SNORRI HELGASON

0

snorri helgason (2)

Snorri Helgason er einn vinsælasti tónlistarmaður landsins en hann er viðmælandi vikunnar á Albumm.is. Snorri gerði garðinn frægann með hljómsveitinni Sprengjuhöllinni en er nú einn síns liðs ef svo má orða það, en með honum er átta manna hljómsveit. Snorri sagði Albumm frá tónlistarlegu uppeldi sínu, hvaðan hann fær innblástur fyrir sína tónlistarsköpun og Reykjavík Folk Festival en hann er einn skipuleggjandi hátíðarinnar.


Hvenær byrjaði þinn tónlistaráhugi og hvenær byrjaðir þú að semja þína eigin tónlist?

Ég hef haft áhuga á tónlist svo lengi sem ég man eftir mér en ég byrjaði ekki að spila á gítar fyrr en ég var sirka 16-17 ára. Um leið og ég kunni tvö grip samdi ég lag úr þeim og hef verið að gera það síðan.

snorri helgason (1)

Ljósmyndir: Hafsteinn Viðar Ársælsson fyrir albumm.is

Hvað er það við tónlist sem heillar þig og hvaðan færðu innblástur fyrir þína tónlistarsköpun?

Ég fæ innblástur fyrir minni sköpun úr öllu í kringum mig. Alltaf. Hvort sem það er eitthvað gott eða slæmt. Tónlistin er grauturinn sem kemur út þegar þú ert búinn að taka allt inn sem lífið hendir í þig. Þetta er orðið algjörlega órjúfanlegur hluti af mér og ég veit ekki hvernig annað fólk dílar við lífið án þess að geta komið hlutum frá sér í gegnum tónlist. Ég væri löngu orðinn sturlaður ef ég gæti ekki gert músík.

Þú kemur eflaust frá heimili þar sem tónlist var ekki víðs fjarri telurðu að það hafi haft mikil áhrif á þig og þína tónlistarsköpun?

Já alveg tvímælalaust. Ég og systur mínar vorum alltaf að spá í tónlist og tónlistarsögu þegar við vorum yngri svo er pabbi náttúrulega tónlistarmaður og það voru haldnar hljómsveitaæfingar í stofunni heima þannig að þetta hefur einhvern vegin seitlað inn.

snorri helgason (3)

Ljósmyndir: Hafsteinn Viðar Ársælsson fyrir albumm.is

Hvað gerir góða tónleika og hvað er eftirminnilegasta giggið?

Góðir tónleikar er þegar eitthvað samband myndast milli áhorfenda og tónlistarmannsins. Einhver orkuviðskipti sem að maður finnur ekki neins staðar annar staðar. Það eru bestu giggin þegar maður nær að tengjast því dæmi.

Þú varst meðlimur í hljómsveitinni Sprengjuhöllinni. Hvernig er að semja tónlist einsamall og saknarðu aldrei að vera í hljómsveit?

Já ég sakna þess að vera í hljómsveit. Ég er í raun og veru samt í hljómsveit í dag. Snorri Helgason er 8 manna hljómsveit í dag og við hjálpumst að við að hnoða saman lögin mín og gera útsetningar af þeim. En það er allt öðruvísi en í Sprengjuhöllinni. Þar var ég stundum bara gítarleikari að spila undir og hjálpa til við að útsetja og vinna lög Bergs Ebba og hinna gauranna. Í Snorra Helgason bandinu er ég alltaf í frontinum, að syngja og svoleiðis. Það væri næs að fá að vera aftur bara gítarleikari svona einu sinni og einu sinni. Það er svo sem mjög svipað að semja tónlistina núna og þá. Ég sem lögin oftast einn heima og kem svo með þau nokkuð mótuð til hljómsveitarinnar alveg eins og ég gerði í Sprengjuhöllinni.

Hvaða plötu geturðu alltaf sett á fóninn og hvað er það við þá plötu sem heillar þig?

Ég get alltaf hlustað á John Wesley Harding með Bob Dylan. Ég er búinn að hlusta á þessa plötu líklega 300 sinnum. Sögurnar, sándið og attítjúdið nær mér alltaf.

snorri helgason (4)

Ljósmyndir: Hafsteinn Viðar Ársælsson fyrir albumm.is

Nafn þitt kemur oft upp þegar talað er um skemmtistaðinn Húrra. Hvað ertu að gera þar og hvernig kom það ævintýri til

Já ég vinn við að bóka tónleika og aðra dagskrá á Húrra. Það kom bara þannig til að þegar staðurinn opnaði fyrir næstum 2 árum hafði Jón Mýrdal, eigandi  samband við mig og bað mig um að spila í opnunarpartíinu. Mér leist vel á Jón og staðinn og fannst hann eiga möguleika á því að verða mjög næst tónleikastaður þannig nokkrum mánuðum seinna spurði ég Jón hvort að honum vantaði aðstoð við að bóka á staðinn og hann sagði bara já og réði mig á staðnum. Ég er búinn að vinna þarna síðan þá.

Þú sérð um tónlistarhátíðina Reykjavík Folk Festival sem fram fer á Kex Hostel. Hvernig kom það til og hvað geturðu sagt okkur um þá hátíð?

Ólafur Þórðarsson sem var með pabba mínum í Ríó Tríó stofnaði þessa hátíð 2010 og hélt hana á Rósenberg fyrstu árin. Þegar hann féll frá var ég beðinn um að taka við og þá ákváðum við að færa hana yfir í Gym & Tónik salinn á Kex Hostel og breyta aðeins um áherslur.  Við reynum að blanda saman ólíkum artistum frá ólíkum áttum sem eiga það þó sameiginlegt að hafa eitthvað unnið með þjóðlagatónlistararfinn. Það er alltaf mjög gaman að stilla upp mjög ólíkri tónlist á sama kvöldi og búa til einhvern bragðgóðan búðing úr því.

snorrisvarthvitt-7

Ljósmyndir: Hafsteinn Viðar Ársælsson fyrir albumm.is

Hvenær er Reykjavík Folk Festival og hvað er á boðstólnum í ár?

Hún verður haldin 10 – 12 mars á Kex Hostel. Það er geggjað line-up í ár: sóley, Högni Egilsson, Valdimar Guðmunds og Örn Eldjárn, Elín Ey, Ellen Kristjáns, Ragga Gröndal, Ingunn Huld, Skuggamyndir frá Býzans og Bangoura Band. Ég hlakka geðveikt til að sjá þetta allt. Það myndast alltaf mjög næs stemmning á þessari hátíð. Salurinn er lítill og fólk er mikið að hlusta og það verður til einhver alveg sértök stemmning. Það kostar litlar 3.000 kr inn á hvert kvöld eða 8.000 kr. Fyrir 3 daga passa. Það er ekki neitt fyrir þetta geðveika line-up þannig að ég myndi tryggja mér miða í forsölu sem fyrst. Síðast var uppselt og ég býst við sams konar mætingu í ár.

Reykjavík Folk Festival viðburður á facebook
https://www.facebook.com/helgasonsnorri

Comments are closed.