Samdi taktinn upp úr steinaglamri og náttúruhljóðum

0

Fyrir skömmu sendi hljómsveitin, HYOWLP, frá sér sína aðra smáskífu. Lagið kallast „Forgetful Halos“ og fylgir eftir fyrsta lagi sveitarinnar, „Afterglow.“

Afterglow hefur hlotið mikla spilun á bæði Rás 2 og X-inu frá því að það kom út í lok apríl á þessu ári auk þess sem lagið vakti athygli bandarísku útvarpsstöðvarinnar KEXP í Seattle. Plötusnúðar stöðvarinnar völdu lagið meðal annars sem lag dagsins og færðu lagið í hóp þeirra laga sem þykja einna heitust um þessar mundir.

Forgetful Halos er viðkvæmara systkini Afterglow og er þar keyrt á rólegheitum, trega og efa og sýnir hljómsveitin á sér einhverja nýja hlið en áður. Hjalti Steinn, annar helmingur hljómsveitarinnar, samdi taktinn upp úr steinaglamri í hellismunna og náttúruhljóðum fyrir talsvert löngu síðan. Lagið er svo samið af honum og hinum helming sveitarinnar, Daníel Hjálmtýssyni í sumarbústað þess fyrrnefnda á myrkri og þokufylltri sumarnótt í júlí. Forgetful Halos er auk þess skreytt með gítarplokki og ævafornri píanó hörpu sem gefur því ákveðið yfirbragð sem sveitin sækir í. Öðruvísi en kunnuglegt.

 

Lagið var tekið upp í Hljóðverki hjá Einari Vilberg Einarssyni en Einar sá einnig um upptökur á frumburði sveitarinnar, Afterglow. Einar hljóðblandaði auk þess báðar útgáfur sveitarinnar og lék á bassagítar í henni fyrri.

Forgetful Halos er komið út á öllum helstu streymisveitum heims. Von er á enn frekari útgáfu frá HYOWLP en hljómsveitin vinnur nú að því að undirbúa tónleikahald og stærri útgáfu.

Skrifaðu ummæli