RÖSKUN Á FLUGI

0

Ljósmynd: Gummi Hermanns.

Þungarokkssveitin Röskun stendur fyrir tónleikum á Gauknum þann 30. júní næstkomandi ásamt hljómsveitinni LITH, þar sem frítt verður inn. Auk þeirra munu stíga á stokk leynigestir sem hefja tónleikana á slaginu 22:00.

Sveitin mun að mestu spila efni af sinni fyrstu breiðskífu sem sveitin gaf út í janúar á þessu ári. Platan ber nafnið „Á brúninni,“ og er heilsteypt og átakanleg konseptplata sem fjallar um geðveikan einstakling sem sogast inn í svarthol eigin ranghugsana.

Allir textar Röskunar eru sungnir á íslensku og er tónlist þeirra blanda af „Old scool thrash“ og nútímaþungarokki.

Sveitinn hefur verið starfandi frá árinu 2013 og hefur komið víða við en sveitin tók meðal annars þátt í Wacken Metal Battle í Hörpu árið 2015.

Röskun mun jafnframt koma fram á þungarokkshátíðinni Eistnaflugi sem haldin verður 5. – 8. júlí. Röskun stefnir á að halda áfram að fylgja plötunni eftir út þetta ár en stefnt er á að hefja vinnslu á nýrri plötu í byrjun árs 2018.

Platan er fáanleg í flestum verslunum Hagkaupa og Eymundssonar um allt land, á heimasíðu sveitarinnar www.roskun.is og á Spotify.

Skrifaðu ummæli