Sjáðu kossinn – Nýtt tónlistarmyndband frá Mosa

0

Tónlistarmaðurinn Mosi sendir frá sér sjóðheitt myndband við nýtt lag sem ber heitið „My Little World“ en hugmyndin af myndbandinu kom út frá atriði úr Mulholland Drive eftir David Lynch.

„Við ákváðum að fara dýpra í frásögn án þess að segja eina flata sögu, viljum að hver og einn túlki þetta á sinn hátt. Á sama hátt og hver og einn túlkar tónlist. Vorum að einhverju leyti undir áhrifum frá Lynch en fórum samt ekki inn í hans hugarheim en það er óhjákvæmilegt að vera ekki undir einhverjum áhrifum þegar verið er að skapa. Meðvitað eða ómeðvitað.“ – Kristjàn K.

Myndbandið er framleitt af Kraumar og Kristján K. leikstýrir því. Í myndbandinu má sjá hljómsveitar meðlimi, Frikka, Tinnu Katrínu og Mosa takast á við tilfinninga hlutverk, en ásamt þeim leikur Sigga Elefsen dularfulla stúlku í myndbandinu sem kemur og stelur senunni.

Kristján K.

Þetta er annað myndbandið sem Mosi gefur út á þessu ári en fyrir mánuði síðan kom út myndband við lagið „Another Weekend,“ þar sem hann dansar einn úti á túni en það vídeó er endurgerð af gömlu myndbandi frá 1979 við lagið „Wuthering Heights“ með Kate Bush.

„Ég er mikið að leika mér af því að endurnýta gamalt, bæði í tónum og mynd. Ekki alltaf eins augljóslega og með Kate Bush vídeóið en þá má segja að þetta sé smá þema fyrir nýju plötuna sem kemur út í haust og mun bera nafnið Next New Shit. Ég vill samt ekki segja frá öllum tilskotum því partur að leiknum er að fatta það, eða ekki.“ – Mosi.

Á morgun föstudaginn 25. maí ætlar Mosi að halda upp á þessar tvær útgáfur með tónleikum sem haldnir verða á Boston. Tónleikarnir byrja klukkan 22.00 og það er frítt inn. Hljómsveitin mun spila fullt af nýjum lögum og remixaðar útgáfur af eldra efni í bland.

Mosi

Búið er að lofa mjög dansvænu prógrammi en síðan taka Tommi White og Lewis Copeland við og þeyta skífum eftir tónleikana með eðal hústónlist í boði.

„Ég mun grípa í bongo trommurnar og djamma smá með þeim félögum en það er fátt betra en góð hústónlist með lifandi slagverki.“ – Mosi

Lagið „My Little World (feat. Tinna Katrín) er að finna á öllum helstu tónlistarveitum í dag – Spotify, Amazon, iTunes, Tidal, Youtube, Soundcloud, Google & Deezer svo eitthvað sé nefnt en tónlist Mosa má einnig finna á mosimusik.com.

Skrifaðu ummæli