SAMANTHA SHAY FRUMSÝNIR SVIÐSVERKIÐ „OF LIGHT“ Í TJARNARBÍÓi

0

samantha

Þann 22. júlí mun listakonan Samantha Shay frumsýna sviðsverk sem kallast „OF LIGHT“ í Tjarnarbíói í Reykjavík. Þetta er heimsfrumsýning en verkið var þróað á Íslandi, eftir að Samantha heimsótti fyrst landið og hugmyndin kviknaði. Það voru andstæður ljóss og myrkurs og öfgar þeirra hér á landi sem sendu listakonuna í könnunarleiðangur um hvernig þessar andstæður birtast í manneskjum. Verkið er byggt á ljóði Danielle Vogel sem kallast „A Library of Light“ og samið var við Arnarstapa. Á meðan á þróun verksins stóð dróst heimsþekkta listakonan Marina Abramovic að hugmyndum Shay um mannslíkamann sem ljósuppsprettu og hvernig rödd manna, ósýnileg en skynjanleg, getur verið túlkuð sem ljósgjafi. Undir handleiðslu Marinu dýpkaði ferli Samönthu og verkið þróaðist frá hefðbundnu leikhúsi í tilraunakennda óperu, verk sem er framið að mestu leyti í myrkri, þar sem áhorfandinn er umlukinn hljóði úr öllum áttum og ljóstýrur, hreyfingar, orð og tónlist verða að einni heild í eins konar athöfn. Þetta er tilraunakenndasta verk þessarar ungu listakonu hingað til og verður sýnt aðeins í þetta eina skipti á Íslandi. Sannkölluð veisla fyrir skynfærin og einstök upplifun fyrir áhorfendur.

samantha 3

Að verkinu kemur hópur af hæfileikaríku fólki, tónlistarkonan KA RYYN samdi raftónlist og kórverk fyrir verkið, Paul Evans, sem sér um hljóðhönnun og útsetningu, Nini Julia Band, sem fléttar við verkið hefðbundna tónlist frá Kúrdistan, Georgíu og Sardínu. Í verkinu er einnig tónlistarflutningur frá tónlistarkonunni Jodie Landau og söng- og leikonunni Emily Jackson frá New York. Samantha lætur hljóð og takt stýra verkinu og vefa það saman, þar sem hún endurraðar og ögrar hefðbundnum gildum og hugmyndum sem við höfum um sviðsverk og sviðsgjörninga
Verkið er framleitt og þróað af Source Material, alþjóðlegu listamanna kollektívi sem stofnað var af Samönthu Shay árið 2014. Source Material hefur sýnt þrjú verk frá stofnun með frábærum viðtökum og dómum, uppseldum sýningum og verðlaunum. 2016 mun marka stærsta ár hópsins frá upphafi, sem felur í sér frumsýningu á „OF LIGHT“ á Íslandi og verksins „A Thousand Tongues,“ sem framleitt er í samstarfi við eina af stærstu stofnununum Evrópsk leikhúss, The Grotowski Institute og verður frumflutt í nóvember sem hluti af listahátíðinni The European Capital of Culture 2016 í Warclaw í Póllandi. Source Material var stofnað úr þörf til að skapa og finna leiðir þar sem listamenn geta haft meiri stjórn á eigin verkum, kollektívið leitast eftir því að færa saman ólíka listamenn og nálganir, til þess að kanna ólíkar birtingarmyndir gjörninga, sviðsverka og sköpun listamanna.

samantha 4

Samantha Shay er ung amerísk listakona, leikstjóri leikhúss og kvikmynda, og framleiðandi. Hún skapar ljóðrænar upplifanir í verkum sínum sem reyna á skynfæri áhorfenda, eru draumkennd og óræð. Verkin hennar vinna með skynfærin áhorfenda og listafólksins, þar sem hún fléttar saman hljóð, hreyfingu, texta, lýsingu og rými og skapar með því heim ofskynjana sem á sama tíma lýsa vel tilfinningaskala og innra landslagi manneskja. Samantha Shay er útskrifuð frá CalArts, virtum listaháskóla í Los Angeles, hefur unnið með mörgu þekktu listafólki bæði erlendu og íslensku. Meðal íslenskra listamanna sem hún hefur unnið með má nefna tónlistarkonuna Sóleyju Stefánsdóttur, Jófríði Ákadóttur úr Samaris og einstaklingum hjá plötuútgáfunni Bedroom Community. Samantha kallar sig alkemista en hún notar athafnir, jurtir og galdra við listsköpun sína sem hún segir að eigin sögn dýpka vinnuferlið og gera ferlið sjálft, að listaverki í sjálfu sér.

Verkið verður sýnt aðeins í þetta eina skipti þann 22. júlí kl 20:00 í Tjarnarbíó.

Hægt er að nálgast miða á midi.is

Comments are closed.