„Síðan þá hafa nóturnar legið ófullgerðar ofan í skúffu og lagið hvergi heyrst – þar til nú“

0

Í nokkur ár hafði staðið til að þær Eva Þyri og Erla Dóra hljóðrituðu hluta söngverka Jórunnar og þótti við hæfi að loks yrði af því á 100 ára afmæli hennar.

Jórunn Viðar, tónskáld og píanóleikari, hefði orðið 100 ára, líkt og fullveldið, árið 2018. Af því tilefni munu Erla Dóra Vogler, mezzósópran og Eva Þyri Hilmarsdóttir, píanóleikari halda tónleika vítt og breidd innan landsteinanna sem utan  og gefa út geisladisk með sönglögum og þjóðlagaútsetningum eftir Jórunni, m.a. með áður óútgefnum lögum.

Jórunn Viðar fæddist 7. desember 1918, aðeins sex dögum eftir að Ísland varð fullvalda ríki og deilir því aldarafmæli með fullveldinu. Hún lærði píanóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og Hochschule für Musik í Berlín, auk þess að nema tónsmíðar við Juilliard School of Music, og síðar dvaldi hún um skeið í Vínarborg við framhaldsnám í píanóleik.

Erla Dóra og Eva Þyri munu halda upp á aldarafmæli Jórunnar með fjölda tónleika innan landsteinanna sem utan.

Jórunn var mikill frumkvöðull á tónsmíðasviðinu, auk þess að vera mikils metinn píanóleikari. Hún var fyrsta íslenska konan með próf í tónsmíðum og eina konan í Tónskáldafélagi Íslands í um tvo áratugi. Hún var fyrst Íslendinga til að semja kvikmyndatónlist, samdi fyrsta íslenska ballettinn og fyrsta íslenska píanókonsertinn í fullri lengd. Síðast en ekki síst samdi Jórunn fjölda kammerverka, kórverka og ótal sönglaga sem mörg hver eru afar vinsæl meðal þjóðarinnar. Og það eru einmitt sönglögin sem Jórunn er hvað þekktust fyrir. Jórunn var brautryðjandi í að þróa íslenska sönglagaformið og framsæknustu verk hennar má finna meðal sönglaganna. Algengast var að lög væru uppbyggð í erindum, en hún samdi mörg lög í frjálsara formi og gegnumskrifaði oft heilu ljóðin. Til þess valdi hún sér gjarnan nútímaljóð, s.s. atómljóð, þó þau væru vægast sagt umdeild í samtímanum.

„Það sem mér finnst einna mikilvægast í sönglögum Jórunnar Viðar – er að flytja þau ekki bara (syngja og spila), heldur að leggja auka orku og vinnu í að láta þau lifna við. Lög eru misaðgengileg að þessu leyti, en Jórunn réttir manni tólin til þess á silfurfati með tónlistinni sinni“ – Erla Dóra

Erla Dóra kemur frá Egilsstöðum, en þar hóf hún tónlistarnám sitt og byrjaði ung að leika með Leikfélagi Fljótsdalshéraðs. „Ég tel mig einstaklega heppna að hafa fengið að alast upp innan leikfélaga. Þar lærir maður allt um samvinnu, virðingu fyrir tíma annarra, að taka sjálfan sig ekki of hátíðlega og allt um túlkun og fegurð hins talaða máls – auk ótal annarra hluta sem eru frábært sálarinnlegg fyrir hvern sem er. Báðir söngkennararnir mínir á Íslandi, Keith Reed á Egilsstöðum, og Þórunn Guðmundsdóttir í Tónlistarskóla Reykjavíkur, voru líka svo ótrúlega dugleg að setja upp stórkostlegar óperusýningar með söngnemendum sínum – og Þórunn er bara að stigeflast í því að skrifa og setja upp eigin óperur! Leikurinn og túlkunin fylgdi því alltaf söngnum hjá mér, og því sótti ég um í óperudeild Tónlistarháskólans í Vínarborg. Þar var boðið upp á mjög gott framhaldsnám í söng, og auk söngsins var boðið upp á ýmislegt annað nám við deildina s.s. sviðsskylmingar, dans, framburð hinna ýmsu tungumála, leiktækni og sviðstækni, sem ég hafði mjög gaman af. Maður viðar að sér öllu sem manni finnst áhugavert og það mótar mann svo áfram sem listamann og persónu. Ég er t.d. söngvari sem legg sérstaklega áherslu á túlkunina og ýmislegt í ytri umgjörðinni.” Síðan Erla lauk námi hefur hún tekið virkan þátt í tónlistarlífinu og komið fram bæði sem klassísk söngkona og dægurlagasöngkona t.d. með hljómsveit sinni Dægurlagadraumum og ÞEJ tríói.

Sumarið 2015 héldu Erla Dóra og Eva Þyri tónleika með verkum Jórunnar Viðar í sumartónleikaröð Listasafns Sigurjóns Ólafssonar þar sem fullt var út úr dyrum. Jórunn var viðstödd tónleikana ásamt dóttur sinni, Lovísu Fjeldsted og lýsti yfir mikilli ánægju með túlkun þeirra og flutning. Mikil samskipti voru milli flytjenda og þeirra mæðgna, Jórunnar og Lovísu, og komu þær einnig á æfingar fyrir tónleikana. Þessir tónleikar voru þeir síðustu sem Jórunn var viðstödd.

„Það var mikill heiður að fá að hitta Jórunni. Ég hafði, eins og allir aðrir söngnemendur á Íslandi, kynnst verkum hennar strax í upphafi söngnámsins og kolfallið fyrir lögunum hennar. Hún fellir tóna og laglínur þannig að orðum og ljóðlínum að það skapar einhverja ólýsanlega töfra. Hjá henni tala textinn og tónlistin alltaf saman og haldast það þétt í hendur að úr verður ein heild. Ég hafði því alltaf litið upp til hennar sem einkonar tónlistargyðju og ég hafði aldrei látið mig dreyma um að fá að hitta hana. Ég er mjög þakklát að hafa orðið þess heiðurs aðnjótandi.“ – Erla Dóra

Í nokkur ár hafði staðið til að þær Eva Þyri og Erla Dóra hljóðrituðu hluta söngverka Jórunnar og þótti við hæfi að loks yrði af því á 100 ára afmæli hennar. Því miður lést Jórunn Viðar á síðastliðnu ári, en allt fram í andlátið var tónlistin líf hennar og yndi. Erla Dóra og Eva Þyri hlutu styrk frá Landsbankanum til að fjármagna að hluta útgáfu geisladisks, en áheitasöfnun stendur nú yfir á Karolinafund til að fullfjármagna verkefnið undir heitinu Söngvar Jórunnar Viðar. Hljóðrituð verða bæði sönglög og þjóðlagaútsetningar eftir Jórunni, en nokkur laganna heyrast mjög sjaldan og/eða hafa aldrei verið hljóðrituð, þar sem þau hafa ekki verið gefin út á prenti, og tvö þeirra er svo að segja verið að endurlífga – Únglínginn í skóginum II og lagið Ung stúlka, sem flytjendur hafa unnið að hreinskriftum á í samvinnu við Lovísu Fjeldsted og Jón Kristinn Cortez. Þá hafa nokkur laganna verið löguð að alt rödd, lækkuð úr sópranlegu, og önnur hafa hingað til einungis verið flutt af karlrödd, þótt textinn sé ekki kynbundinn.

„Það hefur verið í ýmis horn að líta og mikill tími hefur farið í að hreinskrifa óútgefnar nótur frá Jórunni og fara í gegnum lög sem ekki hafa verið gefin út á geisladiski áður.“ – Eva Þyri.

„Lagið Ung stúlka samdi Jórunn við texta Hannesar Péturssonar einhverntímann á árunum 1955-60. Lagið hefur aðeins verið flutt einu sinni, og þá var það Jórunn sjálf sem sat við píanóið og Þuríður Pálsdóttir, frænka hennar, sem söng. Þetta var á tónskáldakynningu hjá RÚV 1961. Síðan þá hafa nóturnar legið ófullgerðar ofan í skúffu og lagið hvergi heyrst – þar til nú. Við höfum, í góðu samstarfi við Lovísu Fjeldsted dóttur Jórunnar, fengið leyfi til að dusta rykið af þessu stórkostlega lagi“ segir Eva Þyri. Með hjálp upptökunnar af flutningi þeirra stallna frá 1961 hefur Eva Þyri unnið við að fylla í eyðurnar í píanópartinum og Erla Dóra fínpússað laglínuna, en eins og áður segir voru nóturnar ófullgerðar og líktust meira minnispunktum en tilbúnu tónverki. Jón Kristinn Cortes hefur svo sett allt saman á tölvutækt form og tónflutt eftir óskum.

„Eva Þyri er alveg yndislegur píanóleikari, mjög fær og flott, auk þess að vera einstaklega næmur meðleikari sem gefur söngvaranum byr undir báða vængi,“ – Erla Dóra

Upptökur fyrir geisladiskinn fara fram í Hannesarholti nú í lok maímánaðar og upptökum stjórna Bjarni Rúnar Bjarnason, sem áður stjórnaði upptökum á geisladiskunum Únglíngnum í skóginum og Sláttu, með tónverkum Jórunnar, og Georg Magnússon. „Bjarni Rúnar þekkir því mjög vel til tónlistar Jórunnar, auk þess sem hann þekkti hana sjálfa. Við erum mjög heppnar að hafa fengið þá kollega til liðs við okkur,“ segir Erla Dóra.

Erla Dóra og Eva Þyri munu auk þess halda upp á aldarafmæli Jórunnar með fjölda tónleika innan landsteinanna sem utan. Hægt er að fylgjast með verkefninu í heild sinni og næstu tónleikum þeirra á facebooksíðu verkefnisins undir heitinu Jórunn Viðar 100 ára. Markmið tónleikanna er að kynna þann framúrskarandi og fjölbreytta arf söngverka sem hún lét þjóðinni í té á starfsævi sinni, en það er ekki nóg með að hún hafi samið fjölda söngljóða heldur sinnti hún einnig mikilvægu forvörslustarfi þegar hún útsetti þjóðlög, sem alla tíð töluðu til hennar og höfðu áhrif á hennar stíl. Erla Dóra og Eva Þyri hafa nú þegar haldið þrenna tónleika með söngverkum Jórunnar á árinu – eina á vegum sendiráðsins í Berlín og tvenna tónleika í klassískri tónleikaröð KÍTÓN, í Iðnó og Hofi.

„Við vonumst eftir að geta haldið tónleika í þeim borgum sem Jórunn stundaði nám, þ.e. Berlín, Vín og New York. Sendiráðið í Berlín var svo yndælt að styrkja okkur til tónleikahalds þar í tengslum við fullveldisdagskrá þeirra og jafnréttisráðstefnu í mars síðastliðnum. Verkefnið okkar féll einnig eins og flís við rass að fyrstu klassísku tónleikaröð KÍTÓN – félags kvenna í tónlist, og hlutum við þann heiður að opna tónleikaröðina bæði í Iðnó og Hofi. Við vonumst þó til að geta haldið tónleikana sem víðast innan sem utan landsteinanna til að kynna betur söngverk Jórunnar, þau eiga það 100% skilið að þeim séu gerð góð skil og að fleiri kynnist þeim og tónskáldinu Jórunni Viðar,“ segir Eva.

Næstu skref í verkefni þeirra Evu Þyri og Erlu Dóru eru upptökur, áframhaldandi fjármögnun á útgáfu geisladisksins og skipulagning tónleikahalds frá og með haustinu.

Erla Dóra og Eva Þyri hafa nú unnið saman um nokkurra ára skeið. „Ég heyrði Evu Þyri leika á ljóðatónleikum fyrir einum fjórum árum síðan og fannst hún bæði leika unaðslega og vera í frábæru sambandi við söngvarann. Hún var þá nýlega flutt heim eftir 10 ára búsetu erlendis, en hún hafði lokið einleikaraprófi í Danmörku og Mastersprófi í meðleik frá Royal Academy of Music í London, með hæstu einkunn og verðlaun fyrir framúrskarandi lokatónleika. Hún var þá þegar farin að vinna með mörgum af bestu söngvurum landsins og hefur undanfarin ár haldið ótal tónleika hérlendis. Ég hafði samband við hana í kjölfarið, og spurði hvort hún hefði áhuga á samstarfi og síðan höfum við unnið saman að ýmsum verkefnum t.d. nýárs-glamúrgalatónleikum í Tónlistarmiðstöð Austurlands og krummalögum. Eva Þyri er alveg yndislegur píanóleikari, mjög fær og flott, auk þess að vera einstaklega næmur meðleikari sem gefur söngvaranum byr undir báða vængi. Það er alltaf mikil tilfinning í leik hennar og túlkunin sönn og skýr. Svo skemmir auðvitað ekki fyrir að hún er alveg hræðilega fyndin, skemmtileg, skipulögð og samviskusöm. Ég hef stundum stunið því upp milli hláturskasta á æfingum að sjónvarpsáhorf mitt, sem er lítið sem ekki neitt, myndi aukast um 100% ef hún byrjaði að senda út grínþætti um líf píanóleikara og meðleikara,“ segir Erla Dóra.

Jórunn Viðar hefði orðið 100 ára, líkt og fullveldið, árið 2018

Næstu skref í verkefni þeirra Evu Þyri og Erlu Dóru eru upptökur, áframhaldandi fjármögnun á útgáfu geisladisksins og skipulagning tónleikahalds frá og með haustinu. Stefnt er svo að útgáfutónleikum geisladisksins á afmælisdegi Jórunnar 7. desember. Það er því að ýmsu að huga og 100 ára afmælisár Jórunnar Viðar lofar góðu.

Hér að neðan má hlusta á upptöku með Erlu Dóru Vogler og píanóleikaranum Doris Lindner af geisladisknum Víravirki – Íslensk söngljóð, sem kom út árið 2010:

Upptökur með leik Evu Þyri má finna á youtube-rás hennar:

Skrifaðu ummæli