem drífur mann áfram í þessu. Ef ég væri ekki að gera þetta þá yrði ég eirðarlaus og færi sennilega bara að tæta rækjur í fat eða eitthvað í þá áttina. Annars er músíkin sem gefur manni ofboðslega mikið og ekki skemmir þegar aðrir tengja við hana, það kætir. Að setja saman lag og sjá það fæðast og þróast er hrikalega nærandi fyrir höfuðkúpuna, það er víst. Svo er ég rosalega fókuseraður á að halda mig við plötuformið, hef einstaklega gaman af heilsteyptum plötum. Er ekki enn búin að tengja við stefnuna að gefa út eitt lag í einu. Góð plata er afskaplega gott form til að næra sig á.

hákon 1

Ljósmynd: Ómar Örn Smith

Nýja platan ykkar Eternal Horse er nýkomin út og þið blásið til útgáfutónleika í kvöld 23. mars, verður öllu til tjaldað og verður nýja platan tekin í heild sinni?

Já við ætlum að flytja plötuna eins nákvæmlega og við getum. Höfum hóað í 10 manna band sem er afskaplega vel skipað mjög færum spilurum. Platan verður spiluð í réttri röð og svo jafnvel spilum við einhver aukalög ef þetta gengur of vel. Við eigum aragrúa af gömlu efni til að spila og oft erfitt að velja sér lög til að spila. Það eru enn svo gríðarlega mikill fjöldi af lögum sem við höfum aldrei spilað á tónleikum enn. Tjarnarbíó er afar góður staður fyrir músíkina okkar held ég. Sæti fyrir alla og því auðvelt að sökkva sér inní hljóðheiminn og njóta til fulls.

Hvað er framundan hjá Stafrænn Hákon?

Útgáfutónleikarnir eiga hug okkar allra núna. En vonandi getum við smeygt okkur inná einhverja hátíð í sumar.  Annars er þetta bara allt opið og við erum mjög til í að spila meira í framhaldinu. Sjáum til hvernig þetta þróast.  Annars er bara að halda áfram og byrja að semja nýtt efni á nýja plötu. Við erum þegar byrjaðir aðeins að þreifa fyrir okkur í þeim efnum. Svo eru meðlimir ýmist með einhver verkefni á sínum snærum. Árni bassaleikari er í annari hljómsveit sem var að gefa út efni, Stroff. Ég og Lárus gítarleikari erum að gefa út nýja plötu á japanskri útgáfu undir nafninu Calder.  Lárus gítarleikari er líka að gefa út 3 plötur á Hollenskri útgáfu, nóg að gera hjá mönnum. Svo hef ég verið með verkefni sem heitir Per:Segulsvið og þar er verið að plana nýja afurð.  Einnig hef ég spilað með hljómsveitinni Náttfari sem er víst að fara að klára plötu, ég á reyndar eftir að skila mínu þar ef þess er krafist af mér.

Útgáfutónleikarnir fara fram í Tjarnarbíó í kvöld, húsið opnar kl 21:00 og kostar litlar 2.500 kr

Hægt er að nálgast miða á Midi.is

Hægt er að fylgjast með Stafrænn Hákon nánar hér:

facebook: https://www.facebook.com/stafraennhakon

Soundcloud: https://soundcloud.com/stafraennhakon

Instagram: https://www.instagram.com/stafraennhakon/

Twitter:  https://twitter.com/stafraennhakon?lang=en

Bandcamp: https://shakon.bandcamp.com/

Spotify: https://play.spotify.com/artist/5UhutL4dtFLBmnhhbOtIGT

Comments are closed.