RÖKKURRÓ

0

Rökkurró_PhotoByNickMiners_4

Rökkurró er skipuð þeim Árna (Gítar og Synthi) Axel (Gítar og Percussion) Hildur (Söngur og Synthi) Skúli (Bassi) Bibbi (trommur og Píanó). Rökkurró var á dögunum að gefa út plötuna INNRA. Albumm fékk Árna, Axel og Hildi í spjall. þau sögðu okkur frá nýju plötunni, fólki í sleik og loksins er fólk farið að missa sig á Rökkurró tónleikum.


Hvenær er Rökkurró stofnuð?

Árni: Fyrsta æfingin var 23. janúar 2006 ég man það af því það er akkúrat viku fyrir afmælið mitt og önnur æfingin var á afmælinu mínu.

Axel: Fyrsta platan kom út árið 2007 og næsta kom út árið 2010, við höfum alltaf gefið út plötur á svona þriggja til fjögra ára fresti, stefnan er alltaf sett á að vera fljótari með næstu plötu en þetta tekur bara tíma. Við leggjumst stundum í dvala og þurfum að hafa svolítið fyrir því að rífa okkur í gang.

Árni: Þú gerir þér samt grein fyrir því að það er rétt um ár þangað til að Rökkurró verður tíu ára.

Hildur: Nákvæmlega við erum alveg hundgömul sko.

Árni:  Það er fullt af böndum sem hafa byrjað, hætt og komið aftur saman á tíu árum.

Rökkurró Press 3

Hvernig varð Rökkurró til?

Árni: Ég og Bibbi trommari erum búnir að vera vinir frá því að við vorum pínu litlir og vorum búnir að vera í einhverju hljómsveitarstússi, í bílskúrsböndum og eitthvað. Okkur langaði að stofna band sem spilaði svipaða tónlist og Rökkurró gerir. Við ætluðum fyrst að vera bara tveir en svo hitti ég Hildi og fyrrum bassaleikara okkar hana Ingibjörgu en við vorum öll saman í MR. Ég sá þær semsagt spila á einhverri skemmtun í MR og Hildur var að spila þá á Selló og Ingibjörg á Harmonikku og mér fannst þetta geðveikt töff þannig ég bað þær um að vera með og svo var annar bekkjarfélagi minn sem spilaði á gítar og hann varð svo með, þannig byrjaði þetta. Ég hef verið í allskonar rokkböndum og svona sem eru bara mest að gera einhvern hávaða og hafa kannski ekki neina stefnu. Þarna langaði mig að gera band sem hafði vissa stefnu og gera eitthvað sem ég fílaði.

Axel: Var þetta ekki fyrst þannig að þið voruð að herma eftir sándtrakkinu úr Amélie?

Árni:  Nei það er ekki alveg rétt.

Axel: Jú þið voruð að gera eitthvað svona cover dæmi.

Árni: Við coveruðum eitt Amélie lag og það er búið að vera fast við okkur síðan.

Hildur: Við byrjuðum að æfa uppá háalofti hjá Bibba en við hliðin á bjó gamalt fólk og það mátti ekkert hafa neitt sérstaklega hátt.

Axel: Það markaði svolítið fyrstu plötuna.

Hildur: Já hún var ekki hávær.

Árni: Okkur langaði að gera eitthvað svona post rokk en nota kannski frekar óhefðbundin hljóðfæri. Þegar við fluttum svo út úr háaloftinu og fórum í alvöru æfingarhúsnæði hjá TÞM (tónlistarþróunarmiðstöðinni) þá breyttist tónlistin okkar þannig það sem ég var með fastmótað í huganum var ekkert endilega það sem við enduðum á að gera.

Axel: Mér finnst líka fegurðin á bakvið Rökkurró vera sú að við erum öll ólík og komum úr ólíkum áttum með ólíkan tónlistarsmekk.

Hildur: Já nákvæmlega þetta er ekki eins og við komum frá sömu stefnum eða hlustum á sömu tónlist en það er mjög gaman að sjá hvernig það blandast saman.

Axel: Við höfum samt alltaf átt auðvelt með að vinna saman.

Hildur: Tjaaa

Árni: Tjaaa

Hildur: Við höfum allavega getað unnið saman.

Axel: Við höfum þolað hvort annað í gríðarlega langan tíma.

Árni: Að gera tónlistina gengur yfirleitt alltaf vel. Við semjum allt með því að djamma bara, það kemur einhver með hugmynd og við djömmum ofaní hana og stoppum eftir kannski svona hálftíma og stundum er það geðveikt og stundum ekki. Notum kannski einn kafla úr þessu djammi og semjum svo næsta. Það er aldrei þannig að einhver einn mæti með tilbúið lag og hinir spili bara undir. Þannig allir þessu ólíku einstaklingar koma með sitt innpútt og sinn spilastíl og útkoman er Rökkurró. Við höfum oft reynt að setja okkur einhverjar reglur en það hefur aldrei gengið neitt upp.

Hildur: Við eigum öll mjög mikið í tónlistinni og allir semja sínar laglínur.

Axel: En við segjum samt alveg við hvort annað „heyy reyndu að spila þetta svona“

Árni:  „Slökktu á Distortion-inu!“ er mjög algengt (hlátur).

Axel: Ólíkir heimar mætast en gengur upp

Þetta er þriðja platan ykkar, finnst ykkur upptökuferlið vera auðveldara í dag?

Hildur: Ójá, mér finnst alveg magnað að horfa til baka og hugsa til þess hvernig við gerðum t.d. fyrstu plötuna.

Árni: Við kunnum ekki rassgat þá.

Hildur: Við vorum átján ára og við vorum að reyna að gera fyrstu plötuna eins hratt og við gátum, mig minnir að við höfum tekið allt upp á þremur dögum og ég var að missa röddina, en maður barði sig áfram til að klára plötuna. það heyrist í sumum lögum að ég var að missa röddina. Við tókum ár í að gera nýju plötuna þannig munurinn á þeirri fyrstu og nýju plötunni er rosalega mikill. Við erum bara búin að læra ótrúlega mikið á þessu.

Axel: Núna höfðum við mjög fastmótaðar hugmyndir hvernig hlutirnir ættu að vera t.d. hvernig platan ætti að hljóma, platan varð mjög mikið til í stúdíóinu og ef það væri eitthvað concept á bakvið nýju plötuna þá er það að leyfa okkur að gera hvað sem okkur dettur í hug. Við höfum oft verið með svona sjálfskipaðar hömlur, við megum ekki þetta af því við erum svona band og eitthvað en núna var bara fokk it á allt. Á plötunni er meðal annars up beat disco lag og það er eitthvað sem við höfum aldrei gert áður, gerðum einnig pínu afro beat, við hentum út öllum svona organig hljóðfærum eins og selló, harmoniku og strengjum og tókum inn allskonar elektróník og það er eitthvað sem við höfum aldrei verið að leika okkur með áður, fullt af Synthum, við erum meira að segja farin að búa til Syntha sjálf.

Hildur: Öll lögin nema tvö eru á ensku en við höfum aldrei gert það áður þannig það eru fullt af hlutum sem við höfum aldrei gert áður en ákváðum að gera núna og það kom svolítið nýtt sound með þessu og það var ótrúlega gaman að vinna með það. Um leið og við fundum þetta nýja sound, sem tók ógeðslega langan tíma, að þá fór allt að gerast.

Axel: Þá fer maður líka að spá í því hvort maður sé að breyta of miklu í óþökk þeirra sem hlustuðu á bandið áður

Árni: Það eru reyndar ekki allir sáttir með það að við séum farin að syngja á ensku og þá aðallega einhverjir útlendingar.

Hildur: Ég fékk að heyra frá einhverjum um daginn „ég var að læra íslensku með því að hlusta á ykkur“ (hlátur) uuu já ok hlustaðu á hljóðbók! (hlátur). Hljómsveitir verða að þróast og mér finnst mikill styrkur í að fá svona comment, þá bara segir maður só og heldur áfram.

Axel: Það fer ekkert jafn mikið í taugarnar á mér og hljómsveitir sem gera kannski góða plötu en eyða svo ferlinum í það að reyna að gera sömu plötuna aftur og aftur. Fjölbreytni er mikill styrkur!

InnraCover

Eruð þið sátt með nýju plötuna?

Axel: Já og verðum það alveg þangað til næsta plata kemur út (hlátur).

Árni: Ég hef aldrei hlustað á Rökkurró plötu jafn mikið og þessa og er ekki enn kominn með leið á henni.

Hildur: Ég er alveg sammála þér.

Árni: Ég var að keyra um daginn og platan var í geyslaspilaranum þannig ég bara hlustaði og ég bara virkilega naut þess, þótt ég sé búinn að hlusta á hana svona fjögur hundruð sinnum.

Hildur: Maður er auðvitað búinn að hlusta á öll lögin hundrað sinnum og alveg eðlilegt að vera komin með ógeð en það er ekkert lag á þessari plötu sem ég er komin með ógeð á, sem mér finnst nokkuð magnað. Það var alveg fáránlega gaman að spila þessi lög á Airwaves.

Árni: Það er mjög gaman að spila þessi lög live en núna fyrir Airwaves þurftum við að æfa upp okkar eigin lög því það var svolítið síðan við tókum upp plötuna og ekkert spilað, þurftum að hlusta og æfa okkur upp.

Spilið þið mikið?

Axel: Nei neiiii nei.

Árni: Við vorum ógeðslega dugleg að spila á Airwaves.

Hildur: Já nákvæmlega en við höfum eiginlega ekkert spilað seinustu þrjú ár nema á Airwaves. Við erum að lifna við núna og okkur langar að spila meira, en við erum að fara í tónleikaferðalag í janúar og febrúar.

Hvert eruð þið að fara í tónleikaferðalag?

Árni: Við erum að fara út í janúar. Við byrjum á Eurosonic í Hollandi 16. janúar og svo höldum við áfram þaðan og tökum hring um alla Evrópu

Axel: Það komu nokkuð góðir hlutir út úr Airwaves í ár, aldrei þessu vænt. Maður er alltaf að heyra allar þessar sögur af hinum og þessum böndum sem meikuðu það á Airwaves en við höfum aldrei lent í því. Eitt slottið sem við vorum sett á í ár var frekar skrítið en það var á Gauknum, klukkan 12 á sunnudagskvöldinu, akkúrat þegar allir eru búnir á því.

Hildur: Akkúrat þegar enginn nennir út nema þá á stóru tónleikana, Flaming Lips eða eitthvað álíka.

Axel: Við ákváðum að gera bara gott úr þessu, settum saman partý prógramm með öllum okkar up beat lögum og þetta er í fyrsta skiptið sem ég hef séð fólk öskra og dansa á tónleikum hjá okkur.

Árni: Oft hefur þetta bara verið fólk í sleik og eitthvað.

Axel:  Já við höfum mjög oft spottað fólk í sleik og að vanga en þarna var bara fólk að missa sig. Eftir þessa tónleika fengum við samning við mjög flotta og veglega bókunarstofu sem heitir http://www.windishagency.com/ en þeir eru með vandræðalega flottar hljómsveitir á sínum snærum. Þetta fyrirtæki ætlar að rúnta okkur eitthvað um bandaríkin, sem að hefur verið draumur í ansi langan tíma. Við höfum verið voða dugleg að fara til Evrópu. Við höfum alltaf notið meiri hylli í Evrópu en á Íslandi og þá sérstaklega í Þýskalandi en okkur hefur alltaf langað að fara til bandaríkjanna en það er bara rosalega dýrt ef maður er ekki á samning eða með einhvern bakhjarl en við erum núna búin að krota á eitthvað blað og erum loks á leiðinni þangað, það verður geggjað!

Árni: Rökkurró hefur alla tíð gengið betur erlendis en á Íslandi.

Hildur: Sem er svolítið magnað því við vorum aldrei að gera neitt í því. Settum lögin okkar á Myspace eða eitthvað og fengum strax rosalega mikið feedback frá útlöndum. Við fórum að skipuleggja tónleikaferðir til Evrópu og það gekk alltaf ótrúlega vel og höfum alltaf komið út í plús úr öllum túrum.

Axel: Ísland hefur orðið svolítið útundan hjá okkur, kannski af því að við vissum að við gætum alltaf farið út t.d. til Þýskalands og spilað fyrir fullu húsi.

Árni: Það er ekkert okkur að kenna að Ísland varð útundan, það vildi enginn spila okkur!

Hildur: Kannski ekki mjög útvarpsvæn, allavega á fyrstu tveimur plötunum.

Axel: Sem er að breytast núna, með nýju plötunni erum við t.d. komin inná topp tíu á rás 2 sem er mikill sigur fyrir okkur. Platan er að seljast ágætlega þrátt fyrir að geisladiskasala hefur minkað gríðarlega undanfarið.

Rökkurró Press 2

Er platan komin út á vínyl?

Axel: Hún er ekki komin til Íslands á vínyl. Við erum að gefa hana út sjálf erlendis, við ákváðum að gera það í staðin fyrir að bíða eftir einhverju breiki. Við höfum alltaf selt svolítið af plötum erlendis. Við seldum útgáfuréttin af plötunni á Íslandi og notuðum þann pening til að gefa hana út erlendis. Það er algjör skömm að vínyllinn skuli ekki fást á Íslandi.

Hildur: Algjör skömm!

Axel: Við eigum ekki einu sinni plötuna á vínyl, sem er reyndar enn vandræðalegra (hlátur).

Hildur: Það er mjög gaman að sjá hvað margir eru að spyrja um vínyl, það er eiginlega enginn að kaupa diska en fólk er spennt að fá þetta á vínyl.

Axel: Það er eitthvað svo eigulegt við flottan vínyl og það er algjör snilld að kaupa sér vínyl og fá download kóðann með.

Hildur: Það er mjög áhugavert að fylgjast með þessari þróun, geisladiskasala hefur minkað rosalega og fólk er kannski að borga fimmtánhundruð á mánuði fyrir spotify. Mér finnst mjög spennandi að sjá hvernig þetta mun þróast

Axel: Þessi þróun er búin að vera frekar lengi í gangi. Sigur Rós föttuðu þetta mjög snemma eins og að gefa út hefðbundna plötu en þeir gefa svo líka út rosa flottan pakka með allskonar dóti eins og bókum, póstkortum o.fl.

Árni: Fólk vill ennþá alveg styrkja uppáhalds hljómsveitina sína en er hætt að vilja borga fyrir tónlistina af því að tónlist í dag er bara ógeðslega dýr

Tók langan tíma að gera þessa plötu

Axel: Lengri tíma en það átti að gera

Árni: Við byrjuðum að taka upp plötuna í september í fyrra og kláruðum seint í apríl á þessu ári.  masterinn var tilbúinn í júní. Við tókum þetta í nokkrum lotum. Í september tókum við fjóra daga, í nóvember tókum við aðra fjóra daga.

Hildur: Já þetta var langt ferli en við líka hentum nokkrum lögum og byrjuðum uppá nýtt og við sömdum þrjú eða fjögur ný lög sem enduðu svo á plötunni. Við höfum aldrei gert það áður en við vorum miklu harðari við okkur núna.

Axel: Það hollasta sem listamaður gerir við sjálfan sig er að ritskoða sig og henda því sem maður er ekki ánægður með í staðin fyrir að láta það frá sér óánægður. Þessi plata átti ekkert að taka svona langan tíma og upptökustjórinn okkar ( Helgi Hrafn Jónsson) á mikið hrós skilið. Hann er með þolinmóðustu mönnum sem ég hef kynnst. Það er ótrúlegt að hann hafi ekki bara hent okkur út, við vorum alltaf að breyta einhverju. Hann á rosalega stórann part í þessari plötu.

Er þetta ykkar metnaðarfyllsta plata?  

Axel: Já by far sko.

Hildur: Já algjörlega.

Árni: Eyddum rosalegum tíma í þetta.

Axel: Nostrað við hvert smáatriði. Þetta er okkar besta plata!

Finnst ykkur eins og Rökkurró sé að ná nýjum hæðum og ná til breiðari hóps með þessari plötu?

Árni: Alveg tvímælalaust.

Axel: Já alveg pottþétt og líka það að við erum að syngja á ensku þannig við erum komin með miklu fleiri eyru sem skilja okkur. Poppmúsík er líka miklu aðgengilegra format en hitt sem við vorum að gera.

Hildur: Við vissum alveg að við vorum fyrir takmarkaðann hóp og við vorum ekkert að reyna eitthvað annað, okkur var alveg sama. Við vorum bara að gera það sem okkur fannst cool og ef einhver vildi hlusta á það þá var það fínt. Núna finnst mér eitthvað virkilega fallegt við catchy tónlist, hvað er það sem grípur fólk og svoleiðis. Núna er fullt af fólki á tónleikum með okkur sem hafa örugglega ekki fílað gamla dótið okkar.

Axel: Það var líka alveg geggjað að sjá fólk á Airwaves syngja með þegar við vorum að spila Blue skies. Það hefur bara ekki tíðkast á tónleikum með Rökkurró í gegnum tíðina. Maður finnur fyrir því að þetta er að ná betur til fólks.

Árni: Það er líka gaman fyrir okkur að prufa að gera popp músík, sjitt þetta á eftir að hljóma geðveikt tilgerðarlega en ok, það er geðveik gleði í því að sjá fólk fíla tónlistina þína og vita að það er fullt af fólki sem hefur ánægju að því að hlusta á það sem maður er að búa til. Að búa til tónlist sem er ekki endilega commercial en er meira catchy er líka eitthvað svo fallegt í staðin fyrir að reyna að króa sig af í einhverju horni. Okkur langar bara að spila skemmtilega tónlist fyrir fólk.

Hildur: Það eru rosalega margir sem tengja eitthvað neikvætt við popp tónlist en ég fór að líta allt öðruvísi augum á það, það er eitthvað svo magnað að geta gert tónlist sem fullt af ólíkum týpum fíla.

Voruð þið komin með leið á því sem þið voruð að gera og þess vegna breyttuð þið svolítið um stefnu?

Axel: Já alveg tvímælalaust. Við vorum alveg á barmi þess að hætta okkar samstarfi.

Hildur: Við vorum svo nálægt því að hætta, við vorum komin með svo mikið leið á þessu öllu en við héngum saman og ef maður hugsar um það núna að þá erum við ótrúlega þakklát að við hættum ekki. Það var rosa langur tími þar sem allt gekk mjög illa. Við vissum ekki hvað við vildum gera en við vissum ekki heldur hvað við vildum ekki gera. Það gekk mjög illa á æfingum og allir voru pirraðir útí alla. Þetta var eins og lélegt samband sem gekk ekki upp en enginn þorði að fara en það var greinilega eitthvað sem hélt okkur saman.

Axel: Algjörlega og heildar pælingin við þessa plötu var að hafa ekki neinar hömlur og ekki banna neitt.

Hildur: Já eins og að hafa plötuna mest megni á ensku. Áður fyrr var þetta bara á íslensku og það varð að vera á íslensku, við heitum líka mjög íslensku nafni sem er frábært því það er svo auðvelt að googla það.

Axel: Ég var að kynna mér dagskránna á Airwaves að þá googlaði ég hljómsveitina Perfect Pussy það er ekki mjög auðvelt að googla það band (hlátur) það voru góðir tímar (hlátur).

 

Comments are closed.