SIGGI KANZKI

0

 _DSC2813

Sigurður Júlíus Bjarnason betur þekktur undir nafninu Siggi Kanzki, er skeitari, umsjónarmaður Brettafélags Reykjavíkur og eigandi hjólabrettamerkisins KANZKI sem hefur verið að gera það gott að undanförnu.


 Hvenær byrjaðir þú á bretti?

Ég byrjaði að skeita árið 1995, en ég er þrjátíu og eins árs, en þá keypti ég mér mitt fyrsta bretti (Girl Mike Carroll) í Týnda Hlekknum. Ég var búinn að vera í svona tæpt ár að prófa hjá hinum og þessum en var samt ekkert að skeita af neinu viti.

Afhverju fékkstu áhuga á bretti?

Held að það hafi bara verið tíðarandinn og ég var tíður gestur í Tónabæ. Þar fyrir utan var alltaf einhver stemmming og sumir með bretti og aðrir að breika og maður sá þetta þar og þar var mikil gróska og þetta var eitthvað nýtt fyrir mér. Þetta var svona hvatinn að því að maður byrjaði að skeita. Fljótlega eftir að maður byrjaði að renna sér og ná jafnvægi, þá fylgdi brettið með hvert sem maður fór, svo byrjaði maður bara að slæpast daginn út og daginn inn með félögunum og eitt leiddi að öðru.

 Það eru margir sem hafa byrjað á bretti en halda svo ekki áfram, afhverju hélst þú áfram?

Það er kannski einn af hverjum þrjátíu sem halda áfram. Ég fann þennan hvata hjá mér til þess að halda áfram og mér fannst þetta það skemmtilegt og möguleikarnir endalausir. Ég fann fyrir miklu frelsi og ég finn fyrir því ennþá í dag. Maður er að uppgötva eitthvað sem maður vissi ekki að maður gæti gert, það eru alltaf að opnast einhverjar nýjar gáttir. Ég held að maður hafi ekki fattað það á þessum tíma, að þegar maður hugsar um það eftirá að maður er að þróa með sér vissan hæfileika, eins og að sjá fyrir sér einhvern hlut og framkvæma hann. Maður kannski prófar það einu sinni eða tvisvar og nær því ekki en svo er maður búinn að prufa það nokkuð oft og þegar það loksins kemur þá er tilfinningin að ná vissum árangri. Ég hef aldrei tekið mér nein hlé frá skeitinu, held það séu ekki margir á Íslandi komnir með þetta langan tíma, sem eru um tuttugu ár.

Hefurðu farið erlendis að skeita?

Já þegar ég var sautján ára þá fór ég til Kaupmannahafnar i tvær vikur, fórum upprunnalega bara tveir en kynntumst svo strákum frá Íslandi sem voru í svipuðum erindagjörðum og við. Ári eftir skelltum við okkur á interrail, flugum til London, tókum lest til Parísar og þaðan til Amsterdam, Amsterdam til Prag, Prag til Berlínar og frá Berlín til Kaupmannahafnar, þetta var bara skeit ferð, skeituðum daginn út og inn. Svo hef ég líka farið til Kalíforníu að skeita, San Diego, Los Angeles, San Fransisco og Santa Barbara. Það er algjör snilld að vera þar og ég fór á alla þessa frægu staði aðallega i San Francisco, en maður sá líka mikið af þessum stöðum i Los Angeles, en maður gat ekki stoppað við þá, því það er mjög hægfarið yfir þá borg. Svo rak maður augun i fullt af stöðum sem maður hefur séð i skate-myndböndum.

_DSC4486

Munurinn á Kaliforníu og Íslandi?

Loftslagið og hitastigið er mun hentugra þar en hér heima en það er reyndar mjög fínt á sumrin hérna heima, en svo fer aðeins að rökkva þá fer að verða kalt úti og þá þarf maður að hafa meira fyrir því að koma sér í stuð og hita sig upp. Þegar maður er úti þá bara stígur maður út úr húsi og þá er maður bara tilbúinn, vöðvarnir mjúkir og fínir, en það finnst mér vera helsti munurinn. það er töluvert meira frelsi hérna í Reykjavík, úti er meira áreiti og minna umburðarlindi finnst mér, maður var kannski hálftíma á einhverjum stað og þá kom einhver og hann var ekkert að biðja okkur um að færa okkur heldur voru bara hótanir og læti. Mér fannst líka mjög einkennileg upplifun að fara í „skatepark“ í Santa Barbara, en ég var þar bara í sakleysi mínu að renna mér og allt í einu bara tæmist parkið og það kemur upp að mér bílastæðavörður og spyr mig af hverju ég er ekki með hjálm og hlífar og ætlar að fara að sekta mig. Ég held að þetta muni ekki gerast hérna heima, svo er umhverfið úti allt öðruvísi það er meira svona „smooth.“

 Ljósmyndari: http://matthiasarni.com/
10687433_10153495782349897_6024982364259247451_o Ljósmyndari: http://matthiasarni.com/
10626132_10153495782324897_2715286992945249514_o Ljósmyndari: http://matthiasarni.com/

 

Hvað finnst þér búið að breytast síðan þú byrjaðir að skeita?

Þegar ég var að byrja þá var allt að gerast í þessu og það vora alltaf nýir tindar sem maður var að kljúfa. Maður fékk líka innblástur á að fara út í búð og kaupa skate-myndband og horfa á hjá vini sínum, en í dag er hægt að fá þetta beint í æð á netinu, þú þarft ekki að bíða eftir einu né neinu. Ég held að það sé svona það sem hefur breyst mest.

 Hvernig byrjaðir þú að læra trikk?

Rosalega mikið í gegnum fólkið sem ég skeitaði með, tala saman og svona ég held að það hafi aðallega verið þannig. Svo gleymi ég því ekki að á þessum tíma þá var löngunin gríðarlega mikil til að skeita en ég snéri illa uppá ökklann á mér og gat ekkert verið á bretti, svo þegar maður var aðeins farinn að skána og var eitthvað farinn að örvænta þá tók ég upp á því að renna mér bara „switch“ til að hlífa ökklanum því ég gat ekkert dregið löppina upp eftir brettinu þá meiddi ég mig. Fyrst var það mjög erfitt, var ekki að ná neinu jafnvægi, alveg eins og að byrja uppá nýtt á bretti svo bara eftir viku gat maður bara gert hvorutveggja eins og ekkert væri og þarna var ég tildurlega ný byrjaður á bretti, það var ekkert að stoppa mann. Svo hefur maður líka séð trikk í gegnum myndir og fengið þaðan innblástur, mér finnst alltaf skemmtilegast að ná trikkum þannig að maður er að nota staðinn allt öðruvísi heldur en allir aðrir eru að gera mér finnst það vera mjög heillandi og skemmtilegt þegar það tekst vel. Maður reiðir sig mjög mikið á sjálfan sig og það er ekkert hægt að kenna neinum öðrum um ef eitthvað fer úrskeiðis, maður spilar bara eftir eigin hentisemi. Það eina sem hefur eitthvað aftrað manni er veðrið, en maður var fljótur að finna lausn á því í bílageymslunum, tildæmis í Hamraborginni, maður var fastagestur þar ef eitthvað var að veðrinu. Þar kynntist ég meðal annars Gusto og hann var mjög mikill innblástur þá og virkilega gaman að hafa kynnst honum á þessum tíma og sjá hvað hann var að gera, það var alltaf allt miklu svakalegra sem hann gerði heldur en allir aðrir voru að gera.

Hvað finnst þér um „sponsor“ menninguna á Íslandi?

Ég er ekkert svo viss um að sá sem er „sponseraður“ hafi eitthvað endilega gott af því, að þurfa ekkert að hafa fyrir hlutunum, ég held að það breyti hugarfarinu hjá einstaklingnum, hættir kannski að bera virðingu fyrir hlutunum. Ef þú þarft ekkert að hafa fyrir hlutunum þá er það ekkert gaman, ég held að það sé svolítið þannig, ég held að það sé draumur hjá öllum að fá fullt af pening upp í hendurnar en ég held að þegar það gerist að þá er það ekkert svo æðislegt. Fólk á ekki endilega að vera að skeita til að fá athygli það á að hafa gaman af því, en maður hugsaði samt smá svoleiðis sjálfur þegar maður var ungur að fá „sponsor“ eins og það væri einhver klettur til að klífa, en svo bara breyttist hugarfarið hjá manni og maður fór að þroskast og sjá hlutina í öðru ljósi, hafa bara gaman af því og njóta þess að skeita. Ég er tildæmis bara mjög þakklátur að geta skeitað og ætla að njóta þess á meðan ég get það, af því að ég veit að það kemur að því að líkaminn leifir það ekki lengur.

Kanzki?

Kanzki byrjaði þannig að ég fór til bandaríkjanna og kom heim með fulla ferðatösku af „blank“ brettaplötum, keypti bara út úr búð sirka tuttugu stykki af „powell blank“ plötum . Bretti á íslandi voru dýr og ég notaði mikið af þessu og þetta var bara hagstætt. Á þessum tíma var ég að brjóta bretti á tveggja vikna fresti eða eitthvað álíka, þetta spurðist bara út á meðal félaga minna sem ég var að skeita með og ég byrjaði að selja þeim bretti. Síðan fór ég að hugsa að maður ætti kannski að gera þetta og ég sá tækifæri í því að ég gat útvegað þeim bretti ódýrara en búðirnar voru að gera, og bæði var maður að gera vinum sínum greiða og líka búa til eitthvað sem fór svo að vinda uppá sig, en ég var ekkert að spá í það, þetta var bara fólkið sem ég var að skeita með sem gekk að þessu vísu. Síðan fer ég til kaupmannahafnar og kynnist þar strák sem heitir Símon sem var þá „team manager“ hjá Alis, þetta var árið 2002 hann grípur mig í Faelledparken og spyr hvort ég vilji koma með þeim að skeita og ég gerði það, svo lætur hann mig fá símanúmerið sitt og segir mér að hringja í sig daginn eftir, og ég gerði það. Hann fór með mig í Alis Headquarters og ég varð mjög hrifinn af því sem þau voru að gera, þau voru með vinnustofu og lager og voru að gera bretti. Alis var mjög stórt á þessum tíma og hann húkkaði mig upp, lét mig hafa frítt dót og svona, svo fékk ég einhverja sendingu frá þeim, þetta var allt á vinalegu nótunum ekkert eitthvað official spons. Það var mjög smooth hvernig þau voru að gera hlutina, þeir voru bara að grípa upp einhverja stráka eins og mig til að hjálpa. Svo fékk ég föt frá þeim og þegar félagar mínir voru að fara til Danmerkur og svona þá komu þeir til baka með föt fyrir mig frá Alis, þannig ég var bara að fá gjafir frá þeim af og til sko. Á þessum tímapunkti fór ég að hugsa hvort það væri ekki hægt að gera eitthvað meira með Kanzki og líka til að blása upp senuna hérna heima. Það er það sem Alis voru að gera í Danmörku, þeir voru að halda keppnir og græja allt og gera þarna úti og í framhaldi af þessu fékk ég sendingu frá Alis og ég byrjaði að selja Alis bretti. Fljótlega eftir það þá var byrjað að selja þau hérna heima í búðum, þannig ég vildi ekkert fara að rugla reitum saman við það, þannig ég ákvað að fara bara sjálfur og fá blank brettaplötur og byrjaði með Kanzki í framhaldi af því. Svo byrjaði ég að hafa áhuga á því að gera mismunandi grafík á brettin, svo byrjaði þetta að vinda töluvert upp á sig og ég byrjaði að gera vídeó og gaf út fyrstu skate-myndina árið 2003, en þá var ekki komið nafn á þetta og Kanzki ekki officialy orðið til. Sú mynd er úr gamla loftkastalanum en þetta var allt efni sem ég var búinn að sanka að mér, ég átti ekki einu sinni vídeó cameru sjálfur þetta var eiginlega bara gert til þess að halda partý sko, búinn að sníkja efni héðan og þaðan og fá lánaðar camerur þannig ég keypti mér tölvu og klippti saman mynd og slógum svo í frumsýningarpartí. Fólk borgaði sig inn á frumsýninguna og við keyptum bara bjórkúta fyrir peninginn og svo bara teiti í parkinu, en þetta er eitthvað sem maður mundi ekki endilega gera í dag, þarna var maður bara ungur að lifa sko. Þarna var ég farinn að selja slatta af brettum en ég vildi ekki bara taka peninginn fyrir sjálfan mig og gera bara bretti þannig ég fór að gera stuttermaboli og eitthvað.

 

Hvaðan kemur nafnið Kanzki ?

Ég var búinn að hugleiða mikið hvað væri hægt að nota og mér fannst Kanzki vera mjög sterkt og ég náði mikilli tengingu við það og þetta var það eina sem mér fannst pottþétt. Ef maður svarar með kannski þá er maður ekki að ljúga neinu sko, maður er ekkert að lofa upp í ermina á sér og svo er líka framtíðin óljós og verður alltaf þannig, það var alveg hugsun a bak við það sko.

Hefurðu verið að selja þetta í búðir ?

já ég seldi þetta í búð sem heitir Klikk a selfossi og Underground sem var á Ingólfstorgi það eru einu búðirnar sem ég hef selt þetta í, annars hef ég bara verið að selja þetta úr skottinu a bílnum mínum og er enn að þó það sé aðeins lægð í Kanzki núna. Ég er að vinna öðrum verkefnum ég er búinn að vera að hanna aðra hluti, ég og Sverrir tókum að okkur verkefni í fyrrasumar þar sem við hönnuðum veitingastað út á Granda sem heitir Coo coo’s nest en það er einmitt skeitari sem á þann stað, Lucas Keller frá Kaliforníu. Hann hafði samband við okkur því hann vissi að við höfðum hannað og smíðað skateparkið og var hrifinn af því sem við vorum að gera þar, þannig eitt leiddi að öðru. Við vorum tildæmis að gera borð inn á veitingastaðnum og það er allt gert úr afgangs timbri úr skateparkinu. Við gerðum líka bekk í framhaldinu af því og þá fór ég að hugsa og fór þá að hanna stóla og hef verið að leggja lokahönd á það undanfarið og er mjög sáttur með útkomuna, en ég er líka ennþá að gera brettin og nota gömlu stenslana i það. þetta er alltsaman gert í bílskúr sem ég er með, sem er frekar litill þannig það er allt fljótt  að verða fyrir manni. Maður var lengi í sjálfboðavinnu við að byggja skate-pörkin þannig það var frábært að hanna veitingastað. Ég vissi að þetta mundi einhverntíman borga sig, en eins og með skate-pörkin þá var rosalega stór og góður hópur sem kom að því og við létum þennan stóra draum rætast að opna skate-park og gerðum það nánast úr engu notuðu.

_DSC2663Er dýrt að stunda hjólabretti?

Nei ég mundi ekki segja það í samanburði við annað, en auðvitað kostar þetta pening það er ekkert ódýrt að þurfa að kaupa sér skate-skó jafnvel í hverjum mánuði sko. Svo er maður tildæmis ekkert neyddur til þess að nota skate-parkið sem kostar inn í, en ef maður vill nota aðstöðu sem er best til þess fallin þá borgar maður sig inn alveg eins og í sund eða eitthvað annað. Það væri mjög gott ef frístundarkortin gætu komið inn í þetta, en það er mjög erfitt þegar þetta er svona frjálst, en auðvitað viljum við viðhalda því líka, hafa þetta frjálst.

Er alltaf sami áhuginn fyrir brettinu eða heldurðu að þú eigir einhvern tíman eftir að hætta að skeita?

Þetta er eitthvað sem fylgir manni alltaf en maður hefur líka um aðra hluti að hugsa eftir því sem maður eldist og þroskast. Maður er tildæmis alltaf að spá í umhverfinu, spotta út góða staði til að skeita á. Ég horfi tildæmis ekki mikið á skate-vídeó í dag, en það kemur alveg fyrir, en ég fíla ekki svona „mainstream“ vídeó eitthvað svona það eldheitasta í dag. Mér finnst tildæmis miklu skemmtilegra að fylgjast með þessum gömlu kempum sem eru enn að og líka skate frá Evrópu, svona jarðbundna gaura sem eru ekkert uppteknir af því að vera aðal gaurarnir með allt í bling bling, enda er það bara bóla sem springur á endanum. það eru líka svo margir flottir skeitarar sem eru að gera aðra flotta hluti tildæmis eins og tónlist og myndlist. Ég held að ég eigi ekki eftir að hætta að skeita, en maður á örugglega eftir að vakna einn daginn og hugsa vó ég er ekki búinn að skeita í ár, en stundum er ekki sami drifkrafturinn til staðar, að fara út að skeita sko eða þegar ég hef tíma þá er kannski enginn annar sem hefur tíma. fjölskyldan og svona hefur nú verið í gegnum tíðina að spyrja mig hvort ég sé ekki orðinn of gamall fyrir þetta og svona, þetta var náttúrulega ekki til þegar það var ungt og það sér bara einhverja krakka standa í hóp og einhver er með bretti. Það fólk þekkir þetta ekki og er kannski ekki að átta sig á upplifuninni og er ekki að skilja út á hvað þetta gengur og hvað maður er að fá út úr þessu, en ef að maður setur sig í fótspor annarra og maður hefði engan áhuga á þessu og fer niðrá Ingólfstorg og sér kannski þrjá krakka sem eru nýbyrjaðir á bretti, það lítur ekkert spennandi út sko, en um leið og viðkomandi sér einhvern sem getur eitthvað þá verður það spennandi. Núna er hjólabrettamenningin á Íslandi alveg á hátindinum. Við erum búnir að gera bestu innanhúsaðstöðu sem hefur verið á Íslandi, en við stöndum á tímamótum með húsnæði, en við ætlum að gera enn betur næst. Vonandi verður aðstaðan og aðbúnaðurinn betri, það er tildæmis það sem við setjum svolítið fókusinn á núna og meira félagslíf í kringum þetta og hafa aðstöðu til að gera eitthvað annað þarna en bara skeita því það myndast rosalega sterk félagsleg tengsl innan skeit hópsins. Það er tildæmis ekkert þannig að eldri gaurarnir nenni ekki að að tala við litlu gaurana heldur eru bara allir saman, allir skeitarar eru vinir. Ef maður fer erlendis tildæmis til Evrópu og maður hittir annan skeitara, þá getur maður alveg farið að skeita með honum, ekkert mál.

_DSC4596

Hvernig finnst þér skeit menningin vera í dag og aðhaldið í kringum hana?

okkur langar að gera skateparkið svolítið „fancy“ og vonandi með nýju húsnæði tekst það. þessar breytingar eiga bara eftir að vera til batnaðar. Stór hópur af fólki sem er að mæta í parkið í dag hefur aldrei upplifað það að það sé ekki til skate-park. það eru margir mjög ungir gaurar sem eru mjög efnilegir og aðrir sem eru orðnir bara mjög góðir. Ég held að það hafi aldrei verið jafn margir góðir skeitarar á Íslandi eins og núna og svo er líka mjög stór hópur af byrjendum, þannig skeitmenningin á Íslandi er alveg að blómstra akkúrat núna. Þetta er bara mjög vinsælt núna, þannig ég held að það sé mjög bjart framundan í þessu, en það þarf að halda starfseminni áfram innan BFR og innan skeitarana og ekki missa það í aðila sem hafa ekki skilning á þessu og vita kannski ekki út á hvað þetta gengur og hafa skilning á því að það þarf að breyta parkinu reglulega. Það gengur ekki að byggja bara park og þannig verður það bara, maður vill alltaf nýjar áskoranir eins og með bowlið, það var alltaf draumur að fá þannig en svo lét maður það verða að veruleika og við byggðum þannig. Það er hægt að gera allt bara ef viljinn er fyrir hendi og hjólabretti er mjög svona „do it yourself.“ Við byggðum park í Garðabænum árið 1998, eða það byrjaði þá. Þá stigum við okkar fyrstu spor í því og fórum í leiðangra og náðum okkur í timbur á hinum og þessum byggingarsvæðum. Svo á tveimur sumrum vorum við búnir að byggja bara gott park, við bara bjuggum okkur til þá aðstöðu sem við þurftum því það var alltaf verið að sparka okkur í burtu og þarna hékk maður alla daga.

_DSC2924

 

 

Comments are closed.