Rósa Guðrún Sveinsdóttir spilar á Múlanum 18. apríl

0

Á næstu tónleikum vordagskrár Jazzklúbbsins Múlans, á Björtuloftum, 5. hæð Hörpu, miðvikudaginn 18. apríl kemur fram hljómsveit Rósu Guðrúnar Sveinsdóttur. Hljómsveitin mun flytja lög eftir bandaríska bassaleikarann og söngkonuna Esperönzu Spalding.

Esperanza Spalding er rísandi stjarna í jazzsenunni og hefur hingað til gefið út sex breiðskífur. Einnig er vert að nefna að hún var yngsta manneskjan í sögunni til að kenna við hinn virta Berklee tónlistarháskóla, sem og fyrsti jazztónlistarmaðurinn til að vinna til Grammy verðlauna sem besti nýliðinn.

Tónlist Esperönzu spannar marga stíla, allt frá ljóðrænum ballöðum yfir í hraðara fönk og latin, og allt þar á milli. Hljómsveitina, ásamt Rósu, skipa þau Sunna Gunnlaugs á píanó, Matthías Hemstock á trommur, Jóel Pálsson á saxófón og bassaleikarinn Þorgrímur Jónsson.

Rósa Guðrún lauk burtfararprófi í saxófónleik síðastliðið vor frá Tónlistarskóla FÍH, en áður hafði hún lokið burtfararprófi í jazzsöng frá sama skóla árið 2012.

Alls verða sextán spennandi tónleikar á dagskránni flesta miðvikudaga fram til 23. maí. Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 og fara fram á Björtuloftum, 5. hæð Hörpu og er miðaverð kr. 2500, 1500 kr. fyrir nemendur og eldri borgara, miðar fást í miðasölu Hörpu, harpa.is og tix.is

Múlinn er að hefja sitt 22. starfsár en hann er samstarfsverkefni Félags Íslenskra Hljómlistarmanna (FÍH) og Jazzvakningar. Klúbburinn heitir í höfuðið á Jóni Múla Árnasyni sem jafnframt var heiðursfélagi og verndari Múlans. Múlinn er styrktur af Reykjavíkurborg, Tónlistarsjóðnum og SUT sjóðnum og er í samstarfi við Heimstónlistarklúbbinn og Hörpu.

Skrifaðu ummæli