SÖLVI BLÖNDAL OG ÓLAFUR ARNALDS Í FARARBRODDI NÝS ÚTGÁFUFYRIRTÆKIS

0

Sölvi Blöndal

Hópur tónlistarfólks og áhugamanna um íslenska tónlist hefur tekið sig saman og stofnað nýtt útgáfufyrirtæki. Í fararbroddi verkefnisins eru tónlistarmennirnir Ólafur Arnalds og Sölvi Blöndal, oft kenndur við Quarashi. Þeir munu ekki starfa sjálfir hjá fyrirtækinu en taka sæti í stjórn þess.

Ólafur og Sölvi hafa lengi talað fyrir því að nauðsynlegt sé að lífga við íslenska tónlistarútgáfu og aðlaga hana breyttu umhverfi þar sem stafrænar tónlistarveitur eru orðnar aðaldreifileið tónlistar. Til dæmis telja þeir að það megi með markvissum aðgerðum auka verulega tekjur íslensks tónlistarfólks af streymisveitum eins og Spotify, iTunes og Youtube.

Ólafur Arnalds

Meðal þess fyrsta sem nýja fyrirtækið mun einbeita sér að er að stórauka markaðssetningu eldri verka íslenskra hljómsveita og listamanna. Í þessu skyni hefur nýja fyrirtækið yfirtekið tónlistarrekstur Senu, þar með talið öll upptökuréttindi og dreifingarsamninga. Þá stefnir nýja fyrirtækið á að gera átak í útgáfu á nýrri íslenskri tónlist en mikill fjöldi nýrra hljómsveita og efnilegs tónlistarfólks hér á landi um þessar mundir er ein ástæða þess að útgáfufyrirtækið er stofnað.

Ekki er búið að gefa nýja útgáfufyrirtækinu nafn en skrifað var undir stofnun þess upp úr hádegi í dag á tónleikastaðnum Húrra í miðborginni. Ólafur og Sölvi leiða verkefnið en aðrir hluthafar eru Jón Diðrik Jónsson, eigandi Senu, Reynir Harðarson, meðstofnandi CCP, Henrik Biering fjárfestir og Sigurjón Sighvatsson kvikmyndaframleiðandi.

Jón Diðrik Jónsson Sigurjón Sighvatsson og Reynir Harðarsso

Í kjölfar undirritunarinnar á Húrra fór fram kynningarfundur fyrir íslenskt tónlistarfólk og eigendur höfundarréttar þar sem hugmyndir og áætlanir nýja fyrirtækisins voru kynntar.

Þetta höfðu Sölvi, Ólafur og Jón Diðrik um málið að segja:

„Útgáfubransinn er búinn að breytast mikið á undanförnum árum. Það vantaði nýja tegund af útgáfufyrirtæki sem gæti bæði sinnt nýrri tónlist og haldið með sóma utan um gullkistu íslenskrar tónlistar. Við eigum svo margar gersemar sem mætti lyfta enn meira og leyfa nýjum kynslóðum hlustenda að kynnast, bæði hér heima og út um allan heim. Það er mikilvægt að hafa í huga að tónlist er hlutfallslega stærri útflutningsgrein á Íslandi en í mörgum öðrum löndum. Björk, Sigur rós og fleiri hafa rutt veginn fyrir íslenskt tónlistarfólk en við þurfum líka að byggja upp þekkingu okkar á hinum hliðum tónlistariðnaðarins. Þar teljum við að ný tegund útgáfufyrirtækis geti haft hlutverki að gegna.“ – Ólafur Arnalds.

„Ég hef á mínum ferli átt í samskiptum við ýmsa útgefendur og mun vonandi geta nýtt þá reynslu, bæði góða og slæma, nú þegar ég er kominn hinum megin við borðið. Ég er þó ekki hættur að gera tónlist. Quarashi kemur aftur saman um verslunarmannahelgina og svo er ég líka að gera tónlist með hinni hljómsveitinni minni, Halleluwah. Það er ástríðan fyrir tónlistinni sem drífur mann áfram, bæði að búa hana til og núna að gefa út og aðstoða annað tónlistarfólk.“ – Sölvi Blöndal.

„Eins og flestir vita hefur tónlistarbransinn gengið í gegnum gríðarlegar umbreytingar síðustu ár. Það hefur tekið á að laga sig að gjörbreyttum aðstæðum en við hjá Senu erum stolt af því starfi sem hefur verið unnið síðustu ár. Við teljum að nú sé góður tími fyrir nýja og kraftmikla aðila að taka við keflinu og nýta þau tækifæri sem eru til staðar. Þeir sem taka nú við tónlistarrekstri Senu eru vel í stakk búnir til að nýta þau til fullnustu auk þess að skapa ný og áður óþekkt tækifæri með sinni reynslu, þekkingu og samböndum. Hér er um öflugan hóp að ræða með farsæla tónlistarmenn í fararbroddi og það er einkar ánægjulegt að geta skilið þennan mikilvæga hluta þjóðararfsins eftir í góðum höndum.” – Jón Diðrik Jónsson.

http://www.sena.is/

Comments are closed.