SENDUM ÚT ÁKVEÐIÐ MERKI SEM AÐRIR TAKA Á MÓTI

0

Nýtt tónlistarmyndband við lagið „Innra Tinder“ var frumsýnt í gærkvöldi. Lagið er eftir Unni Söru Eldjárn og Þóru Björk Þórðardóttur og textinn er eftir Þóru en lagið sjálft var samið í Tónsmiðju KÍTÓN á Hvammstanga síðasta haust.

Sex tónlistarkonur dvöldu á Hvammstanga í eina viku og voru paraðar saman á hverjum degi með það að markmiði að semja saman lög. Í lok vikunnar voru öll lögin flutt á tónleikum og allt ferlið var tekið upp í heimildarmynd á vegum Freyja Filmwork sem verður sýnd á RÚV fimmtudagskvöldið 25. maí.

„Pælingin á bak við Innra Tinder er að leika sér með þá hugmynd að við erum öll að svæpa í raunveruleikanum fólkið sem við sjáum og stundum erum við að senda út ákveðin merki sem einhver þarna úti tekur á móti” – Unnur og Þóra.

Þóra, Unnur og Almar Þór Ingason sömdu handrit að myndbandi sem Almar hafði yfirumsjón með og leikstýrði og var allt tekið upp á Gopro myndavél. Þar sjást alls konar litskrúðugir karakterar og aðstæður sem líklegt er að fólk sem hefur skemmt sér í miðbænum kannist við.

Hér fyrir neðan má sjá stiklu úr heimildarmyndinni:

Skrifaðu ummæli