Sækadelískur draumur við eldhúsborðið í Brooklyn

0

Freyr Eyjólfsson hefur komið víða við á viðburðarríkum ferli en hann hefur meðal annars sent frá sér fjölmargar plötur og unnið í útvarpi svo afar fátt sé nefnt. Kappinn var að senda frá sér plötuna Komur en hann vinnur nú undir nafninu Freyjólfur. Platan var tekinn upp í Brooklyn þar sem hann er búsettur og hefur stóra eplið svo sannarlega áhrif á listsköoun hans. Einnig var að koma út myndband við lagið „Hann býr ekki lengur hér” en þar fer stórleikarinn Halldór Gylfason með aðalhlutverkið.

Albumm.is náði talið af Frey og svaraði hann nokkrum spurningum um plötuna og framhaldið svo sumt sé nefnt.


Er platan búin að vera lengi í vinnslu og hvar er hún tekin upp?

Platan er tekin upp í vor hérna við eldhúsborðið heima hjá mér í Brooklyn. Allt saman gert í eldhúsinu. lagasmíðar, upptökur, umslag, hljóðfæraleikur og hljóðblöndun. Einungis notast við dót sem er við höndina, gítar, kaffibrúsi, skeiðar, haframjölskassi og sitthvað fleira.

 Hvaðan sækir þú innblástur fyrir þessa plötu og er hún frábrugðin fyrri verkum?

Ég var mikið að hlusta á svona gamla sækadelíska þjóðlagatónlist, fyrstu T-Rex plöturnar, Love, Peanut Butter Conspiracy. Alveg svona mega hippa dót! Skrítið, ljúft og draumkennt. Þetta er allt saman gert á kvöldin þegar krakkarnir eru sofnaðir, svo ég gat ekki verið með nein læti þess vegna er platan frekar róleg.    

Hvernig mundir þú lýsa plötunni í einni setningu?

Sækadelískur draumur við eldhúsborðið.

Nú ert þú búsettur í New York helduru að það hafi einhver áhrif á tónlistarsköpun þína?

Allur þessi “lo-fi” “gerðu það sjálfur” kúltur og bara New York viðhorfið að vera maður sjálfur, gera það sem mann langar til að gera og bara GERA það!  

Á að fylgja plötunni eftir með tilheyrandi tónleikahaldi og fáum við Íslendingarnir eitthvað að sjá þig bráðlega á tónleikum?

Ég mun pottþétt halda tónleika næsta sumar þegar ég kem heim.

Hvað er framundan hjá þér og eitthvað að lokum?

Ég er að klára meistaranám í Digital Management og er allur á kafi í nýrri tækni. Gervigreind og sýndarveruleika. Ótrúlega spennandi breytingar framundan sem eiga eftir að breyta öllu. Þess vegna er gott að hafa Freyjólf svona á kantinum, sem er bara frekar gamaldags, rólegur gaur með kassagítar og rauðrunnate.


Skrifaðu ummæli