SNORRI BROS

0

snorri 1

Eiður Snorri og Einar Snorri eru með fremstu ljósmyndurum og kvikmyndagerðarmönnum heims en þeir hafa gert það heldur betur gott undir nafninu Snorri Bros. Snorri Bros hafa gert ótal mörg tónlistarmyndbönd, stuttmyndir og auglýsingar og tekið ljósmyndir fyrir stærstu tímarit í heimi af stærstu nöfnum skemmtanabransans. Björk, Green Day, R.E.M, Gwen Stefani og Busta Rhymes svo fátt sé nefnt er allt á listanum en nóg er framundan hjá drengjunum! Eiður og Einar Snorri eru viðmælendur vikunnar á Albumm.is og sögðu þeir okkur frá hvernig áhuginn á ljósmyndun og kvikmyndagerð kviknaði, hvernig það var að koma sér að í New York borg og brjáluðum partýum í Brooklyn með gerfi snjó!


Hvenær og hvernig kviknaði ykkar áhugi á ljósmyndun og kvikmyndagerð?

In a galaxy far far away, fyrir upphaf tíma og rúms … en í alvöru talað þá uppgötvuðum við ljósmyndun og kvikmyndagerð saman sem ungir forvitnir strákar og eiginlega fyrir algjöra tilviljun. Guðjón i OZ var góður vinur okkar á þessum tíma og eins stórhuga og hann er og hefur alltaf verið, ákvað hann að pródúsera svaka metnaðargjarnt músíkmyndband fyrir musical sem var verið að setja upp í Verslunarskólanum. Hann bað okkur um að hjálpa sér og við urðum strax ástfangnir af öllu þessu ferli og því ekki aftur snúið.

Hvenær hófst ykkar samstarf og hvernig kom það til?

Við höfum verið óaðskiljanlegir frá unga aldri, vorum saman á hverjum einasta degi eitthvað að grallarast. Þetta gerðist allt mjög eðlilega og eitt leiddi að öðru þangað til að við vorum staðfastir á því að við værum „on a mission from God,“ til að breyta heiminum með okkar myndum.

snorri bros og green day

Eiður og Einar Snorri ásamt hljómsveitinni Green Day á góðri stundu.

Eftir farsælan feril á Íslandi fluttuð þið til New York, hvernig var að koma til stóra eplisins og var ekkert erfitt að koma sér að í bransanum þar ytra?

Hugsandi til baka þá var það þessi sér Íslenska trölla trú á sjálfum sér sem sigldi með okkur yfir hafið i ljónagryfjuna New York. Fyrir unga break dansara frá Íslandi var þetta allt mjög spennandi. Við fórum reglulega á b-boy summit sem fyrirmyndir okkar í Rock Steady Crew héldu í South Bronx. Þetta var náttúrulega ótrúlegt ströggl peningalega séð en alltaf náðum við að bjarga okkur og hafa gaman að þessu í leiðinni. Okkar íbúð í Brooklyn var ávalt opin fyrir gesti og það var stanslausur straumur af vinum og líka vinum vina sem við kyntumst heima hjá okkur. Þrátt fyrir mikið stuð og partý þá vöknuðum við Einar alltaf langt á undan öllum og á meðan gestirnir okkar sváfu úr sér þynnkuna þá stormuðum við um Manhattan með möppuna okkar í leit að vinnu. Við urðum nokkuð góðir í að halda góð partý! Ég man að eftir einhverja ljósmynda töku þá vorum við með nokkra kassa af gerfi snjó sem við notuðum til að breyta allri íbúðinni okkar í winter wonderland. Það voru snjóskaflar allstaðar og black light, Storm effects og stropes, DJ’s og allur pakkinn. Þessi partý okkar urðu fræg og limmósíurnar streymdu yfir til Brooklyn í partý til okkar. Þarna voru allir! T.d. helstu photo editorarnir frá tímaritunum og eftir hvert partý glóaði síminn okkar og þegar hann fór að kólna aftur var kominn tími á  annað partý, og auðvitað varð að toppa það síðasta.

snorri 4

Snorri Bros.

Það sem spilaði sennilega líka inn í hversu vel okkur gekk var að við vorum svo grænir og héldum að það væri ekkert erfiðara að komast inn þarna ytra en heima á fróni. Við gerðum bara það sama og við höfðum alltaf gert heima. Til dæmis, þegar við vorum nýkomnir til New York fengum við fund með photo editornum á Spin Magazine, Nancy Leopardi (sem er enn góður vinur okkar í dag).  Hún hlær ennþá af minningunni þar sem við mættum möppulausir, aðeins með kassa með nokkrum svarthvítum myndum sem við höfðum tekið á Íslandi. Með hreinni einlægni sögðumst við hafa áhuga á að taka mynd fyrir forsíðu blaðsins og svo auðvitað líka opnir fyrir öðru líka. Nancy fannst við svo skemmtilega klikkaðir að hún varð að gefa okkur eitthvað verkefni eins og að mynda fyrir eitthvað lítið viðtal, sem við gerðum og þau á Spin fíluðu vel. Eftir u.þ.b. eitt ár vorum við komnir í credit-lista blaðsins sem einir af aðal ljósmyndurum blaðsins. Þessu þökkum við því að hafa alist upp á Íslandi þar sem manni er ekki kennt að eitthvað sé ekki hægt.

busta_rhymes

„Þegar við vorum að mynda fræga fólkið þá var það náttúrulega margir mismunandi persónuleikar sem við vorum að fást við en leiðinlegast eða erfiðast var að fást við fólk sem var búið að boxa sig niður í einverja mjög takmarkaða og þröngsýna ímynd. Okkur fannst rappararnir eiginlega vera erfiðastir að undantöldum Busta Rhymes og Outkast.“ Ljósmynd Snorri Bros.

Þið hafið unnið með mikið af frægu fólki eins og t.d. Green Day, Gwen Stefani og Björk svo fátt sé nefnt, er eitthvað eitt verkefni sem stendur uppúr og hvað er erfiðasta verkefnið ykkar til þessa?

Þegar við vorum að mynda fræga fólkið þá var það náttúrulega margir mismunandi persónuleikar sem við vorum að fást við en leiðinlegast eða erfiðast var að fást við fólk sem var búið að boxa sig niður í einverja mjög takmarkaða og þröngsýna ímynd. Okkur fannst rappararnir eiginlega vera erfiðastir að undantöldum Busta Rhymes og Outkast. Uppáhaldið mitt er án efa hún Björk okkar. Hreint ótrúlegt hvað hún er staðráðin í að gera eitthvað gott og alltaf til í að prófa eittvað nýtt. Ég gleymi aldrei einu augnabliki þegar hlutirnir voru ekki að ganga upp, svona augnablik þegar flestir hefðu orðið pirraðir og vilja stoppa. Hún kallaði alla saman í einhverskonar „group hug rugby style“ og þeytti orkunni á hærra plan. Ég man ekki hvaða myndataka eða verkefni þetta var en augnablikið er skýrt í hausnum á mér … kannski dreymdi mig þetta? En svona er hún. Svo árið 1999 datt inn til okkar skemmtilegt verkefni sem var alveg ótrúlega ævintýralegt. Volkswagen réð okkur til að búa til uppsetningarverk í formi fjögurra stuttmynda. Hvert þeirra hafði ákveðið þema; land, haf, loft og mannfólk. Tökur tóku um tvo mánuði og fórum við til þrettán landa til að taka upp allt efnið. Þetta var án vafa eftirmynnilegasta verkefnið til þessa. Ég man ekki hvaða myndataka eða verkefni þetta var en augnablikið er skýrt í hausnum á mér … kannski dreymdi mig þetta? En svona er hún.

„Uppáhaldið mitt er án efa hún Björk okkar. Hreint ótrúlegt hvað hún er staðráðin í að gera eitthvað gott og alltaf til í að prófa eittvað nýtt.“ Ljósmynd Snorri Bros.

Eitt af ykkar verkefnum var gerð myndbands með hljómsveitinni R.E.M. við lagið Daysleeper, hvernig kom það til og hvernig var að vinna með svona stórri hljómsveit?

Það var algjör draumur og svolítið sniðugt hvernig það kom til! Sex mánuðum áður en við fengum þetta verkefni vorum við mjög óþreyjufullir yfir að fá ekkert vídeó eða auglýsingaverkefni og því ákváðum við að við þyrftum að vinna í demó spólunni okkar. Við vorum orðnir nokkuð uppteknir við að taka ljósmyndir fyrir helstu tímarit borgarinnar. Fyrir tilviljun fórum við að tilraunast með að animate-a ljósmyndirnar okkar og vissum þá strax að þarna vorum við dottnir inn á nýjan stíl sem við þyrftum að þróa. Við unnum dag og nótt í að tilraunast og klippa saman lítil myndbönd og eyddum næstu mánuðum í að byggja upp nýjan real. Fórum til dæmis til Íslands og gerðum músíkmyndband fyrir hip hop sveitina Subterranian þar sem við tókum þessa nýju ljósmynda-animation-tækni fyrir sem við vorum búnir að vera að þróa.

Micheal Stipe R.E.M.

Michael Stipe, söngvara R.E.M. Ljósmynd Snorri Bros.

Við vorum svo í verkefni i Los Angeles að skjóta Foo Fighters fyrir Details Magazine og eftir daginn fórum við á hótel barinn og hittum þar Billy Joe söngvara Green Day en við höfðum unnið með honum nokkrum sinnum áður. Hann var að segja okkur frá nýju plötunni sem þeir voru að klára og auðvitað sem sannir soldiers of fortune buðum við honum okkar þjónustu við að taka ljósmyndir fyrir albúmið. Mánuði seinna vorum við aftur komnir til LA að gera akkúrat það. Hönnuðurinn sem hannaði umslagið á plötunni bauð okkur í drykk með vini sínum Michael Stipe, söngvara R.E.M. Eftir þetta magical kvöld sendum vid Michael Stipe nýja reelinn okkar og þannig gerðist það. R.E.M. voru frábærir að vinna með, og verkefnið draumi líkast, þó sérstaklega Tokyo tökurnar þar sem við mynduðum um allar trissur.

Hvernig munduð þið lýsa ykkar stíl og hvað er trikkið við að ná góðri ljósmynd eða að gera gott myndband?

Benni Vals ljósmyndari sagði okkur einu sinni frá því hvað það þarf til að taka góða ljósmynd og ég ætla hér með að uppljóstra því mikla leyndarmáli. Það er að fara á húrrandi fyllerí kvöldið fyrir mikilvæga töku þannig að manni líði hræðilega á meðan tökum stendur og því ekki viss með neitt á meðan tökunni stendur. Einnig hjálpar líka mikið að vera minni en viðfangsefnið sem verið er að mynda og maður þarf að líta upp til viðkomandi. Það hefur oft verið skálað fyrir Benna og jafn oft hefur honum verið bölvað. Skál fyrir Benna!

Hvaðan fáið þið innblástur fyrir ykkar list og hvernig er vinnuferlinu háttað?

Innblásturinn kemur allstaðar að og ég held að umhverfið hafi ómeðvitað mikil áhrif. Við höfum alltaf verið ótrúlega latir í að fara á sýningar og gallerý og mjög sjaldan kvikna hugmyndir útfrá slíku. Hugmyndir flæða mest inn þegar ímyndunaraflinu er algjörlega sleppt lausum taum og hugmyndum leift að flæða inn án væntinga. Maður grípur svo bara þær hugmyndir sem passa best hverju sinni. Einn besti staður i heimi til að láta hugmyndir fæðast er að hossast um í neðanjarðarlest New York borgar. Ekkert mikið hefur breyst í okkar vinuferli frá því að við vorum strákar. Við leifum þessu að gerast eins organic og hægt er. Auðvitað höfum við okkar hlutverk í samstarfinu en það eru þó engar reglur sem ekki má brjóta.

snorri bros, president bongo, serengeti

Úr myndbandinu Greco með President Bongo.

Hvernig ljósmyndavél finnst ykkur best/skemmtilegast að nota, hvernig vinnið þið myndirnar og hvort er betra Digital eða Filma?

það er eiginlega mjög fyndið að við höfum aldrei verið miklir tækja kallar. Við vorum nú þektir í Reykjavík fyrir að vera einu ljósmyndararnir sem áttu ekki myndavél. Örugglega mjög pirrandi fyrir okkar vini því við vorum alltaf að suða um að fá eittvað lánað. Við notuðum því bara það sem við gátum. Í New York var það sama sagan, nema þar leigðum við græjur fyrir hvert verkefni sem var mjög heppilegt þar sem við gátum notað hvaða græjur sem okkur datt í hug, og vorum því fullkomlega frjálsir í hugmyndavinnuni og völdum þær græjur sem pössuðu hverju sinni. Við fögnum digital tækninni og söknum filmunnar ekki mikið. Við vorum þó frekar seinir að svissa yfir og þá sérstaklega í sjónvarps auglýsingum þar sem allt var skotið á 35mm filmu.

snorri Bros Shooting President Bongo video

Strákarnir í tökum við lagið „Greco“ af plötunni Serengeti með President Bongo.

Það má segja að bakgrunnur ykkar komi frá svokölluðu Urban Culture eins og breakdans, graffiti og tónlist, hefur það notast ykkur í ykkar listsköpun og hvað er við þá menningu sem heillar ykkur?

Við höfum alltaf verið heillaðir af uppruna hip hop kúltúrsins og þá aðalega break dansi. Það concept með að stíga inn í hringinn til að sýna þín nýjustu spor og setja allt mannorð þitt undir og að gera sig ekki að fífli er eitthvað svo primal og fallegt. Þessi bransi sem við erum í er svolítið þannig.

Hvaða verkefni eruð þið að fást við núna og hvað er framundan hjá Snorri Bros?

Við vorum að taka saman aftur eftir tíu ára pásu. Við ákváðum að fókusera á creative verkefni til að stilla saman strengina. Erum t.d. búnir að vera að vinna að verkefni með tónlistarmanninum Paul Haslinger sem var í hljómsveitinni Tangerine Dream. Verkefnið samanstendur af níu einstæðum músíkmyndböndum sem verða svo klippt saman í art music film.

Svo náttúrulega President Bongo! Við höfum verið að gera nokkrar auglýsingar inn á milli til að halda okkur á floti. Við erum einnig að fara í samstarf með honum Guðjóni í OZ og er það allt mjög spennandi.

Fylgist með Snorri Bros á:

Facebook.com

Snorricam.com

Snorribros.com

snorri bros logo

Comments are closed.