SELECTED BIOGEN WORKS / SÖFNUN Á KAROLINA FUND

0

biogen

Tónlistarmaðurinn Biogen réttu nafni Sigurbjörn Þorgrímsson lést þann 8. Febrúar 2011 aðeins 34 ára að aldri. Bjössi Biogen eins og hann var alltaf kallaður var einn af máttarstólpum Íslenskrar raftónlistar og var hann afar virkur í þeirri senu allt frá upphafi hennar. Bjössi hóf að fikta við raftónlist þegar hann var 11 ára gamall. Á unglingsárum sínum kynntist hann Þórhalli Skúlasyni og hljómsveitin Ajax varð skömmu síðar til. Tónlistin var hröð, hrá og áleitinn í anda reiftónlistarinnar sem hafði þá sigrað Bretland og meginland Evrópu. Fyrsta útgáfan var hvít ómerkt vínylplata, sem síðar hefur verið kölluð bæði Mach III og Ruffige EP. Útgáfan gekk vonum framar, en talið er að rétt um 3000 eintök hafi selst. Óhætt er að fullyrða að um tímamótaverk í íslenskri tónlistarsögu hafi verið um að ræða og vakið von um að íslensk danstónlist væri engu síðri en sú sem var að finna í heitustu klúbbum Bretlandseyjar. Þessi vakning varð til þess að safnskífan Icerave varð að veruleika. Hafa ber í huga að dansmúsík þessi var fáheyrð í íslensku útvarpi, en fann sér þó samastað í útvarpsþættinum B-Hliðin, sem var í umsjón Agga Agzilla og Þórhalls Skúlasonar. Björgvin Halldórsson, poppstjarna, hafði kynnst tónlistinni í gegnum börn sín og fékk Þórhall Skúlason með sér í lið við að gera þessa safnplötu að raunveruleika. Um ónumið land var að ræða, því aldrei hafði slík safnskífa komið út á Íslandi. Ajax átti hvorki meira né minna en fimm lög á þessum safndisk, þar á meðal eitt undir nafninu „Feður Flinstones.“ Hljómsveitin lagði upp laupanna um árið 1996 eftir að hún hafði gefið út sveimhljóðverkið „Story of Life“ á hinu rómuðu safndiskum Space Nights, sem út komu í Þýskalandi.

Biogen fæddist þegar Sigurbjörn var átján ára, en þá kom út lagið „Hydrosphere“ á safndisknum Egg ’94. Útgáfufyrirtækið Smekkleysa fékk Þórhall Skúlason til að setja saman sveimtónlistarsafnskífu með ýmsum af fremstu raftónlistarmönnum þess tíma svo að úr yrði heilsteypt safnplata. Flestir listamannanna voru í raun óþekktar stærðir á þessum tíma, enda var lítið um íslenska raftónlistarútgáfu. Tónlistin var flokkuð sem mókleiðslutónlist (e. Trance), þó í raun hafi þetta orð verið samnefnari yfir allar endurtekningavænar raftónlistarstefnur á þessum tíma. Í raun væri réttast að kalla safnplötuna naumhyggjukennda sveimtónlist, þó undantekningar séu að finna. Í október árið 1995 var Biogen fenginn til þess að flytja tónlist sína í Tjarnarbíói. Tilefnið var að Sveim í svart/hvítu var haldið í fyrsta skiptið. Sigurbjörn var fenginn til þess að hanna tónlist fyrir kvikmyndina Metropolis eftir Fritz Lang. Viðburðurinn vakti ómælda athygli og var hann fenginn nokkrum sinnum aftur til þess að endurtaka leikinn yfir aðrar kvikmyndir. Um svipað leyti var Thule útgáfan stofnuð, en Sigurbjörn var einn af stofnmeðlimum hennar. Hugmyndin var að svara eftirspurn fyrir raftónlist – að mestu erlendis frá heldur en frá heimalandinu – og koma Íslandi á raftónlistarkortið.

biogen 2
Sigurbjörn var sífellt leitandi í tónlistarsköpun sinni. Hann vildi brjóta upp normið og kanna þolmörk tækninnar. Sumarið 1998 var tekin upp heimildarmynd um íslenska tónlist – Popp í Reykjavík. Mikilfengnir tónleikar voru haldnir í Loftkastalanum og var Biogen þar á meðal. Hann mætti á sviðið og dáleiddi salinn með tilraunakenndri rafsveiflu og smitandi ástríðu. Tónleikarnir tókust afar vel upp, en það kom babb í bátinn – bæði hljóðupptakan hjá Ríkisútvarpinu og vídeóupptakan skemmdust. Svo virtist að hljóðheimar Biogen hafi verið tækninni ofviða. Erlendir lopapeysutúristar þekkja Biogen helst út frá endurhljóðblöndun sem hann gerði fyrir Sigur Rós veturinn 1998. Sigurbjörn endurhljóðblandaði lagið „Syndir Guðs“ af frumraun sveitarinnar. Þarna mættust stálinn stinn – rafmagnið og rafleysan. Útkoman var dáleiðandi ferðalag.

Lítið hliðarverkefni þróaðist á þessum árum og nefndist það Babel. Það vatt utan um sig og úr varð breiðskífan B-Sides The Code of B-Haviour, sem kom út á vegum þýska útgáfufyrirtækisins Elektrolux. Um er að ræða sveimkennt elektró og fékk breiðskífan prýðilega dóma erlendra gagnrýnenda.

Árið 1999 var viðburðarríkt ár fyrir Biogen. Í byrjun árs kom út breiðskífan Inuals Dansar eftir Tryggva Hansen, en Biogen aðstoðaði við gerð hennar. Í apríl mánuði voru haldnir tveir merkilegir tónleikar; annars vegar Tilraunaeldhúsið í Tjarnarbíói þar sem Sigurbjörn ruglaði saman reitum við gítarleikarann Hilmar Jensson og raftónlistarmanninn Plastik (Aðalsteinn Guðmundsson) og hins vegar stórtónleikum í hátíðarsal MH, þar sem hann hitaði upp fyrir raftónlistarhetjurnar Mira Calix og Authecre. Í viðtali við Morgunblaðið lýsti hann því að deila sviði með Autechre hefði verið draumur að rætast. Fleiri samstarfsverkefni litu dagsins ljós og ber þar helst að nefna áhugavert samstarf við ljóðskáldið Sjón. Tvær endurhljóðblandanir voru útgefnar – „The Ballad of the Broken Birdie“ eftir múm og „Flottur Sófi“ eftir Stjörnukisa. Hápunktur ársins var þó án efa útgáfa breiðskífunnar Eternalizer, sem kom út á vegum Uni:Form Recordings.

424304_305840586141447_222988304_n

Í mars árið 2000 tók Listakonan Ráðhildur Ingadóttir við veggnum í miðrými Kjarvalsstaða og fékk Biogen til liðs við sig. Framkvæmdur var listrænn spuni og stóð hann yfir í þrjár vikur.
Ýmsir tónleikar áttu sér stað á því ári, t.a.m. á Reykjavík Music Festival og í Þjóðleikhúskjallaranum ásamt Opiate og Kikkert. Í október spilaði hann á ART 2000 hátíðinni, sem haldin var í Salnum í Kópavogi. Þar deildi hann sviði með norska sveimkonunginum Biosphere. Gestir hátíðarinnar bjuggust fastlega við sveimkenndum tónum frá hljómsveitum kvöldsins og varð þeim að ósk sinni … svona næstum því. Biogen spilaði lágstemmda sveimtónlist, en gerði í því að „skemma” hughrifin með óhljóðum. Tónlistin mátti ekki vera of falleg. Það verður að vera eitthvað ljótt í tónlistinni til þess að geta sannarlega metið hið fallega í henni. Hápunktur tónleikahaldsins á þessu ári hefur þó, að öllum líkindum, verið Frakklandsförin, en haldnir voru glæsilegir tónleikar á gömlu björgunarskipi á bökkum Signu í París.
Sigurbjörn fór á þessum tíma að sökkva sér í myndbandsgerð og var farinn að sjá um visjúala á hinum og þessum tónleikum í Reykjavík. Myndbandsgerð var ávallt honum ofarlega í huga. Hann gerði t.a.m. tónlistarmyndband við lagið „Miss Iceland“ með Vínyl og frumsýndi svo í febrúar 2004 stuttmyndina Svart/hvítt-eissaru í Mír á vegum Bíó Reykjavík.

559462_365899986802173_417179338_n

Árið 2002 kom út breiðskífan You Are Strange og ári síðan kom út breiðskífan Mutilyn. Þessi miklu afköst fóru ekki framhjá mörgum. Um þá síðarnefndu skrifaði Árni Matthíasson, tónlistargagnrýnandi:

„Á þeirri sem hér er til umfjöllunar er tónlistin venju fremur tilraunakennd, lítið um samfelldan takt, fáir vegvísar að rata eftir og engu að treysta; um leið og áheyrandi telur sig vera kominn í örugga höfn í einhverju laginu er öllu bylt, ójarðneskar raddir, brak og brestir, tætingsleg tölvuhljóð eða tær bjögun sér um að koma honum úr jafnvægi og óvissan hefst að nýju hálfu verri. Segja má að þessi plata BioGens sé eins konar andplata, á henni eru flest lögmál tónlistar og plötuútgáfu brotin, í stað hljóma og framvindu eru hljóð (óhljóð) og sundurlaus tætingur, sífelld erting og ójafnvægi. Ekki má skilja þessi orð sem það sé einhver pína að hlusta á Mutilyn, öðru nær, á plötunni er þvílík gnótt hugmynda að hún gæti dugað herfylki raftónlistarmann.“ – Árni Matthíasson

Árið 2007 fæðist Weirdcore og Sigurbjörn verður fljótlega einn af forsprökkum hópsins. Tilgangurinn var að hefja raftónlistina til vegs og virðingar á ný, en mikil deyfð hafði verið yfir íslensku raftónlistarsenunni árin á undan. Á vegum Weirdcore-hópsins komu út tveir safndiskar, þar sem ungir sem og aldnir raftónlistarmenn fengu að láta ljós sitt skína. Tónleikakvöld voru haldin af og til, til að byrja með á Barnum en færðust svo yfir á Organ.
Síðustu tónleikar Biogen voru í Tjarnarbíói þann 16. október 2010, sem hluti af Iceland Airwaves tónlistarhátíðinni. Þeir sem upplifðu þá tónleika hefðu aldrei grunað að fjórum mánuðum síðar yrðu haldnir á sama stað minningartónleikar um hann, en í byrjun febrúar 2011 lést Bjössi eftir langa baráttu við geðhvarfasýki (bipolar/manic depressive disorder) – sjúkdóminn sem hafði haft mikil áhrif á lífshlaup hans og listsköpun.
Sigurbjörn Þorgrímsson hafði ómetanleg áhrif á íslensku raftónlistarsenuna. Hann var lærifaðir og vinur fyrir marga – og brottför hans skilur eftir sig ófyllanlega gjá í tónlistarsenuna.
Fjölskylda hans og vinir stefna nú að því, með ykkar hjálp, að gefa út safnskífu með verkum hans í febrúar 2016 – á 40 ára afmælisdegi hans.
Smellið hér: www.karolinafund.com og látum þetta glæsilega framtak verða að veruleika!

 

Comments are closed.