Sannkölluð rokkveisla á Gauknum: Gunned Down Horses, DALÍ og VAR

0

 

Þann 13.september nk. verður sannkölluð rokkveisla á Gauknum en þá munu hljómsveitirnar Gunned Down Horses (ISR), DALÍ (IS) og VAR (IS) leiða krafta sína saman.

Þetta er í fyrsta skipti sem að hljómsveitin Gunned Down Horses spilar hér á landi en hún hefur komið eins og stormsveipur í rokksenunnni í Evrópu með sínu einstaka tilraunarokki.

Þeir eru þekktir fyrir mjög kraftmikinn og líflegan flutning og voru þeir meðal annars sérvaldir til að hita upp fyrir Deep Purple tvisvar sinnum á árinu á stórtónleikum í Moskvu. Tónlist þeirra er blanda af popp, rokk, kabarett, film noir, post-punk og fólktónlist svo eitthvað sé nefnt.

Hljómsveitin DALÍ var stofnuð árið 2014 og er hugarfóstur söngkonunnar og bassaleikarans Erlu Stefánsdóttur. Ásamt henni í hljómsveitinni eru Helgi Reynir Jónsson gítarleikari, Fúsi Óttars trommuleikari og Þórður Gunnar Þorvaldsson gítar-og hljómborðsleikari en öll hafa þau komið víða fram á íslenska tónlistarsviðinu.

DALÍ hefur vakið mikla athygli fyrir lagasmíðar og kraftmikinn lifandi flutning. Tónlistarstefna DALÍ er fjölbreytt; þar gætir áhrifa meðal annars frá Joni Mitchell og Primus en á sinn eigin, sérstaka hátt. Þéttleiki og rokkyfirbragð hljómsveitarinnar á móti ómþýðri rödd Erlu er ómótstæðileg samblanda sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

DALÍ gaf út sína fyrstu breiðskífu í byrjun nóvember 2015 og vinnur nú að annarri plötu sveitarinnar.

Hljómsveitin VAR byrjaði sem lítið verkefni árið 2014 en hefur í gegnum árin þróast og tekið breytingum. Hljóðheimur VAR hefur breyst með tilkomu nýrra meðlima, sem komið hafa með nýjar áherslur og dýnamík sem dregnar eru úr ýmsum tónlistarstefnum. VAR gaf út sína fyrstu plötu, Vetur, í lok árs 2016. Platan var gefin út í Japan af útgáfunni Rimeout Recordings og fór hljómsveitin í vel heppnaða ferð til Japan til að fylgja plötunni eftir árið 2017. VAR vinnur nú að sinni annari plötu í fullri lengd sem stefnt er á að komi út í lok árs 2018.

Tónleikarnir fara fram á Gauknum og hefjast þeir kl. 21:00. Miðaverð er aðeins 1.500 kr, selt við hurð.

Skrifaðu ummæli