Spilling, hrörnun, salernisaðstaða og önnur knýjandi samfélagsmál

0

Hljómsveitin Saktmóðigur var að senda frá sér breiðskífuna, Lífið er lýgi. Platan hefur að geyma níu lög um spillingu, hrörnun, salernisaðstöðu og önnur knýjandi samfélagsleg mál og er gefin út á hnausþykkum gæðavínyl auk þess sem hún verður aðgengileg í stafrænu formi á Spotify.

Saktmóðigur hefur verið starfandi óslitið frá árinu 1991 þegar hún tók þátt í Músíktilraunum. Fyrsta útgáfa hljómsveitarinnar var kassettan Legill sem kom út haustið 1992. Í kjölfarið komu tvær 10″ vínyl plötur, Fegurðin, blómin og guðdómurinn árið 1993 og Byggir heimsveldi úr sníkjum árið 1996. Hljómsveitin hefur auk þess gefið út þrjá geisladiska í fullri lengd, Ég á mér líf (1995), Plata (1998) og Guð hann myndi gráta (2011). Þriggja laga 7″ vínylplatan Demetra er dáin kom út árið 2013 og hafði hún að geyma lagið Kobbi V sem hjómsveitin gerði myndband við undir stjórn Magnúsar Atla Magnússonar. Árið 2015 sendi sveitin svo frá sér afmælisbraginn Eistnaflugsdans í tilefni af tíundu Eistnaflugshátíðinni. Allar útgáfur sveitarinnar hafa verið undir hennar eigin merki, Logsýra, en auk þess hafa lög hennar komið út á safnspólum og -plötum.

Upptökur fóru fram á Seltjarnarnesi veturinn 2017-18. Í stjórnklefanum sat Aðalbjörn Tryggvason sem áður hafði tekið upp síðustu stóru plötu sveitarinnar, Guð hann myndi gráta (2011). Flex Árnason hljóðmaður sá um mix og masteringu. Myndlistarmaðurinn Jakob Veigar Sigurðsson hannaði umbúðir plötunnar en hann hefur komið við sögu fyrri verka sveitarinnar með ýmsum hætti, auk þess að hafa hannað flíkur í fatalínu Saktmóðigur.

Hægt er að nálgast plötuna í Lucky Records, Smekkleysu, Reykjavík Records og Geisladiskabúð Valda. Einnig er hægt að panta eintök í gegnum facebook-síðu sveitarinnar.

Skrifaðu ummæli