Rúsínan í pylsuenda Eistnaflugs

0

Það er komið að síðustu hljómsveitinni sem tilkynnt er til þátttöku á Eistnaflugi þetta árið en það eru engir aðrir en frændur okkar og stórmeistararnir í Tý.

Hljómsveitin Týr var stofnuð árið 1998 af fjórum Færeyingum sem voru um þær mundir búsettir í Danmörku þetta var sléttum 999 árum eftir að Þrándur í Götu hóf kristnun Færeyja árið 999. Þetta var fjórmenningunum að innblæstri og var afráðið að stofna víkingametalband og var Týr, hinn einhenti guð stríðs og réttlætis hið augljósa val þegar kom að því að velja nafn á hljómsveitina.

„Týr er sannkallaður happafengur og gleðjumst við Eistnaflugsfólk tvímælalaust yfir komu sveitarinnar til landsins, en allt of langt er um liðið síðan færeysku frændur okkar heiðruðu okkur með nærveru sinni. Þar sem von er á nýrri plötu frá þeim á haustmánuðum er alls ekki ólíklegt að ný tónlist verði leikin.“

Langflest lög hljómsveitarinnar sækja í færeyskan og norskan sagnaarf og sló hljómsveitin fyrst í gegn árið 2001 með Orminum langa, úrdrætti úr gömlum vikivaka sem dansaður hefur verið í Færeyjum frá því hann var ortur um 1830.

Önnur plata hljómsveitarinnar „Eric The Red“ náði mikilli hylli og varð söluhæsta plata Færeyja það árið. Einnig vakti hún athygli forsvarsmanna Napalm Records, sem gáfu plötuna út um allan heim. Eftir útgáfu plötunnar „Land“ árið 2008 fór hljómsveitin í víking og hélt fjölmarga tónleika með hljómsveitum á við Die  Apokalyptischen Reiter og Amon Amarth.

Skrifaðu ummæli