SIGGEIR MAGNÚS HAFSTEINSSON (SIG VICIOUS)

0

GEIRI NOTA

Siggeir Magnús Hafsteinsson eða Sig Vicious eins og hann kallar sig er einn fremsti hönnuður okkar Íslendinga og þó víðar væri leitað. Geiri er ekki bara hönnuður heldur einnig ljósmyndari og forfallinn tónlistarunnandi en hann hefur komið víða við á sínum viðburðaríka ferli. Geiri hefur unnið með Nike, plötufyrirtækinu Metalheadz og Eve Online svo fátt sé nefnt en kappinn er viðmælandi vikunnar á Albumm.is Geiri sagði okkur frá hvenær áhugi hanns fyrir hönnun byrjaði, hvaðan hann fær innblástur fyrir sína listsköpun og hvaða verkefni hafa staðið upp úr á ferlinum svo fátt sé nefnt.


Hvenær og hvernig byrjaði þinn áhugi á grafískri hönnun?

þetta byrjaði allt þegar ég fékk mína fyrstu tölvu í fermingargjöf frá mömmu og pabba. Það var Atari ST, sem var klárlega heitasta tölvan á markaðnum þá. Ég var fljótt kominn í tölvuklíku sem ég hét því virðulega nafni ,,The Crack Connection.” Fyrsta hönnunin mín kom fljótlega í kjölfarið, en það var letur sem scrollaði yfir skjáinn með kveðju sem ég sendi á einhverja erlenda tölvudúdda. Frekar næs fannst mér, en í rauninni var þetta allt saman frekar frumstætt.

kirkja

Hvaðan færðu innblástur fyrir þína listsköpun og hvernig myndirðu lýsa þínum stíl?

Það er mjög misjafnt. Oft er það eitthvað sem ég sé á netinu, í sjónvarpinu eða úti í náttúrunni. Ég vinn mikið með að skeyta saman náttúruljósmyndum sem ég tek og grafík. Ég er mjög mikið náttúrubarn og það hefur mikil áhrif á það sem ég er að hanna hverju sinni. Svo er StarWars náttúrulega best í heimi. Alltaf.

Nú hefur þú hannað ýmislegt í gegnum tíðina.  Er eitthvað eitt verkefni sem stendur uppúr? Og ef svo, afhverju það?

Já, það eru þó nokkur verkefni sem standa upp úr. Oft urðu skemmtilegustu verkin til með einhverju fikti. Plötuumslagið Sine Tempus fyrir Goldie byrjaði sem einhver tilraunastarfssemi í Adobe Illustrator og letrið mitt Broken Type endaði á stuttermabol fyrir Nike. Svo var METH100 líka frábært verkefni. Það var útgáfa númer 100 frá Metalheadz, vínylplata með lagi frá Goldie á annarri hliðinni og textinn frá Goldie var ristur í plastið á hinni hliðinni. Mjög skapandi og skemmtilegt verkefni.

bla

Þú ert einnig ljósmyndari, hvað ertu helst að mynda og blandarðu ljósmyndun og grafískri hönnun saman?

Ég byrjaði að mynda fyrir u.þ.b. tveimur árum og er búinn að vera með myndavél um hálsinn nánast allar götur síðan. Ég er mest að mynda landið okkar og kann í raun best við mig út í móa. Hef alltaf notað ljósmyndir mikið í það sem ég hanna og í raun mest myndir eftir sjálfan mig síðusta árin. Það er frábært að fá líka útrás fyrir náttúruperrann í mér í vinnunni, en ég starfa líka sem location scout hjá framleiðslufyrirtækinu Truenorth.

Few seconds later he spewed out fire

Þú ert mikill tónlistarunnandi og þá helst á Drum N Bass tónlist, hefur það haft áhrif á það sem þú ert að gera?

Ég hef mest gert vínyl umslög fyrir tvö bresk DNB útgáfufyrirtæki – líklega yfir 50 dnb umslög – svo það hefur mótað minn hönnunarferil tölvuvert síðustu fimm ár eða svo. Annars hlusta ég á alls konar tónlist. Góð tónlist er góð tónlist, sama hvaða stefnu hún fellur undir. Sem betur fer er kærastan mín dugleg að kynna mig fyrir nýrri tónlist, þ.e.a.s. tónlist sem er ekki dnb, svo það er komin nú smá breidd í þetta hjá mér líka.

Hvaða græjur og forrit ertu að nota og er nægt myndefni á Íslandi?

Canon 5D Mk III myndavél og MacBook pro. Síðan nota ég Adobe Creative Cloud.

Broken Type - Portfolio

Þú hefur hannað talsvert fyrir plötufyrirtækið Metal Headz sem er í eigu Goldie, Hvernig kom það til?

Hann vinur minn Agzilla kom mér í samband við þá. Fyrsta verkefnið var Sine Tempus platan hans Goldie sem kom út árið 2008. Ég hannaði tólf umslög eitt fyrir hvert lag á plötunni. Svo hef ég líka hannað boli og fleira fyrir þá. Það getur verið mjög erfitt að vinna með Goldie. Hann er mjög kröfuharður og lætur mann bara heyra það ef hann er ósáttur. Það að hafa hannað fyrir Metalheadz hjálpaði mér mjög mikið í að koma mér á framfæri og fá fleiri tónlistartengd verkefni.

METH100 - Sleeve

Ef þú gætir einungis hlustað á eina plötu það sem eftir er ævinnar, hvaða plata yrði fyrir valinu og af hverju?

Verandi með rjúkandi athyglibrest væri ég snöggur að fá leið ef ég þyrfti að hlusta á sömu plötuna endalaust. Svo það er eiginlega ekki hægt að svara þessari spurningu. En ég mæli með að fólk fylgist með hvenær platan hans Agzilla kemur. Það er klárlega framtíðarmúsík. Algert konfekt fyrir eyrun.

geiri 2

Hvað er framundan hjá þér?

Jól og áramót, meiri hönnun, meiri ljósmyndun, kósí stundir með kærustunni og fjölskyldunni og heimsyfirráð ef ég hef tíma aflögu.


Fylgist með Sig Vicious á:

http://blog.sigvicious.com

http://www.sigvicious.com/

https://www.facebook.com/sigvicious/

https://www.instagram.com/sigvicious/

Comments are closed.