ROKKJÖTNAR 2015 Í VODAFONE HÖLLINNI 5. DESEMBER

0

12247106_1257090480983625_1676229234343203315_n

Sem kunnugt er verður rokkhátíðin Rokkjötnar haldin í Vodafone-höllinni þann 5. desember næstkomandi. Skipuleggjendur hátíðarinnar eru nú í óða önn að koma öllu á hreint og í mörg horn er að líta eins og gefur að skilja. Nú hefur tímaplanið verið gefið út og það er vægast sagt vígalegt:

• 16:00-16:35 MEISTARAR DAUÐANS

• 16:50-17:25 BOOTLEGS

• 17:40-18:15 MUCK

• 18:30-19:10 KONTINUUM

• 19:25-20:15 THE VINTAGE CARAVAN

• 20:30-21:30 SÓLSTAFIR

• 21:45-22:45 DIMMA

• 23:15-00:45 MASTODON

Í ár mun í fyrsta sinn frá upphafi Rokkjötna stíga á svið erlend hljómsveit, en það er engin önnur en MASTODON sem er ein allra vinsælasta þungarokkshljómsveit 21. aldarinnar.

Hér gefur einnig að líta rjómann sem flýtur ofan á íslensku þungarokkssenunni. Bara á þessu ári hafa fjórar af þeim 8 hljómsveitum sem fram koma á Rokkjötnum í ár gefið út nýjar plötur; MEISTARAR DAUÐANS með ‘Kayȁ Kȁgȁ Pinȁndawȁ’, nýkomin funheit úr pressu beint í jólabúð rokkarans á Rokkjötnum.

BOOTLEGS með ‘Ekki fyrir viðkvæma’ eftir 25 ár frá síðustu plötu, en nú ætla þeir að sýna hvernig þungarokk var spilað.

MUCK með ‘Your Joyous Future’, en þeir hafa nýlokið tónleikaröð um Bretland ásamt Every Time I Die.

KONTINUUM með ‘Kyrr’ sem fengið hefur gríðarlega góð viðbrögð og þá sérstaklega á erlendum markaði.

Einnig hafa þetta árið THE VINTAGE CARAVAN og SÓLSTAFIR túrað sleitulaust víðsvegar um heiminn.

DIMMA hefur ekki haft undan í spilamennsku, hvort sem er með Bubba eða Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í pakkfullri Eldborg Hörpu.

Rokkjötnar leggja áherslu á að gera íslensku þungarokki hátt undir höfði og hefur að leiðarljósi að sem allra flestir geti notið. Þannig er miðaverði stillt í hóf og fólk sem ekki hefur náð 18 ára aldri er velkomið með forráðamönnum. Þessu er svo pakkað inn í glæsilega umgjörð, risasvið, og kraftmesta tækjakost sem völ er á. Rokkjötnar vilja sjá íslenskt þungarokk vaxa og dafna enn frekar og eiga þá ósk heitasta að sem flestir taki þátt í þeirri uppbyggingu. Sem fyrr segir verða herlegheitin haldin í Vodafone-höllinni laugardaginn 5. desember og opnar húsið klukkan 15:00. Miðaverð er aðeins 9.490 krónur og er miðasalan í fullum gangi hér á tix.is.

 

Comments are closed.