RÚNAR ÞÓRISSON MEÐ ÚTGÁFUTÓNLEIKA Í KVÖLD Á CAFÉ RÓSENBERG

0

rúnar
Rúnar Þórisson heldur útgáfutónleika á Café Rósenberg í kvöld föstudaginn 15. janúar kl. 22.00. Eftir að hafa spilað með hljómsveitinni Grafík um langt skeið þá hóf Rúnar að gera sólóplötur og sú nýjasta nefnist Ólundardýr. Umsagnir og dómar um plötuna hafa verið mjög lofsamlegir og hefur hún ratað á nokkra lista yfir bestu plötur ársins 2015. Það er því ástæða til að fagna en Rúnar mun ásamt hljómsveit frumflytja „dýrið“ í heild sinni á tónleikunum.

12250078_962144213825029_3493468715711979689_n
Ákveðin sérstaða er fólgin í því að með Rúnari leika og syngja tvær dætur hans, Lára og Margrét en þær hafa báðar einnig gefið út plötur á síðasta ári. Lára gaf út plötuna Þel og Margrét gaf út plötu með hljómsveitinni Himbrimi.
Hljómsveit Rúnars skipa einnig Arnar Þór Gíslason á trommur, Birkir Rafn Gíslason á gítar og Guðni Finnsson á bassa en þeir hafa einnig leikið með hljómsveitum eins og Ensími, Himbrimi, Pollapönk og Mugison. Að baki útgáfu Ólundardýrs liggur ákveðin hugmynd og hvati sem hófst 12. janúar s.l. að fyrsta lagið kom út á vefnum og í kjölfarið eitt lag á mánuði þar til 7. nóvember að afraksturinn er allur gefinn út, en þann dag hefði faðir Rúnars orðið áttræður. Slíkt á sér varla fordæmi.

rúnar2
Rúnar hefur sem rafgítarleikari og klassískur gítarleikari leikið á fjölda tónleika og tónlistarhátíða m.a. Iceland Airwaves, Secret Solstice, Myrkum músíkdögum og Listahátíð í Reykjavík, Aldrei fór ég suður á Ísafirði og á tónlistarhátíðum í Danmörku, Þýskalandi og á Ítalíu. Þá hefur hann margsinnis leikið í útvarpi, sjónvarpi og inn á geisladiska m.a. með Kammersveit Reykjavíkur, gítardúettinum Duo de mano og með hljómsveitinni Grafík en hann myndaði ásamt Rafni Jónssyni trommuleikara hryggjarstykkið í þeirri sveit um árabil.

Comments are closed.