SKÁLMÖLD

0

8

Skálmöld er ein vinsælasta hljómsveit Íslands en vinsældirnar komu meðlimum sveitarinnar í opna skjöldu. Skálmöld liðar hafa borið kyndilinn hátt frá árinu 2009 og ætla þeir að halda honum gangandi um ókomna tíð. Albumm náði tali af Björgvin Sigurðssyni söngvara og gítarleikara sveitarinnar. Björgvin sagði okkur meðal annars frá eftirminnilegustu tónleikunum, hvernig vinsældirnar komu þeim á óvart og hvað er framundan hjá sveitinni svo fátt sé nefnt.


Hvað er Skálmöld búin að vera starfandi lengi og hvað hafið þið gefið út margar plötur?

Ég (Björgvin Sigurðsson) og Bibbi (Snæbjörn, bassaleikari) höfum verið bestu vinir í rúm 20 ár og spilað í ótal hljómsveitum saman. Við vorum búnir að tala oft um það að stofna þungarokkshljómsveit saman aftur. Við vorum í ýmsum metalböndum á unglingsárum og semja tónlist og mögulega spila annað slagið á tónleikum. Þetta varð þó aldrei neitt meira en saklaust spjall yfir bjór eða kaffibolla. Bibbi tók svo af skarið seinni hluta árs 2009 og setti sig í samband við okkur hina og úr varð Skálmöld. Átti ekki að verða neitt meira en nokkurs konar saumaklúbbur, nokkrir gaurar sem hittast einu sinni í viku og spila þungarokk saman, síðan þá höfum við gefið út fjórar plötur. Þrjár hljóðversplötur, Baldur (2010), Börn Loka (2012) og Með vættum (2014) og eina tónleikaplötu með Sinfóníuhljómsveit Íslands (2013).

smk (2)

Hvað voruð þið að gera á undan Skálmöld?

Allan fjandann. Ég og Bibbi stofnuðum saman okkar fyrstu hljómsveit 1991 og vorum síðan í hinum ýmsu metal- og pönkböndum fram undir aldamót. Langlífust af þeim er hljómsveitin Innvortis. Hinir gaurarnir hafa einnig verið á fullu að semja og spila tónlist frá því að þeir byrjuðu að spila í hljómsveitum á unglingsaldri. Sumar af þessum hljómsveitum voru að spila einhvers konar þungarokk, aðrar alls ekki. Meðal hljómsveita sem meðlimir Skálmaldar hafa verið í eru Hraun, Kalk, Klamidýa X, Ljótu hálfvitarnir, Innvortis og Dætrasynir, auk fjölda annarra.
Ég er hins vegar sá okkar sem hef hvað minnst verið viðloðandi tónlist. Þegar ég hætti í Innvortis í kringum árið 2002 eða 2003 spilaði ég nánast ekki neitt fyrr en við stofnuðum Skálmöld. Það var helst að ég hafi leyst af í Innvortis á örfáum tónleikum.

Þið urðuð mjög vinsælir strax frá fyrstu plötu, kom það ykkur á óvart?

Já, þetta kom okkur gjörsamlega í opna skjöldu. Markmið okkar með fyrstu plötunni var ekkert annað en að taka upp þokkalega þungarokksplötu, plötu sem við gætum tekið fram á gamalsaldri og verið sæmilega stoltir af. Annað átti þetta ekki að vera. Að sjálfsögðu lögðum við okkur fram við að semja góð lög og við vildum gera góða plötu, en það að þetta hafi náð einhverjum vinsældum var eitthvað sem okkur óraði ekki fyrir.
Við rifumst svolítið um það á sínum tíma hvort við ættum að láta gera fimmhundruð eða þúsund eintök af fyrstu plötunni. Á endanum gerðum við þúsund og maður hugsaði með sér að það væri fínt að eiga slatta af eintökum í geymslunni, maður gæti notað þau í gjafir eitthvað fram á gamalsaldur og þetta var í alvörunni svona. Þannig vinsældirnar komu alveg óvart.

Eruð þið allir harðir metal hausar eða hlustið þið einnig á aðrar tónlistarstefnur?

Við eigum það sameiginlegt, að Gunna hljómborðsleikara undanskildum, að við erum allir metlhausar. Það er þar sem hjartað slær. Vissulega hlustum við á fullt af öðru stöffi, en metallinn stendur okkur næst og hefur alltaf gert. Ég hef til að mynda alltaf hlustað mikið á pönk og geri enn. Gunni er hins vegar með klassískan bakgrunn og hafði þegar við stofnuðum Skálmöld voða lítið hlustað á þungarokk. Það er hins vegar ekkert endilega slæmt. Hann kemur með fullt af hlutum inn í bandið sem við myndum aldrei gera, hefur svolítið ómengaða sýn á þungarokkið og vill bara búa til góða tónlist hvaða nafni sem hún kallast. Mér finnst það miklu frekar kostur en ókostur, það stækkar hljóðheiminn okkar og gefur honum meiri dýpt og breidd.

2

Hvað er það skemmtilegasta við það að vera í Skálmöld?

Frá því að við stofnuðum þessa hljómsveit hefur verið alveg ótrúlega gaman að vera í Skálmöld. Það hefur gengið alveg fáránlega vel hjá okkur og við höfum spilað á ótrúlega mörgum skemmtilegum tónleikum, gefið út fjórar plötur sem við erum stoltir af og fengið tækifæri til að ferðast út um allar koppagrundir að spila tónlistina okkar. Það hefur ekkert alltaf verið auðvelt og það er alveg ótrúlega mikil vinna sem liggur að baki þessu öllu og vissulega hafa komið stundir þar sem maður spyr hvers vegna í andskotanum maður er að þessu. En þegar öllu er á botninn hvolft þá hefur þetta verið alveg fáránlega gaman. Við erum allir miklir og góðir vinir og okkur leiðist aldrei þegar við erum saman. Hvort sem við erum að spila í Eldborg eða á Gauknum, spila Kvaðningu í fimmhundruðasta skipti á æfingu, semja eða taka upp, þá er þetta einhvern veginn alltaf gaman og það er það sem skiptir máli. Þegar þetta fer að verða leiðinlegt þá er kominn tími til að hætta.

Þið spilið ansi mikið út fyrir landssteinana, eruð þið orðnir þekktir erlendis?

Nei, ég myndi nú ekki segja það. Við erum vissulega smám saman að skapa okkur eitthvað nafn innan þessarar senu en ég myndi ekki segja að Skálmöld væri þekkt nafn. Við höfum farið í fjórar mislangar tónleikaferðir um Evrópu, auk fjölda annarra styttri ferða, og maður finnur alveg fyrir því að það skiptir máli. Þetta er bölvað hark og það sem telur mest er að spila. Við finnum alveg mun þegar við heimsækjum borg í annað eða þriðja skipti að það eru fleiri sem þekkja til okkar. Við Íslendingar eigum orðið eitt þokkalega stórt nafn innan þungarokkssenunnar og það eru Sólstafir. Þeir eru búnir að vera í þessu harki í u.þ.b. 15 ár og það er fyrst núna sem nafnið er að verða þokkalega stórt. Það telur alveg að eiga svona band. Við spilum varla á tónleikum erlendis öðruvísi en að einhver komi til okkar og segist þekkja Sólstafi, eða að viðkomandi hafi kynnst Skálmöld af því við komum frá Íslandi eins og Sólstafir.

sm

Hvað er það eftirminnilegasta sem þið hafið lent í á tónleikum?

Gunni spilaði fárveikur í Hofi á Akureyri eitthvert skiptið. Ældi hraustlega, oft og mikið, á meðan tónleikum stóð. Það var hressandi.
Spiluðum líka í kulda og hálfgerðu myrkri á Keflavík Music Festival fyrir tveimur árum. Það var öðruvísi, en gaman.
Svo var líka alveg ótrúleg upplifun að spila í Eldborg með sinfóníuhljómsveit og þremur kórum. Það var eitthvað alveg einstakt og eitthvað sem mun lifa með manni um ókomna tíð.

Hvar sjáið þið ykkur eftir tíu ár?

Hahaha! Jón Geir verður rétt að detta í fimmtugt þá. Ég ætla ekki einu sinni að byrja að hugsa um þetta.

Hvað er á döfinni hjá Skálmöld?

Það er ýmislegt framundan. Við erum búnir að staðfesta þónokkur gigg bæði hér heimaog erlendis núna í sumar og fram á haust. Fullt af spennandi verkefnum þar. Við erum svo á leiðinni í tæplega fjögurra vikna tónleikaferðalag um Evrópu sem hefst um miðjan nóvember. Við munum tilkynna um það á næstu vikum, þegar öll stærstu skipulagsatriðin hafa verið afgreidd. Það er spennandi túr, fullt af stöðum sem við höfum aldrei  heimsótt áður. Verður eflaust mjög skemmtilegt.
Svo væri gaman að fara að spá í í nýju efni svona þegar það fer að róast í þessu. Okkur langar að minnsta kosti ekki að hætta að búa til tónlist. Ekki alveg strax.

Heimasíðahttp://skalmold.is/

Facebookwww.facebook.com/skalmold

Twitterwww.twitter.com/SkalmoldIceland

Instagramwww.statigr.am/skalmold

Flickrwww.flickr.com/photos/skalmold

YouTubewww.youtube.com/Skalmold

 

 

 

 

Comments are closed.