Skærustu stjörnur jaðarpopps blása til gamaldags dansiball

0

Í kvöld 27. desember verður blásið til heljarinnar gamaldags dansiballs í iðnó. fram koma tvær af skærustu stjörnum jaðarpopps á stórreykjavíkursvæðinu. Teitur Magnússon og Bagdad Brothers.

Teitur Magnússon mætir til leiks ásamt hljómsveit og flytur lög af plötum sínum 27 og Orna í bland við hressandi tökulög. fyrri plata Teits, 27, var tilnefnd til norrænu tónlistarverðlaunanna 2016. Orna, sem kom út síðastliðið sumar, hefur hlotið vægast sagt jákvæðar viðtökur.

Bagdad Brothers hafa verið afar heitir upp á síðkastið. að venju koma þeir til með að spila frumsamið efni í léttum dúr – og stóra sjöundin er aldrei langt undan. stuttskífa er væntanleg frá sveitinni fljótlega eftir áramót, svo það má búast við glás af nýjum lögum, þó slagararnir fái auðvitað líka sitt pláss í settinu.

búast má við því að uppákoma þessi verði hin besta skemmtun, og ágætasta afsökun til að sletta aðeins úr klaufunum eftir röð óþægilegra fjölskylduboða og annarra jólaleiðinda dagana á undan. mælst er til þess að gestir dragi fram dansskóna og búi sig undir að hrista sig við lifandi tónlist frameftir kvöldi. plötusnúðateymið marbendill & hexía tekur svo við og leikur fyrir dansi að tónleikunum sjálfum loknum.

miðaverð eru 2.500 krónur í forsölu, og við hurð, en þó er mælst til þess að fólk hafi hraðar hendur, hafi það hug á að festa kaup á miða. allur ágóði fer í að borga blönku listafólki og skipuleggjundum. Einnig er hægt að kaupa miða á Miði.is

rétt er að benda á að ef fólk sér ekki fram á að geta keypt miða sökum fjárhags, ætti það ekki að koma í veg fyrir að það geti mætt. hægt er að hafa samband í gegnum tölvupóstfangið postdreifingutgafa@gmail.com og óska eftir miða. nafnleyndar er gætt, sé þess óskað.

Skrifaðu ummæli