SANNKÖLLUÐ HIP HOP VEISLA Á GULLÖLDIN SPORTBAR Í KVÖLD

0
RÍMNARÍKI

Rímnaríki

Það verður sannkölluð Hip Hop veisla í Grafarvogi í kvöld nánar tiltekið á Gullöldin Sportbar. Mörg af helstu nöfnum úr íslensku hip hop senunni munu mæta til að grípa í mæka, spíta speki og kætast! Ef það var einhvern tíman tími fyrir miðbæjarmýs að hætta sér út fyrir 101 og kynna sér framandi menningarheima á fjarlægum slóðum þá er hann núna.

Fram koma:

Holy Hrafn
Málfríður
Rímnaríki
Marlon Pollock
Kiddi
Átrúnaðargoðin
Valby Bræður

Holy Hrafn –

Múltítalentið Óli Hrafn hefur verið iðinn við kolann og getið sér gott orð fyrir frábæra texta og frumlega takta. Svo er þetta tússpennavídeó sem hann gerði alveg bilað og lagið ekki síðra.

Málfríður –

Ef þú heitir Málfríður þá er skrifað í stjörnurnar að þú eigir að rappa. Lagið hennar „Hver er þessi æðri máttur“ fékk góðar viðtökur og verður gaman að sjá hana spila hér á sínum fyrstu tónleikum.

Rímnaríki –

Þessir drengir eru gettógangsta úr Breiðholtinu. Það þýðir þó ekki að þeir tali um byssur og bling, heldur fjalla þeir á hreinskilinn hátt um íslenskan raunveruleika. Þeir verða á Secret Solstice hátíðinni og eru kraftmiklir á sviði með melódíska króka.

Marlon Pollock –

Goðsögn í geimnum. Marlon Pollock hefur komið víða við. Stundum kallaður íslenski Marshall enda vélbyssukjaftur sem getur frístælað í svefni.

Kiddi –

Einnig þekktur sem Kiddi Kjaftur. Harðkjarnarapp úr Hafnarfirði og hugljúft RnB sem fékk mikla spilun á sínum tíma. Hefur ekki látið sjá sig mikið upp á sviði upp á síðkastið en ætlar að trylla líðinn á föstudaginn eins og enginn sé laugardagurinn.

Átrúnaðargoðin –

Þessir drengir eru hreint ekki með öllum mjalla. Þeir munu draga þig inn í dýpstu hella helvítis og fljúga með þig aftur til himna þar sem þú sameinast alheiminum. Þeir eru með allra mest spennandi nýju rappsveitunum í dag og munu gera sitt besta til að sýna þér af hverju. Verða einnig á Secret Solstice.

Valby Bræður –

Þessir bræður hafa náð miklum vinsældum með nokkrum lögum, m.a. í samstarfi við Blaz Roca, Sesar A og Hr. Hnetusmjör. Reppa Hafnarfjörðinn hart og eru þekktir fyrir spikfeita stemningu í hvert sinn sem þeir stíga á stokk. Solstice, tékk.

Comments are closed.