RIFF TV: Rætt við leikstjóra, sundbíó og tólistarmyndböndum gert hátt undir höfði

0

RIFF Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, er einn stærsti og fjölbreyttasti menningarviðburðurinn á Íslandi. Í ellefu daga á hverju hausti flykkjast Íslendingar í bíó til að sjá það besta og ferskasta í alþjóðlegri kvikmyndagerð. Enn fremur býðst gestum að spjalla við leikstjóra um verk sín, sækja málþing og fyrirlestra, tónleika og listasýningar, og að sjá kvikmyndir við óhefðbundin skilyrði –  í sundi, í helli eða í stofunni hjá þekktum kvikmyndagerðarmanni!

Hátíðin er nú haldin í 15 skiptið og sem og á síðustu hátíðum sér RIFF TV um að festa það helsta sem fram fer á filmu. RIFF TV er samstarfsverkefni hátíðarinnar, Borgarholtsskóla og Fjölbrautaskólans við Ármúla en það eru nemendur í margmiðlunarnámi skólanna sem að sjá um upptökur og eftirvinnslu á innslögum RIFF TV.

Hér eru nokkur innslög frá RIFF TV í ár: 

Opnunarparty RIFF 2018:

Kvikmyndin Donbass eftir Sergei Loznitsa opnaði hátíðina í ár, en Sergei hlaut sérstök verðlaun RIFF fyrir framúrskarandi listræna sýn.

RED RIFF – sýning á íslenskum tónlistarmyndböndum:

Í ár bauð Red Bull upp á sérstakan viðburð þar sem að íslenskum tónlistarmyndböndum var gert hátt undir höfði. Sex myndbönd, bæði eldri og splunkuný voru sýnd, Bergur Ebbi stýrði spjalli eftir sýninguna og að sjálfsögðu flæddi Red bull um allt, líkt og vín í Rómaveldi til forna.

Sundbíó í Sundhöll Reykjavíkur – The Fifth Element:

Það er löngu orðin hefð á RIFF að bjóða upp á sérstakt sundbíó í Sundhöll Reykjavíkur. Í ár var myndin The Fifth Element frá 1997 eftir Luc Besson sýnd við mikinn fögnuð gesta, en myndin skartar þeim Millu Jovovich, Bruce Willis og Gary Oldman, öllum á hátindi ferils síns.

Málþing um Sjálfsmynd þjóðar:

Á hverju ári stendur RIFF fyrir fjölda málþinga og meistaraspjalla. Í ár fór m.a. fram málþing um sjálfsmynd þjóðar og menningu. Þar héldu þau Guðrún Nordal og Gunnar Haraldsson tölu áður en panillinn, sem saman stóð af þeim Bergi Ebbi Benediktssyni, Björgu Jónsdóttur, Hrönn Marinósdóttur, Ísoldu Uggadóttur og Ólafi Stefánssyni var kynntur til leiks.

A Royal Affair – Spurt og svarað með Mads Mikkelsen:

Í ár er Mads Mikkelsen einn af heiðursgestum hátíðarinnar. Hér er litið við inn á „spurt og svarað“ viðburð að lokinni sýningu á myndinni, A Royal Affair, þar sem að Mads fer með eitt aðalhlutverkið.

Eftirmiðdegi með Jonas Mekas:

Kvikmyndagerðarmaðurinn Jonas Mekas hlýtur í ár verðlaun RIFF fyrir æviframlag til kvikmyndalistarinnar. Honum til heiðurs var efnt til viðburðar á Loft Hostel, þar sem fram fór kvikmyndasýning og upplestur á ljóðum Jonasar, sem að hafa nú við þetta tilefni verið þýdd á íslensku.

Spurt og svarað á myndinni Knife + Heart:

Kvikmyndin Knife + Heart gerist árið 1979 þegar að grímuklæddur morðingi fer að myrða fólk úr hinsegin klámsenunni í París. Myndin keppir í vitranaflokki RIFF í ár þar sem að verðlaunin eru hinn gyllti lundi. Litið var við hjá „spurt og svarað“ að lokinni sýningu myndarinnar og rætt við leikstjórann sem og gesti.

Sýndarveruleiki – tímagöng til 1918:

Þann 1.okt gátu gestir RIFF ferðast til ársins 1918 með hjálp sýndarveruleikatækninnar. Hér er rætt við Árna Gunnarsson kvikmyndagerðarmann, en hann á heiðurinn að tímaflakkinu, í andyri Bíó Paradís og var hann spurður spjörunum úr.

Skrifaðu ummæli