SÁ STRAIGHT OUTTA COMPTON OG BYRJAÐI AÐ RAPPA

0

Rapparinn JóiPé eða Jóhannes Damien Patreksson eins og hann heitir réttu nafni var að senda frá sér afar ferskt lag og myndband sem ber heitið „Draumsýn.“ Lagið er silkimjúkt og erfitt er að kinka ekki kolli í takt við svalann taktinn!

Albumm.is náði tali af kappanum og svaraði hann nokkrum laufléttum spurningum.


Hvað ertu búinn að vera að gera tónlist lengi og hvernig kom það til?

Ég byrjaði rappa eftir að ég sá myndina Straight outta Compton og bað félaga minn Daníel Breka um að vera með mér og við stofnuðum þá grúbbu sem heitir Ríkisstjórnin.  Í dag er ég meira að gera sóló lög en er einnig að vinna í lögum með Kristni vini mínum eða Króla eins og hann er kallaður.

Hvaðan færð þú innblástur fyrir þína tónlistarsköpun?

Ég fæ mestan innblástur við að hlusta á aðra tónlistarmenn en einnig er ég á myndlistarbraut í skólanum og fæ þar mikinn innblástur.

Á hvaða tónlistarmenn ert þú að hlusta á um þessar mundir?

Um þessar mundir er ég mest að hlusta á The Weeknd, Travis scott og síðan hlusta ég mikið á old school hip hop eins og Nas, A tribe called quest og fleiri frábæra tónlistarmenn.

Er meira efni á leiðinni og eitthvað að lokum?

Ég er að vinna í bæði sóló lögum og með öðrum tónlistarmönnum, gæti verið að ég gefi út plötu í sumar en síðan er ég að vinna í old school plötu með Króla!

Skrifaðu ummæli