SINDRI HAUKSSON

0

sindri 1

Sindri Hauksson er einn fremsti BMX kappi landsins og þó víðar væri leitað. Sindri hefur stundað BMX í tíu ár og hefur tekið þátt í fjölda keppna. Sindri er einnig að smíða snjóbretti frá grunni og hefur hann smíðað gríðarmikla pressu í verkið. Sindri er viðmælandi vikunnar hjá Albumm og sagði hann okkur frá BMX ævintýrum sínum, snjóbrettasmíðinni og margt margt fleira.


Hvenær byrjaði þinn áhugi á BMX hjólum og hvernig kom það til?

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á flestu á hjólum. Ég byrjaði að skate-a (á hjólabretti) sem polli og fór síðan hægt og rólega að fikta í fjallahjólum. Ég átti nágranna sem var nokkrum árum eldri en ég sem heitir Bjarki (Bjarki Fjarki). Hann seldi mér mitt fyrsta dirt jump hjól og tók mig með sér að hjóla með stóru strákunum. Þar fékk ég gott uppeldi og reyndi sem ég gat að gera allt sem þeir gátu haha!
Ég byrjaði síðan á bmx sumarið 2006. Ég var að vinna á hjólaverkstæði í Útilíf og Emil félagi minn var búinn að redda mér sponsi þar á fjallahjóli. Hann sannfærði mig síðan um að bmx væri eina vitið, en ég hafði í fyrstu enga trú á þessu rugli! Ég meina engir demparar eða diskabremsur!?! En Emil (Bmx faðir Íslands) reddaði mér fyrsta bmxinu og var þá ekki aftur snúið. Það má til gamans geta að þeir Bjarki og Emil eru einir heitustu spandex hjólreiðarmenn Íslands í dag!

sindri 2

Ljósmynd: Eivind Bernhard Larsen

Voru margir að hjóla þegar þú byrjaðir og hefur þetta eitthvað breyst í gegnum árin og hvernig þá?

Við vorum kanski tíu saman í drullugóðu krúi til að byrja með en þetta fór fljótt vaxandi.
Þetta var mjög low-profile til að byrja með en vorum úti að hjóla nánast á hverjum degi. Þegar fleiri fóru að bætast í sportið þá fórum við að halda litlar keppnir innan bmx hópsins.
Í dag eru haldnar stórar bmx/skate keppnir og eru iðkendur orðnir miklu fleiri. Aldursbilið á bmx „Gaurum“ var frá 16 – 25 ára þegar við vorum að byrja. En í dag er það orðið miklu breiðara, frá svona 4 – 40 ára myndi ég giska á og svo erum við farnir að sjá stelpur stunda sportið líka. Algjör snilld!

Klippink: Ari Rannveigarson

Er þetta dýrt sport og er gott að vera BMX gaur á Íslandi?

Þetta er eins og með allt annað maður getur keypt sér ódýr byrjanda hjól og síðan dýrari atvinnumanna hjól.
Þetta hleypur á bilinu fimmtíu til hundrað og fimmtíu þúsund. Bmx eru mjög sterk byggð hjól og þola alveg helling og ef að einhver partur bilar þá pantar maður oftast nýja parta að utan. Það getur orðið dýrt að panta dót að utan útaf þessum fáránlegu tollum sem eru hér á klakanum … veit ekki hversu oft ég hef þurft að rífast við tollara til að reyna lækka reikninginn hah!
Það er mjög gott að vera bmx gaur á Íslandi. Við höfum loksins fengið innanhúsaðstöðu og deilum henni með Brettafélag Hafnarfjarðar, og á sumrin getum ride-að street nánast óáreittir. Fyrir utan einn og einn nöldursegg að tuða. Það þekkist nánast hvergi í heiminum.

sindri

Ljósmynd: Eivind Bernhard Larsen

Hefurðu farið erlendis að hjóla og hvar er best að hjóla að þínu mati?

Ég hef hjólað mikið í Noregi. Pabbi býr þar og fór ég alltaf til hans á sumrin að vinna hjá honum og notaði frítímann til að hjóla.
Sumarið 2013 var yndislega litla konan mín hún Lilja búin að skipuleggja ferð fyrir mig til Kölnar í Þýskalandi með Gulla (Trooper) vini mínum. Hún og öll fjölskylda mín lögðu öll í púkk og gáfu mér ferðina í afmælisgjöf.
Þar var ég að keppa í „Bmx Worlds Cologne“ sem er mjög stór alþjóðleg keppni. Þar fundum við eitt flottasta street plaza sem ég hef séð … Rheinhafen street plaza minnir mig … þar eru líka street spottar út um allt! Ég myndi segja að Köln stendur uppúr af þeim stöðum sem ég hef hjóla á.

Klipping: Ari Rannveigarson

Nú ert þú að smíða snjóbretti, hvað geturðu sagt mér um það og er það ekkert mikið mál?

Já það passar. Mér hafði lengi dreymt um að smíða mitt eigið hjólabretti og fékk loksins tækifæri til þess í fyrra. Eftir að ég kláraði að smíða hjólabrettið þá fóru manískar hugsanir í gang um að smíða snjóbretti.
Ég var í kvöldskóla í vor og var að læra á Auto-cad sem er teikniforrit og byrjaði á því að teikna mér mót til að pressa brettið og fór síðan bara hægt og rólega að vinna í þessu. Smíðaði mér síðan kjarnan í brettið og keypti allt efnið sem þarf í þetta. Þetta er búið að vera fáránlega mikil vinna að smíða öll verkfærin sem ég þarf í brettasmíðina. Þetta klárast vonandi fyrir jól. Ég er að vinna á smíðaverkstæði og er mjög þakklátur fyrir það að fá að nota aðstöðuna til að vinna í þessu. Props Heggur!

Er snjóbrettasmíðin eingöngu gert til gamans eða á að taka þetta alla leið og er komið nafn á verkefnið?

Aðallega til gamans. Ég meina hver myndi ekki vilja eiga bretti nákvæmlega eftir sínu skapi. Draumurinn er auðvitað að eiga verkstæði og geta smíðað bretti allan daginn! Ég skýrði það Bananaananas eftir sketch úr Svínasúpunni. Nafnið bara birtist í hausnum á mér, hef ekki hugmynd afhverju hahaha.

Hvað er það klikkaðasta sem þú hefur gert á BMX hjóli og hefurðu slasað þig illa?

Ætli það hafi ekki verið þegar ég lenti frontflip í Noregi … það hræddi líftóruna úr mér, hef aldrei verið jafn hræddur á ævinni. Ökklabrot, viðbeinsbrot, úlnliðsbrot, nokkur rifbeinsbrot og hef tvisvar rófubeinsbrotnað, úff vonandi ekkert meir 7-9-13!

sindri 3

Ef þú mættir velja eina breiðskífu til að hlusta á það sem eftir er æfinnar, hvaða plata yrði fyrir valinu og afhverju sú plata?

On the go nr.3. Fáránlega heitur diskur sem Grétar (Stóri G) félagi minn skrifaði fyrir brettaferð hér um árið!

Hvað er framundan hjá kappanum?

Við skötuhjúin ætlum að kenna dóttur okkar Lóu á snjóbretti í vetur. Og vonandi fáum við marga opnunnardaga uppí fjalli í vetur.
Vill nýta tækifærið og þakka Leon í Mohawks og Þórhalli Skúlasyni hjá Gopro fyrir stuðninginn síðustu ár.
Og auðvitað fjölskyldunni minni sem styður alltaf við bakið á mér í því sem ég tek mér fyrir hendur.
Takk fyrir mig!

Filmað og klippt af Eivind Bernhard Larsen

 

Comments are closed.