SIGTRYGGUR OG IDA JUHL SÖMDU TÓNLISTARVERK FYRIR LISTAHÁTÍÐINA LA MARCÉ

0

Sigtryggur Baldursson.

Tónlistarmaðurinn Sigtryggur Baldursson er sko alls ekki við eina fjölina kenndur en hann er nýkominn frá Barcelona þar sem hann tók þátt á hinni árlegu listahátíð La Marcé.

Sigtryggur samdi tónlistarverk ásamt dönsku tónlistarkonunni Idu Juhl en það var einmitt flutt á hátíðinni við mikinn fögnuð viðstaddra! Slag­verks­hópurinn Brinca­deira flutti verkið á meðan að sjónlistaverk eftir listamanninn Ingvar Björn var varpað á nærliggjandi fleti.


Listahátíðin La Mercé fór fram í Barcelona um helgina sem leið en þar var flutt verk eftir þig og Idu Juhl. Er þetta áhugaverða verkefni búið að vera lengi í vinnslu og hvernig myndir þú lýsa því?

Á árinu 2016 þá er Reykjavik boðið að vera gestaborg á hinni árlegu listahátíð Barcelona Borgar sem ber heitið La Marcé og fer fram þriðju helgina í september, sem bar núna uppá 23-24, en hátíðin hófst á fimmtudeginum 22. Sept og endaði á mánudeginum 25. sept.

Reykjavíkurborg kynnti fulltrúa hátíðarinnar fyrir mér í kringum komu þeirra á Iceland Airwaves 2016 og svo Sonar RVK 2017, en þau báðu okkur um að hjálpa þeim að ná sambandi við ákveðna íslenska listamenn sem þau höfðu áhuga á að bóka. Við vorum þeim innan handar með kontakta og sambönd við listamenn og hjálpuðum til með tengingar ýmiskonar. Síðan kemur í ljós að það eru líka annarskonar listamenn sem verið er að bjóða, og skemmtileg tilviljun að ég skyldi vera beðin um að koma að einu verkinu sem var valið til uppsetningar þarna.

Hvernig  er að semja slíkt tónlistaratriði og hvernig tók fólk í herlegheitin?

Þetta var afskaplega skemmtileg samvinna, þeir komu með hugmyndina um að nota olíutunnur og afsöguð kústsköft við að spila á þær og ég greip það á lofti og vann með það. Ég bjó til þrjá, 15 mínútna búta sem hver um sig er hraðara tempó en hinn fyrri og byggja þannig upp spennu í verkinu ásamt pólýrythmum sem leggjast hver yfir annan og mynda þéttofið mynstur sem verður æ þéttara. Síðan tekur Ida þessar hugmyndir og vinnur tónlist úr umhverfishljóðum í kringum þessar pælingar og í þessar 15 mínútur á undan. Við fengum fínar viðtökur á svæðinu þar sem fólk hafði gaman af herlegheitunum en hingað til hef ég einungis séð einn dóm um verkið í spænsku blaði. Hann var hinsvegar jákvæður.

Brinca­deira í góðri sveiflu!

Tónlistin var samin við sjón­lista­verkið Terra Forma eftir Listamanninn Ingvar Björn. Hvernig kom þetta samstarf til og var þetta ekkert flókið ferli?

Jóhann hjá Prófilm og listamaðurinn Ingvar Björn komu að máli við mig í mars síðastliðnum og spurðu hvort ég vildi ekki gera tónlist við geggjað vídeó verkefni sem þeir væru að fara af stað með í Barcelona á La Marcé í september og væru að spá í að fara með víðar. Þeir vildu líka að ég kæmi og spilaði verkið á olíutunnur með hópi slagverksleikara. Ég afþakkaði fyrst vegna þess að ég vissi að ég vissi að ég yrði erlendis allan ágúst og hluta af september og hefði takmarkaðan tíma fyrri part sumars vegna anna hjá ÚTÓN þar sem ég vinn, en eftir að hafa skoðað málið betur með þeim samþykkti ég að búa til 15 mínútna verk fyrir þá sem þeir þyrftu að láta spænska slagverksleikara spila því ég hafði hreinlega ekki tíma til að fara og æfa þetta á olíutunnur, en lagði til í leiðinni að þeir myndu fá Idu Juhl, sem var með stúdíó aðstöðu hjá Profilm, til að taka að sér hljóðmynd í kringum verkið sem nú var orðið 30 mínútur að lengd, en átti bara að hafa 15 mínútna trommuverk í endann. Verkið er í grunninn kvikmyndabútar af jöklum og fallvötnum fyrsta helminginn en síðan taka eldgos við og eru seinni 15 mínúturnar. Ida er hinsvegar afskaplega hugmyndaríkur og skemmtilegur tónlistarmaður frá Danmörku sem hefur verið búsett á íslandi í rúmt ár.

Sjónlistaverkið eftir Ingvar Björn var stórkostlegt.

Slag­verks­hópurinn Brinca­deira flutti verkið, hvaðan kemur sá hópur og hvernig fannst þér til takast?

Þetta er æðislegur hópur af krökkum frá Barcelona sem lýtur stjórn hins Braziliska Edison Aguilar, sem er búinn að þróa nýjar tegundir af þessum stílbrigðum við braziliska batucada, sem er slagverks hefð, sem liggur að baki sömbu tónlist. Þau hafa verið að blanda þessu saman við hip hop og rokk og ról og gert mikið af athyglisverðum tilraunum. En fyrst og fremst alveg stórkostlegt slagverksband. Þau vinna líka með hreyfingu og bjuggu til mjög flotta koreógrafíu í kringum 7 manna olíutunnu bandið okkar. Tóku þær hugmyndir sem ég hafði sent til þeirra og spunnu ofaná bæði hreyfingu og improviseraða parta sem gáfu verkinu nýtt líf.

 

Er von á fleiri verkefnum líkt þessum og hvað er á döfinni hjá þér?  

Góð spurning. Ég er á haus í ÚTÓN verkefnum, en kem til með að vinna áfram með Idu Juhl í einhverjum tónlistar verkefnum, við stofnuðum hljómsveit úti í Barcelona sem heitir Beyond Repair. Annars er ég byrjaður á nýju verkefni sjálfur með æskuvinum mínum sem gengur útá skrýtna og skemmtilega bít músík. Svo er ég alltaf að bauka eitthvað með Tómasi R og þeim góða félagsskap sem gerði saman Bongó plötuna í fyrra. Hef því miður ekki haft mikinn tíma fyrir Parabolu verkefnið (parabolur percussion)  sem kemst líklega næst því sem við vorum að gera með Brincadeira. Of mikið að gera.

Skrifaðu ummæli