Skuggahliðar mannskeppnunnar grandskoðaðar

0

Hljómsveitin Different Turns hefur gefið út frá sér plötuna ,You are pathetic á Spotify, iTunes, Bandcamp og fleiri vefmiðlum. Platan fylgir eftir fyrri plötu sveitarinnar if you think this is about you … you´re right sem kom út árið 2014 og fékk frábærar viðtökur gagnrýnenda.

Different Turns er samvinnuverkefni tónlistarmannanna Garðars Borgþórssonar og Hálfdáns Árnasonar. Á þessari plötu fengu þeir félagar til liðs við sig söngvarann Ragnar Ólafsson og trommarann Skúla Gíslason, ásamt öðru frábæru tónlistarfólki. Hljómsveitin leyfir sér að fara í allar áttir með tónlist sína en best væri að lýsa henni sem elektrónísku rokki og fjalla textarnir um skuggahliðar mannskepnunnar.

Platan var tekin upp í hljóðveri Borgarleikhússins, þar sem Garðar starfar sem hljóðhönnuður og var hún hljóðblönduð af honum. Umslagið var einnig hannað af Garðari, en hann er jafnframt höfundur allra texta. Mastering var í höndum Axels ,,Flex” Árnasonar.

Hljómsveitin er þessa dagana á stífum æfingum og mun leika á ýmsum tónleikum í vor. Lifandi flutningur verður í höndum Garðars Borgþórsonar (söngur, gítar og hljómborð), Hálfdáns Árnasonar (bassi), Skúla Gíslasonar (trommur), Ragnars Ólafssonar (söngur og hljómborð) og Baldvins Freys Þorsteinssonar (gítar).

Skrifaðu ummæli