RIFFRILDI SENDA FRÁ SÉR PLÖTUNA MYRKÁ

0

Riffrildi band photo 3

Þann 1. júní síðastliðinn gaf hljómsveitin Riffrildi út aðra plötu sína, Myrká. Textar og lög á plötunni eru stílfærð útgáfa af einhverri best þekktu draugasögu Íslendinga, sögunni um Djáknann á Myrká, og hefur sveitin nú fært hana í þungarokksbúning þar sem hvert lag er einn kafli í sögunni um Djáknann. Lögin á plötunni eru samofin bæði í textum og tónlist og mynda þau saman heilsteypta sögu sem áheyrandinn upplifir við hlustun á plötunni.

Riffrildi band photo 2small

Hljómsveitin Riffrildi var stofnuð af fjórum strákum árið 2012 og fylgdi verkefninu ekki mikil alvara í fyrstu. Eftir nokkurn fjölda mannabreytinga færðist þó meiri alvara í hlutina og hóf sveitin að spila reglulega. Árið 2014 hljóðritaði sveitin nokkur af þeim lögum sem fylgt höfðu sveitinni hvað lengst og gáfu út EP sem bar nafnið Partívítamín. Plötunni var vel tekið af aðdáendum sveitarinnar en náði ekki mikilli dreifingu. Þegar vinnslu við plötuna var að ljúka fæddist hugmyndin á bak við aðra plötu sveitarinnar sem síðar hlaut nafnið Myrká. Við vinnsluna á plötunni var markið sett hærra og tók sú vinna um 15 mánuði frá byrjun til enda. Upptökur og hljóðblöndun önnuðust hljómsveitarmeðlimir sjálfir og byggðu þar á reynslu sinni frá vinnu við fyrri plötu sveitarinnar. Upptökur fóru fram í Duggunni.

Riffrildi band photo 4

Meðlimir hljómsveitarinnar við upptökur voru Baldur Karl Magnússon á gítar, Hugi Leifsson á gítar og bakraddir, Brynjar Örn Björgvinsson á bassa, Hrannar Jónasson söng og Kristinn Hjörleifsson á trommur. Síðan þá hefur Sigurjón Ólafsson tekið við hlutverki Kristins sem trommuleikari og mun hann sjá um að halda taktinn á tónleikum sveitarinnar komandi misseri.

Útgáfutónleikar sveitarinnar fara fram þann 1. júlí næstkomandi á Ellefunni við Hverfisgötu, en nánari upplýsingar um viðburðinn verða kynntar síðar.

Hægt er að nálgast plötuna, Myrká í LUCKY RECORDS.
Sjá einnig:

Comments are closed.