SIN FANG

0

_DSC3174

Sindri Már Sigfússon er tónlistarmaður, myndlistarmaður og skeitari sem hefur komið víða við. Hann gengur iðulega undir nafninu Sin Fang en er einnig kenndur við Seabear. Við hittumst í stúdíóinu hanns í vesturbæ Reykjavíkur og fórum yfir tónlistarferilinn og hvað er framundan hjá honum, en einnig töluðum við um hjólabretti og hvernig það var að vinna með Alien Workshop.


 Hvernig byrjaði þinn tónlistarferill?

Fyrsta Seabear platan eyðilagði eiginlega myndlistarferilinn hjá mér sem er allt í lagi af því að ég var búinn að komast að því að ég fékk meira út úr tónlistinni, fékk miklu frekar gæsahúð á því að fara á einhverja pönk tónleika heldur en að fara á myndlistarsýningu. Ég ætlaði kanski að fara í kennarann og verða myndlistarkennari og hafa það bara gott, en músíkin tók bara yfir. Það var mjög gott að vera í myndlistardeild LHÍ því það er svo mikið frelsi þar. Áður en ég byrjaði þar var ég búinn að vera í allskonar rugl vinnum og vinna frá klukkan átta til fimm og vera frekar hellaður þegar maður kemur heim og þá hefur maður svo litla orku í að gera eitthvað annað, en ég var oftast búinn um hádegið í LHÍ þannig ég hafði eiginlega allan daginn til að gera tónlist og þá gerði ég mína fyrstu Ep plötu.

Segðu mér aðeins frá fyrstu tónleikunum þínum?

Fyrstu tónleikarnir mínir voru í Volksbuhne í Berlín sem er gamalt stórt leikhús, en eina ástæðan fyrir því að ég sagði já við þessum tónleikum er sú að ég var að fara að hita upp fyrir aðra hljómsveit sem heitir The Books sem er mjög skemmtileg sveit frá New York. Svo fattaði ég eftir að ég var búinn að segja já, að ég hafði aldrei spilað á tónleikum áður og vissi ekkert hvað ég var að fara að gera. Ég fékk stelpu sem var með mér í bekk til að spila á fiðlu og Örn Inga sem ég þekkti úr skeitinu og eini gaurinn sem ég þekkti sem kunni á gítar. Við fórum að æfa einhver lög sem ég var að vinna í svo vorum við bara allt í einu komin út í eitthvað sexhundruð manna leikhús og fékk næstum því magasár af stressi. Á þessum tónleikum var Tomas Morr eigandi Morr Music. Hann eiginlega bauð mér útgáfusamning strax eftir þessa tónleika, sem ég skil ekki alveg því ég held að þetta hafi verið mjög lélegir tónleikar, en hann hefur örugglega séð eitthvað „potential“ í okkur og höfum unnið saman alveg síðan. Síðan þá hafa komið út tvær Seabear plötur, þrjár Sin Fang plötur, fullt af Ep plötum og 7 tommum, þetta spannar alveg sjö ár. Ég heyrði fyrst um Morr Music þegar ég las að Thom York hafi keypt allan kataloginn frá Morr, ég var svo mikill Radiohead aðdáandi þegar ég var lítill. Svo var Múm líka að gefa eitthvað út hjá þeim og ég kynntist Morr liðinu svona persónulega í gegnum þau.

Veggur í stúdíóinu hjá Sindra með pósterum frá hinum og þessum stöðum úr heiminum þar sem hann var að spila með Sea Bear og Sin Fang
Veggur í stúdíóinu hjá Sindra með pósterum frá hinum og þessum stöðum úr heiminum þar sem hann var að spila með Seabear og Sin Fang

Er erfitt að gera plötur?

Já Það er stundum mjög erfitt að gera plötur, t.d. það að geta bara ekki klárað eitthvað lag, en það tekst alltaf á endanum. Seinasta platan var eiginlega auðveldust að gera, en ég gerði þá plötu með Alex Sommers sem var pródúsentinn á plötunni, hann tók allt upp og mixaði hana líka. Þegar maður er að taka allt upp sjálfur, semja og mixa þá er maður eiginlega í þremur vinnum í einu og það getur verið erfitt þegar maður er búinn að heyra eitthvað lag þúsund sinnum og kannski kominn með nett ógeð á laginu þá er erfitt að vita hvað maður á að gera, þannig ég held að sú plata hafi verið auðveldust að gera. Ef ég ætti endalaust af pening þá mundi ég bara ráða einhverja góða upptökugaura því ég er ekkert sérstaklega góður upptökugaur. Það hefur alltaf hjálpað mér að vera með „deadline“ frá plötufyrirtækinu og fá fyrirframgreiðslu til að gera plötuna, þá verður maður að klára þetta. Ég held að margir ströggli við það að klára lögin, kannski byrja bara alltaf á einhverju nýju, mér langar alltaf að byrja á einhverju nýju, stundum er maður kominn með nett leið á því sem maður er að gera, en maður verður að klára lögin og fylgja þessu í gegn.

Nú ert þú að vinna að plötu segðu okkur aðeins frá því og er eitthvað plan í kringum hana?

Ég er núna að gera rafplötu. Seinasta árið er ég er búinn að vera meira í syntha og sampla stemmningunni, eftir að ég gerði hina plötuna Flowers. Ég hef eiginlega ekkert snert gítar í ár, maður verður að hafa þetta spennandi fyrir sjálfan sig til að nenna þessu því ef það er ekki gaman í vinnunni að gera tónlist þá á maður bara að fá sér aðra vinnu sem maður fær kannski pening fyrir. Þessi plata sem ég er að gera núna er svona dúetta plata, ég er semsagt að fá söngvara til að syngja með mér í hverju lagi, tildæmis er Jónsi úr Sigur Rós í einu laginu. Það er mjög lítið um ekta hljóðfæri, mikið af effekta græjum og raddir, mér finnst alltaf erfitt að gera bassan í raftónlist þess vegna finnst mér gott að fara með þetta í stórt stúdíó og rétt herbergi þá getur maður tvíkað þetta eins og maður vill hafa þetta. Það er strax munur að nota analog bassa í staðinn fyrir soft syntha og taka það upp í gegnum einhvern príamp.

Hlustarðu mikið á tónlist dags daglega?

Ég er alltaf með símann og heyrnatól.Dagurinn byrja alltaf á því að hlusta á eitthvað og svara e-meilum. Síðustu árin hef ég aðallega verið að hlusta á rapp og R n B, tildæmis Kanye West og Weekend. Mér finnst allt þetta eiturlyfjarapp mjög skemmtilegt, þeir eru bara endalaust talandi um einhverjar pillur og lím, veit ekki hvort ég sé bara kominn með „midlife crises“ eða eitthvað, en ég hlusta eiginlega bara á þannig músík. Ég held að nýja Kanye West hafi verið lang mest í spilun hjá mér seinasta árið, en mér finnst hún vera algjör snilld. Svo hef ég líka verið að hlusta á raftónlist en ég hef verið lítið að hlusta á gítartónlist, svona „venjulega“ tónlist.

_DSC3106

Þú ert skeitari líka, ertu mikið að skeita ennþá og hvernig fékkstu áhuga á bretti?

Ég bjó í Svíðjóð þegar ég byrjaði að skeita, foreldrar mínir vildu ekki láta mig fá bretti fyrr en ég var sjö ára, þetta var á þeim tíma sem brettin voru bara með teili og engu nósi og ég fékk þannig. Það voru míní rampar í hverfinu mínu og það var örugglega þannig sem ég fékk áhuga á bretti, bara á því að horfa á hina strákana skeita, þannig við byrjuðum bara á því að skeita á römpum. Rétt hjá var búið að smíða smá stað með nokkrum pöllum þannig við fórum í strætó þangað og já ég bara heillaðist af þessari hjólabrettamenningu. Þegar ég kom heim þá hélt ég áfram að skeita og reddaði mér einhverjum skate vídeóum, ein af þeim var Ban This frá Powell Peralta en ég fann hana í kolaportinu og hún var óverdöbbuð á spænsku. Þetta var líka mjög fínt fyrir mig félagslega, ég er ekki viss um að ég hefði lifað Hagaskóla af ef ég hefði ekki verið að skeita, maður féll inní þennan skate hóp sama hversu skrítinn maður var. Ég átti heima rétt hjá Ingólfstorgi og ég eyddi örugglega meiri tíma þar en heima hjá mér, en ég held að ég hafi hætt að skeita þegar ég var svona átján ára, eftir að ég fór úr olnbogalið í þriðja skiptið og reif mjög illa liðpokann alveg í hell. Ég man að ég var að skeita út á nesi á einhverju reili, datt og setti hendurnar fyrir mig og popp, aftur úr lið. Þetta var rosalegt prósess alltaf eftir þetta, morfín, í gifsi og gat eiginlega ekkert beygt höndina eftir gifsið, sjúkraþjálfun og bara eintómt vesen. Þannig ég er ekkert að skeita eins mikið og ég gerði, en í dag fer ég oftast að skeita hjá Hörpunni þar er kantur sem ég fíla mjög vel. Stundum förum við bara í skate, chillum og drekkum nokkra bjóra. Við hittumst stundum nokkrir,  förum að skeita og förum svo að horfa á Street League keppnina þegar hún er. Það er skemmtilegasta keppni sem ég hef séð. Ég skeitaði alveg óslitið frá 7 ára aldri og alveg þangað til ég varð átján ára, en ég var aldrei neitt sérstaklega góður en það er samt allt í lagi í hjólabrettaheiminum.

Áttu þér uppáhalds skeitara?

Já já uppáhalds skeitarinn minn var alltaf Jamie Thomas eftir að ég sá hann í myndinni Welcome To Hell. Svo líka Chad Muska á sínum tíma og Tom Penny.

_DSC3171

Finnurðu fyrir tengingu á milli tónlistar og hjólabrettis?

Já tónlist og hjólabretti hefur alltaf haldist svolítið í hendur. Allir sem ég þekki úr skeitinu hafa haldið áfram í einhver skapandi störf, tónlistarmenn, kvikmyndamenn eða ljósmyndarar. Flest þetta fólk stigu sín fyrstu skref í að gera eitthvað hjólabrettatengd, skate-myndir eða skate-ljósmyndir. Ég finn fyrir mikilli tengingu á milli að gera tónlist alveg frá grunni og að skeita þetta er bæði svona „do it your self“ hugarfar og „alternative“ hugsunarháttur, þannig ég er að finna það hvað bretti hafði mjög mikil mótandi áhrif á mig og tildæmis að horfa á umhverfið öðruvísi. Öll þessi fyrirtæki sem maður var að fíla eins og Foundation, Toy Machine og þessir gaurar eins og Ed Templeton sem voru að gera sína eigin grafík og líka öll Skate-videóin, Alien Workshop er tildæmis mjög visual fyrirtæki og myndirnar mjög visual.

Þú vannst einmitt með Hjólabretta fyrirtækinu Alien Workshop hvernig kom það til?

Já það var alveg „dream come true.“ Fyrsta hjólabrettaplatan mín kom út í fyrra hjá Alien Workshop, örugglega lélegasti skeitari sem hefur fengið plötu hjá skate fyrirtæki (hlátur). Fyrsta brettið sem ég átti var einmitt Alien Workshop plata sem ég keypti af MC Gustó ( hjólabretta legend ) þetta var alveg klikkað! Ég og vinur minn erum alltaf með myndlistarsýningu á Airwaves og Mike kom þangað sem er eigandi Alien Workshop og hann spurði hvort ég væri til í að gera grafík undir einhver bretti og ég var að fara að gefa út plötu þá í febrúar, þannig ég kom með þá hugmynd að við myndum gefa út plötuna, sem sagt með hjólabrettaplötunni. Þú gast keypt hjólabrettaplötuna og fékkst download kóða með af Sin Fang plötunni og það er langskemmtilegasta útgáfa sem ég hef gert. Það er mjög súrrealískt að vera að skeita á plötu sem merkt manni sjálfum, það er æskudraumur, en eins og ég sagði þá er ég örugglega lélegasti skeitarinn sem hefur fengið nafnið sitt á plötu. Ég fór inn í Slam City Skates í London og sá brettið mitt þar, það var alveg klikkað! Svo var líka mjög skemmtilegt að eftir þetta hafði Heiða sem átti Nikita samband við mig og ég gerði grafík undir tvö snjóbretti sem komu út seinasta haust, þannig það var mjög skemmtilegt að fá að tengjast skate og snjóbrettasenunni. Þetta var algjör „dream come true“ að fá að vinna með Alien Workshop.

Plöturnar Sem Sindri hannaði.

Hvað er svo á döfinni hjá Sin Fang?

Planið er að klára þessa Ep plötu á þessu ári, en hún kemur bara út á vínyl. Svo er ég að fara til Tyrklands í nóvember að spila á norrænni hátíð, svo er ég að fara til Denver í Colorado og Japan í febrúar 2015 hef aldrei farið þangað. Svo er ég að fara að spila live undir sænskum heimildarmyndaverðlaunum, skrítið. Þetta er það sem er planað núna, þannig það er hellingur framundan.

 

Comments are closed.