SINGIMAR DUO OG HELGI Á TÓNLEIKUM MÚLANS

0

Það er komið að næstsíðustu tónleikum sumartónleikaraðar Múlans miðvikudaginn 26. júlí á Björtuloftum, 5. hæð Hörpu, á tónleikunum kemur fram Singimar Duo og Helgi. Um er að ræða nýlegt samstarfsverkefni píanóleikarans Inga Bjarna Skúlasonar og bassaleikarans Sigmars Þórs Matthíassonar. Þar kanna þeir ótroðnar slóðir dúó formsins með tilheyrandi frjálsleika og fagurheitum. Engin tónlist er Singimari óviðkomin, megináherslan er þó alltaf á spunann þar sem leikið er af fingrum fram í hinu opna og óútreiknanlega umhverfi dúó formsins. Sérstakur gestur á þessum tónleikum verður saxófónleikarinn Helgi Rúnar Heiðarsson.

Alls átta spennandi tónleikar verða á dagskránni alla miðvikudaga fram í byrjun ágúst. Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 og fara fram á Björtuloftum, 5. hæð Hörpu og er miðaverð kr. 2000, 1000 kr. fyrir nemendur og eldri borgara, miðar fást í miðasölu Hörpu, harpa.is og tix.is

Múlinn er á sínu 21. starfsár en hann er samstarfsverkefni Félags Íslenskra Hljómlistarmanna (FÍH) og Jazzvakningar. Klúbburinn heitir í höfuðið á Jóni Múla Árnasyni sem jafnframt var heiðursfélagi og verndari Múlans. Múlinn er styrktur af Reykjavíkurborg, Tónlistarsjóðnum og SUT sjóðnum og er í samstarfi við Heimstónlistarklúbbinn og Hörpu.

Skrifaðu ummæli