„Slepjulegur fír sem leggur allt í sölurnar til að táldraga kvenmann”

0

Nákvæmlega þremur árum eftir útgáfu síðustu sólóplötu, snýr John Grant aftur með nýja plötu, Love Is Magic en útgáfudagurinn er 12. október næstkomandi. Það er Bella Union sem gefur plötuna út en Alda Music gefur hana út á Íslandi. John sendir nú frá sér lag af væntanlegri skífu en það er lagið „He’s Got His Mother’s Hips.” Lagið minnir um margt á raftónlist níunda áratugarins.

„Lagið fjallar um slepjulegan fír sem leggur allt í sölurnar til að táldraga kvenmann, þrátt fyrir að fórna sjálfsvirðingu sinni um leið og gera sig að algeru fífli. Þetta er skemmtilegt lag sem byggir þó á fyrirlitningu.“ – John Grant

Sjón er sögu ríkari, en myndband við lagið er einnig komið út. Casey Redmond og Ewan Jones Morris leikstýrðu myndbandinu, en áður hafa þeir unnið að myndböndum við lögin Global Warming, Marz and Chicken Bones.

„Mér fannst vera kominn tími á annað Peter Gabriel myndband í anda Sledgehammer myndbandsins og John leist vel á það“. – Ewan

Þessi fjórða sólóplata er sú rafskotnasta sem John hefur gert en mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan hin frábæra Queen Of Denmark leit dagsins ljós árið 2010, en það var fyrsta sólóplata Grant. Hann hefur sífellt verið að færast nær hinum rafdrifna hljóðheimi sem svífur yfir vötnum á nýju plötunni og má því segja á einhvern hátt að hér sé um rökrétt framhald að ræða. Fyrsta lag í spilun er titillag plötunnar en textamyndband við lagið má sjá hér og kynningarmyndband vegna plötunnar má sjá hér.

Upptökustjórn Love Is Magic var í höndum Benge (Ben Edwards) hljóðgerflasérfræðings og safnara, meðlims raftríósins Wrangler, en Benge og John unnu saman fyrr á árinu undir nafninu Creep Show, á plötunni Mr. Dynamite.

„Love Is Magic kemst næst þeim hljómi sem ég hef ávalt verið að leita eftir á plötum mínum, en kannski ekki haft þekkinguna til að nálgast“ – John Grant

John naut einnig aðstoðar Paul Alexander úr hljómsveitinni Midlake við gerð plötunnar en Paul nam tónlistarfræði við við UNT háskólan í Denton í Texas, með áherslu á Jazz.

„Ég vissi að Paul er fær um að gera frábærar raddanir, svo ég sleppti honum lausum í bakröddunum. Hann kemur ávalt með áhugaverða nálgun á viðfangsefnið,  frekar en þá augljósu, og hefur auk þess spilað bestu bassalínur sem ég hef heyrt.“ – John Grant

Saga John Grant er vægast sagt ævintýraleg: Þegar hljómsveit hans The Czars lagði upp laupana tók hann sér hlé frá tónlist í fimm ár, en þegar hann tók til starfa á ný naut hann strax mikillar velgengni sem sólólistamaður. Plötur hans hafa ratað á vinsældalista, hann var tilnefndur til BRIT verðlauna sem bersti karlkyns sólólistamaðurinn ásamt Eminem og Justin Timberlake. Sinead O’Connor og Tracey Thorn hafa sungið á plötum John, auk þess sem hann hefur komið fram með stórstjörnum á borð við Alison Goldfrapp og Kylie Minogue. Svona mætti lengi telja, en nú er tími Love Is Magic.

Þrettán teiknarar að meðtöldum leikstjórunum lögðu hönd á plóg við gerð myndbandsins sem má sjá hér:

Skrifaðu ummæli