SKÝJUM OFAR HELDUR UPP Á 20 ÁRA AFMÆLI SITT Á PALOMA 25. JÚNÍ

0

skýjum

Fráfarandi forseta, allir forsendaframjóðendur og nýkjörinn leiðtogi lýðveldisins eru boðnir sérstaklega velkomnir á 20 ára afmælisfagnað Skýjum ofar í miðborg Reykjavíkur á kosninganótt, laugardagskvöldið 25. júní. Samkoman fer fram á skemmtistaðnum Paloma. Þar kemur fram landslið íslenskra plötusnúða.

Næsta laugardag kjósa Íslendingar sér nýjan forseta. Þá verða einnig 20 ár liðin frá því útvarpsþátturinn Skýjum ofar fór fyrst í loftið í íslensku útvarpi, en í framhaldi þess hófu Skýjum ofar samkomurnar göngu sína á skemmtistöðum í höfuðborginni og á tónlistarhátíðum á borð við Iceland Airwaves og Jazzhátíð í Reykjavík. Því verður fagnað með glæsilegri dagskrá í miðborg Reykjavíkur á kosninganótt.

Eldar Ástþórsson.

Skýjum ofar og Ólafur Ragnar Grímsson – 20 ár á toppnum!

Í júní 1996 var Ólafur Ragnar Grímsson kjörinn forseti Íslands. Þennan sama mánuð hóf útvarpsþátturinn Skýjum ofar göngu sína á X-inu FM 97.7 undir ákalli sínu um framúrstefnu og framfarir. Í framhaldinu tóku við samkomur tengdar þættinum á hinum ýmsu skemmtistöðum höfuðborgarinnar, sem flestir heyra sögunni til í dag og má þar nefna; Tunglið, Rósenberg, Tetriz og Veitingahúsið 22. Þátturinn hóf síðar göngu sína á ríkisútvarpinu Rás 2.

Landsliðið kemur fram í tilefni tímamótanna

Landslið íslenskra plötusnúða kemur fram á 20 ára afmælishátíð Skýjum ofar. 11-manna byrjunarlið kvöldsins samanstendur af eftirfarandi plötusnúðum; Addi, Bjössi, Eldar, Ewok, Frímann, Grétar G, Plasmic, Reynir, Skeng, Tandri og síðast en alls ekki síst Thor sem mun koma fram með sérstakt Ajax rave sett. Á samkomunni munu gestir fá að heyra tónar nútímans, í bland við klassíska jungle, drum & bass, house og techno tónlist. Óvíst er hvort kalla þarf til varamenn, en að sjálfsögðu er skilið eftir pláss í dagskránni fyrir nýkjörinn forseta lýðveldisins.

Grétar G

Grétar G.

Skýjum ofar

Skýjum ofar hóf göngu sína sem útvarpsþáttur á X-inu í júní árið 1996, sama mánuð og Ólafur Ragnar Grímsson var kosinn í embætti Forseta Íslands. Í tengslum við þáttinn voru haldnar skemmtanir á tónlistarhátíðum og skemmtistöðum höfuðborgarinnar. Skýjum ofar hefur ávalt einbeitt sér að því að breiða út fagnarerindi jungle og drum & bass danstónlistar undir ákalli sínu um framúrstefna og framfarir. Á 20 ára afmælishátíðinni verður þó boðið upp á margskonar tegundir danstónlistar, ekki aðeins jungle og drum & bass, heldur líka  rave, house og techno úr nútíð – en aðallega þátíð. Þátturinn var í umsjá Eldars Ástþórssonar og Arnþórs „Adda ofar“ Snæs Sævarssonar, en að honum komu fjölmargir plötusnúðar, m.a. DJ Reynir. Haldið var upp á 15 ára afmæli Skýjum ofar árið 2011 og þá komust færri að en vildu.

Hér má sjá myndband af fimmtán ára afmæli Skýjum Ofar.

Comments are closed.