SEXTÁN SJÓMENN FÓRUST Í MANNSKAÐAVEÐRI

0

stefan-2

Síðastliðin fjögur ár hefur heimildarmynd um mannskaðaveður, er gekk yfir Norðurland þann 9. Apríl 1963, verið í vinnslu. Framleiðsla og stjórn er í höndum þeirra Hauks Sigvaldasonar, Maríu Jónsdóttur og Stefáns Loftssonar, kvikmyndagerðarmanns. Myndin var frumsýnd á Dalvík í tengslum við Fiskidaginn mikla í sumar og er nú á leið til Reykjavíkur.

Myndin hverfist um samfélagið á Dalvík, en þaðan fórust sjö sjómenn af þeim sextán sjómönnum er veðrið tók bæði norðan og sunnan við land.

Stefán Loftsson svaraði nokkrum spurningum um myndina.

Er myndin búin að vera lengi í vinnslu?

Myndin hefur verið í vinnslu í fjögur ár, reyndar með góðum hléum inn á milli þar sem við erum öll í 100% vinnu við annað en kvikmyndagerð og það tók góðan tíma að fjármagna myndina. En það tókst á endanum og nú er myndin loks tilbúinn.

Hvernig kom til að ráðist var í þetta verkefni?

Haukur Sigvaldason, föðurbróðir minn var lengi búið að langa til að reisa þessum mönnum sem fórust einhverskonar minnisvarða. Hann er lærður smiður og er margt til lista lagt en hönnun á minnismerki var eitthvað sem hann þurfti hjálp með. Hann leitaði því til gamallar skólasystur sinnar, hennar Maríu, því hann vissi að hún var að læra í margmiðlunarskólanum á þessum tíma. Hún kemur með hugmynd um að gera stutta heimildamynd um þennan örlagaríka dag og Hauki leist vel á það. Hann hefur svo samband við mig þar sem hann vissi að ég hafði unnið að nokkrum heimildamyndum áður. Eftir það fóru hjólin að snúast og við áttuðum okkur á því eftir fyrstu viðtölin sem við tókum að þessu yrði aldrei gerði nægilega góð skil í stutt-heimildamynd. Þann 9.apríl 2013 héldum við minningarathöfn þar sem 50 ár voru liðin frá slysinu. Þar afhjúpuðum við minningarstein með nöfnum þeirra sem fórust frá Dalvík. Það var hann Jón Adólf Steinólfsson sem gerði minningarsteininn.

Stefán Loftsson

Kom þér eitthvað á óvart í vinnuferlinu?

Já, ég held að það sé alltaf eitthvað sem komi manni á óvart í kvikmyndagerð, bæði skemmtilega og leiðinlega. Ég hafði nú komið að nokkrum heimildamyndum áður og gerði mér strax grein fyrir því að það væri mikið verk fyrir höndum. En ætli María og Haukur hafi ekki komið mér hvað mest á óvart. Þau höfðu hvorugt komið nálægt kvikmyndagerð áður en þau stóðu sig alveg frábærlega, betur en margir reyndir kvikmyndagerðarmenn sem ég hef unnið með. Við komumst í gegnum þessi ár án þess svo mikið sem að hækka róminn við hvort annað, aldrei neitt ósætti og engin rifrildi.

Hver er sagan og þekktir þú söguna áður en þú fórst í þetta verkefni?

Þann 9. Apríl 1963 gekk mannskaðaveður yfir landið og tók líf 16 sjómanna, þar af voru 7 frá Dalvík. 13 börn missa þarna feður sína og margar fjölskyldur fyrirvinnunna sína. Dalvík var og er, lítið sjávarþorp og þetta er mikil blóðtaka fyrir svona smátt samfélag. Við tölum við menn sem voru á sjó í þessu veðri og fáum lýsingar frá þeim hvernig þetta var. Hvað þeir sem voru í landi gerðu til að reyna að hjálpa þeim sem voru á sjó. Einnig tókum við viðtöl við börn þessara manna og hvernig minning þeirra er af þessum degi. Það sem við tökum fyrir í myndinni er í raun Dalvíkurþátturinn í þessu óveðri. Í upphafi var hugmynd um að taka þetta fyrir í víðara samhengi, en eftir sem leið á tökurnar sáum við það að við þurftum að þrengja hringinn til að gera þessum sem best skil.

Það má segja að þessi atburður snerti okkur öll þrjú sem stöndum að myndinni því að við erum öll ættuð frá Dalvík, en í þessu óveðri ferst Sigvaldi Stefánsson, afi minn og pabbi Hauks. Þetta gerist nú löngu áður en ég fæðist en mér finnst ég hafa kynnst afa mínum svolítið með því að hafa spjallað við þessa menn sem þekktu hann og stunduðu sjóinn með honum.

Hvað er framundan hjá þér?

Það er stóra spurningin. Það komu stundir þar sem ég hugsaði að þetta yrði síðasta heimildamyndin sem ég kæmi að, en svo þegar að maður sér uppskerunna þá langar manni að finna næsta viðfangsefni og sökkva sér í rannsóknarvinnu og tökur strax aftur. Það eru nokkrar hugmyndir í kollinum á mér, en ekkert sem er komið í framleiðsluferli.

Brotið verður sýnd í Bíó Paradís í Reykjavík dagana 13 til 16 Október næstkomandi. Hægt er að nálgast miða á Tix.is

Comments are closed.