Sónarspil er nýr vettvangur þar sem tækni og list koma saman

0

Getur hljóð orðið að mynd? Mynd að ljósi? Ljós að hljóði? Getur forritun verið listiðkun? Vefsíða verið listaverk? List verið tölvuleikur?

Það eru spurningar í þessum dúr búa að baki Sónarspili, sem er sjálfstæð hliðardagskrá á Sónar Reykjavík þar sem mörk listar og tækni eru í forgrunni.

Undir merkjum Sónarspils fara fram þrjú námskeið sem eru opin almenningi. Framúrstefnulegar sýndarveruleikareynslur verða settar í gang, stjórntæki framtíðarinnar prufukeyrð og listrænar vefsíður sýndar. Innsetning undir Hörpuhjúp gefur gestum færi á að leika sér með ljósin á hjúpnum og norrænir vídeósnúðar koma sérstaklega til þess að troða upp með tónlistarmönnum á hátíðinni.

„Framtíðin verður þeirra sem nota tæknina með óvæntum og skapandi hætti. Þess vegna langaði okkur til að skapa vettvang fyrir þá sem eru að nota rafeinda- eða tölvubúnað í sinni list – eða vilja gera það í auknum mæli – til að sækja sér þekkingu og deila reynslu,“ segir Atli Bollason, einn af skipuleggjendum dagskrárinnar.

Leiðbeinendurnir á Sónarspili hafa milli sín unnið verkefni fyrir fyrirtæki á borð við Samsung, Microsoft og Google, listamenn eins og John Cale, Röyksopp og The Field og kennt við stofnanir eins og Hyper Island.

Í lok síðasta árs var kallað eftir umsóknum frá norrænum „VJum“ til að troða upp undir merkjum Sónarspils. Á fjórða tug sóttu um og eru fjórir þeirra væntanlegir hingað í þeim tilgangi, þau Sofia-Lill Jansson og Daniel Wirtberg frá Svíþjóð, Freya Sif Hestnes frá Danmörku og Samuli Alapuranen frá Finnlandi.

Sónarspil er í boði Origo og nýtur stuðnings frá Reykjavíkurborg og Opstart.

Hér má sjá dagskrá Sónarspils:

SónarSpil Workshop: Build Your Own Controller

– 14. mars, 10:00-17:00, 4.500 kr. efniskostnaður.

Lærðu að forrita Arduino smátölvu sem MIDI ‘controller’ fyrir hvers kyns ljósa/hljóð/vídeó-tæki. Takkar, sleðar, nemar og skynjarar koma allir við sögu. Að námskeiðinu loknu býðst þér að vera með í að púsla öllum stjórntækjunum saman í einn ‘super-controller’ sem stýrir ljósunum á Hörpu meðan á Sónar stendur. Skráningar krafist!

SónarSpil Workshop: LED Mapping and Expressive Lighting

– 15. mars, 10:00-17:00, 4.500 kr. efniskostnaður.

Lærðu að búa til þitt eigið gagnvirka ljósarigg með tveimur öflugum tólum: ProtoPixel og Pipecraft. Hvoru tveggja eru ódýrar lausnir sem eru sniðnar að fólki sem hefur engan bakgrunn í faginu. Að námskeiðinu loknu býðst þér að vera með í að smíða ljósainnsetningu utan um ‘super-controllerinn’ sem er nefndur að ofan. Skráningar krafist!

SónarSpil Workshop: VJing and Visuals for Beginners

– 16. mars, 14:00-17:00, ókeypis

Lærðu undirstöðuatriðin í því að „VJa“ og í því að para hljóð og mynd á sviði. Kennt er á Resolume Arena. Skráningar krafist!

SónarSpil „Art-Cade“

– 16. & 17. mars, 20:00-23:00, ókeypis

 „Leikfangaherbergi“ þar sem gestir geta prófað sýndarveruleika, búið til tónlist með sérstökum íslenskum „stjórnhring“ og kynnt sér undarlega vefi, svo eitthvað sé nefnt. Í herberginu verða: WAVE by Genki InstrumentsHorizons VRRez InfiniteThumperPanoramicalProteusAllWorkNoPlayNetworkeffect.

The VIGA lána VR-búnað.

SónarSpil Super-Controller

– 16. & 17. mars, 20:00-02:00, einungis aðgengilegt miðahöfum á Sónar

Innsetning undir Hörpuhjúp þar sem einingum úr fyrsta námskeiðinu er púslað saman til að mynda risastórt stjórnborð sem má nota til að móta ljósin á glerhjúpnum á alla lund.

Sonarreykjavik.com

Skrifaðu ummæli