RIFF KYNNIR ÞÆR 40 MYNDIR SEM VERÐA Á DAGSKRÁ Á HÁTÍÐINNI

0

11874995_10152953543881386_6344212290467927092_o

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík verður sett þann 24. september næstkomandi, 40 myndir verða á dagskrá þá 11 daga sem hátíðin stendur. Myndirnar sem nú eru kynntar eru annars vegar heimildarmyndir og myndir í keppnisflokkunum Open Seas þar sem sérstaklega eru valdar myndir sem vakið hafa athygli á kvikmyndahátíðum undanfarin misseri og flokknum A Different Tomorrow sem inniheldur myndir sem taldar eru geta bætt heiminn í kringum okkur. Það kennir ýmissa grasa í listanum að neðan, allt frá heimildarmyndum um Hollywoodstjörnur sem fallnar eru frá, um stjórnarskrárbreytingar í Zimbabwe og þá mynd um líf og störf sælkera og matargagnrýnanda.

Hægt er að kynna sér myndirnar nánar hér að neðan og frekari upplýsingar og miðasölu er að finna á vef riff.is.

Eftirfarandi myndir hafa vakið mikla athygli á undanförnum misserum:

Cartel Land. Heimildarmynd eftir Matthew Heineman frá Bandaríkjunum sem segir sögu tveggja sjálfskipaðra löggæslumanna sem hafa ákveðið að leggja allt í sölurnar til að kveða niður vargöldina sem geisað hefur í Mexíkó vegna stríða glæpagengja þar í landi. Myndin var frumsýnd á Sundance kvikmyndahátíðinni og naut þar mikilla velgengni, hlaut meðal annars verðlaun fyrir bestu leikstjórn og kvikmyndatöku.

Ingrid Bergman in her own Words. Heimildarmynd eftir hinn sænska Stig Björkman. Í myndinni eru birt áður óbirt dagbókarbrot, bréf og myndefni Ingrid Bergman sem varpa nýju ljósi á heillandi sögu venjulegrar sænskrar stúlku sem á stuttum tíma varð stærsta stjarnan í Hollywood. Myndin hlaut sérstök dómnefndarverðlaun á Cannes-kvikmyndahátíðinni í maí.

Heimildarmyndin Pervert Park. Hjónin Frida og Lasse Barkfors lögðu í það krefjandi ferðalag að heimsækja hjólhýsagarðinn Florida Justice Transition þar sem safnast hafa saman dæmdir kynferðisbrotamenn sem reyna á nýjan leik að aðlagast samfélaginu. Myndin segir sögu þeirra á hreinskilin og umbúðalausan hátt.

Drone eftir Terje Hissen Schei. Heimildarmynd sem fjallar um notkun CIA og bandaríkjahers á flygildum í hernaði. Myndin segir bæði sögu íbúa í Pakistan sem búa við sífellda ógn vopnanna og þá innri baráttu þeirra sem stýra tólunum. Schei hefur á undanförnum árum unnið til fjölmargra friðar- og mannúðarverðlauna á kvikmyndahátíðum víða heim.

Tangerine eftir leikstjórann Sean Baker. Þessi frumlega og fjöruga mynd fjallar trans-vændiskonuna Sin-Dee sem hefur leit um alla Los Angeles að dólgnum Chester sem hélt framhjá henni á meðan mánaðarlangri fangelsisdvöl hennar stóð. Myndin var öll tekin upp á þremur iPhone 5 snjallsímum og vann til verðlauna á Karlovy Vary hátíðinni.

Journey to the Shore eftir Kiyoshi Kurosawa. Þremur árum eftir að Yusuke drukknaði undan norðuströnd Japans, snýr hann aftur heim til ekkju sinnar Mizuki og býður henni í ferðalag að ströndinni þar sem hann kvaddi heiminn. Ljúfsár drauga-ástarsaga sem sýnir að náin tengsl geta náð út fyrir dauðann. Myndin hlaut leikstjórnarverðlaun í Un Certain Regard flokknum á Cannes.

 

HEIMILDARMYNDIR:

1989

Anders Østergaard, Erzsébet Rácz

DEN/GER/HUN/NOR

2014

97 mins

 

Hér er magnað andrúmsloftið og atburðirnir sem leiddu til falls Járntjaldsins árið 1989 endurskapaðir.  Áhorfandinn fær aðgang að leynilegum fundum gegnum vitnisburði lykilþátttakenda, ýmis opinber gögn og endurleikna atburði. Leikstjórinn Anders Østergaard hlaut tilnefningu til Óskarsverðlauna árið 2008 fyrir ‘Burma VJ.’

A Flickering Truth

Pietra Brettkelly

NZL/AFG

91 min

2015

 

Þrír draumóramenn dvelja í rykskýinu sem aldarlangt stríðið í Afganistan hefur skilið eftir sig. Þeir reyna nú að verja og endurheimta 8000 klukkustundir af efni sem geymt er á viðkvæmri filmu sem þeir hafa gætt með lífi sínu undir ógnarstjórn Talíbana. Hvað mun filman leiða í ljós um horfna tíma?

Around the World in 50 Concerts

Heddy Honigmann

NED

2014

95 min.


Árið 2013 fagnaði konunglega hollenska Concertgebouw sinfóníuhljómsveitin 125 ára afmæli sínu. Hún fór af því tilefni í hnattreisu og lék á 50 tónleikum í sex heimsálfum. Hér fylgjum við sveitinni eftir til Argentínu, Suður-Afríku og Rússlands og sjáum hvernig klassísk tónlist hreyfir við fólki með ólíkan bakgrunn og á öllum aldri.

Cartel Land

Matthew Heineman

MEX/USA

2015

98 min

 

Vargöld geisar í Mexíkó þar sem morðóðar glæpaklíkur ráða víða ríkjum. Í þessari vestrakenndu heimildarmynd er fylgst með tveimur sjálfskipuðum laganna vörðum sem hafa helgað líf sitt baráttunni við glæpasamtökin. Cartel Land hlaut verðlaun fyrir bestu leikstjórn og bestu kvikmyndatöku á Sundance kvikmyndahátíðinni.

Democrats

Camilla Nielsson

DEN

2015

100 mins

 

Camilla Nielsson fékk einstakan aðgang að viðræðum tveggja stjórnmálamanna úr andstæðum fylkingum sem unnu að því að semja nýja stjórnarskrá fyrir Zimbabwe. Annað hvort markar hún upphafið að endalokum spilltrar harðstjórnar Roberts Mugabe og innleiðingu lýðræðis – eða hún tryggir áframhaldandi kúgun og einræði. Vann til verðlauna á CPH:DOX og víðar.

Foodies

Thomas Jackson, Charlotte Landelius, Henrik Stockare

SWE

2014

95 mins

 

Áhugi á hágæða eldamennsku fer sífellt vaxandi. Í ‘Sælkerum’ stígum við inn í heim áhrifamestu sælkera í heimi; öflugan hóp matargagnrýnanda sem hafa einstaka ástríðu fyrir faginu og eldamennsku og ferðast stöðugt á milli bestu veitingastaða í heimi. Þar hafa þau aðgang sem meðaljóninn getur ekki látið sig dreyma um.

Ingrid Bergman in her own Words

Stig Björkman

SWE

2015

114 min

 

Í Ég heiti Ingrid er saga leikkonunnar Ingrid Bergman rakin í viðtölum, áður óbirtu myndefni, persónulegum bréfum og dagbókarfærslum. Afhjúpandi og heillandi heimildarmynd um viðburðarríkt líf ungrar sænskrar stúlku sem varð stærsta stjarnan í Hollywood. Hlaut sérstaka viðurkenningu dómnefndar á kvikmyndahátíðinni í Cannes.

Jia Zhang-ke: A Guy from Fenyang

Walter Salles

BRA/CHI

2014

105 min

Einum merkasta leikstjóra samtímans, Jia Zhang-ke, er fylgt eftir meðan hann ferðast aftur til heimabæjar síns í Kína, heimsækir tökustaði og hittir samferðafólk sitt af ferlinum. Leikstjóri myndarinnar, Óskarsverðlaunahafinn Walter Salles, töfrar fram innilegt kvikmyndalegt samtal þar sem sköpunarferli kvikmyndahöfundarins er kannað á ljóðrænan hátt.

Leaving Africa

Iiris Härmä

FIN/SWE

2015

84 min

 

Finnska leikstýran Iiris Härmä segir hér átakanlega og hjartnæma sögu um vináttu og valdeflingu kvenna. Hin finnska Riita og hin úganska Catherine búa saman í Úganda og fræða fólk í nágrannasamfélögum um kynheilsu og jafnrétti. Eftir 25 ára starf hóta yfirvöld að afturkalla leyfi þeirra, hætta fjármögnun verkefnisins og gera Riittu brottræka.

Listen to me Marlon

Stevan Riley

GBR

2015

95 min.

 

Ef horft er yfir alla þekktustu leikara Hollywood á 20. öld þá er óhætt að fullyrða að fáar stjörnur hafi skinið jafn skært og Marlon Brando. Fáir voru jafn umdeildir en samtímis dáðir.  Þessi nánast sjálfsævisögulega mynd er sett saman úr gríðarlegu safni hljóðupptakna sem Brando tók sjálfur upp og notar þannig hans eigin rödd til að afhjúpa manninn á bak við goðsögnina.

Pervert Park

Frida & Lasse Barkfors

DEN/SWE

2014

75 min

 

Í Pervert Park fylgja Frida og Lasse Barkfors hópi kynferðisafbrotamanna eftir í hjólhýsagarðinum Florida Justice Transitions þar sem þeir reyna að aðlagast samfélaginu á ný. Í myndinni tekst hjónunum að leysa það afar erfiða verkefni að draga upp mynd af afbrotamönnunum og brotum þeirra á eins hreinskilinn og umbúðalausan hátt og þeim er unnt.

Rolling Papers

Mitch Dickman

USA/URU

2015

79 mins
Rolling Papers er heimildarmynd um lögleiðingu kannabiss í Colorado og hvernig umfjöllun um menningar- og viðskiptamál í The Denver Post breyttist á fyrsta ári lögleiðingarinanar. Myndin fylgist með blaðamönnum á fréttastofunni sem og lausapennum sem skrifa um gras fyrir vefútgáfu tímaritsins og dálkinn ‘The Cannabist’.

Sweet Micky for President

Ben Patterson

USA

2015

89 min
Pras Michel, rappari úr hljómsveitinni The Fugees, snýr aftur til heimalands síns Haítí eftir hörmulegan jarðskjálfta árið 2010. Honum blöskrar aðgerðarleysi spilltrar ríkisstjórnarinnar og hefur kosningabaráttu fyrir ólíklegasta forsetaframbjóðanda sem hugsast getur, poppstjörnuna og sérvitringinn Sweet Micky. Þegar fyrrum hjómsveitarmeðlimur Pras, Wyclef Jean, býður sig einnig fram færist hiti í leikinn. Stórskemmtileg og heillandi heimildarmynd.

The Amina Profile

Sophie Deraspe

CAN

2015

84 min

 

Sandra í Montreal kynnist Aminu í Sýrlandi á netinu. Arabíska vorið rennur upp og fljótlega dregst Amina, sem heldur úti bloggi, inn í hringiðuna og henni er rænt. Óttaslegin ástkona hennar leitar hennar heimsenda á milli en uppgötvar að það fara ekki allir eftir leikreglum á veraldarvefnum sem er einnig vefur leyndardóma og blekkingar.

 

The Arms Drop

Andreas Koefoed

DEN/SWE/GBR/IND

2014

94 min.

 

Árið 1995 féllu nokkur þúsund vélbyssur og skotfæri af himnum ofan í Vestur-Bengal héraði á Indlandi. Daninn Niels Holck og Bretinn Peter Bleach stóðu að baki athæfinu. Annar þeirra var handsamaður en hinn slapp. Fátt annað var vitað um þennan verknað lengi vel, en í þessari grípandi heimildarmynd er reynt að greiða úr þessu gríðarflókna máli.

 

The Circus Dynasty

Anders Riis-Hansen

DEN

2014

95 min.

 

Þegar tvær stærstu sirkusfjölskyldur í Evrópu eignast erfingja af sitt hvoru kyni á sama árinu kemur fátt annað en ævintýralegt samband þeirra til greina. Hér skyggnumst við bak við litrík tjöld á einstakt samband þeirra, samband sem reynir á þegar annað þeirra fær tilboð sem erfitt er að hafna…

 

The Closer We Get

Karen Guthrie

GBR/ETH

2015

87 mins

 

Áhrifamikil og persónuleg heimildarmynd þar sem Karen Guthrie fjallar um eigin fjölskyldu eftir að móðir hennar fær alvarlegt heilablóðfall. Með myndavélina að vopni leitar hún að sannleikanum á bak við lygina sem faðir hennar hélt að börnunum. Var valin besta alþjóðlega heimildarmyndin á Hot Docs hátíðinni í Toronto.

The Living Fire

Ostap Kostyuk

UKR

2014

77 min.

 

Í hrjóstrugum Karpaþíu-fjallgarðinum í Úkraínu halda fjárhirðar enn í aldagamla lifnaðarhætti forfeðra sinna. Í þessari áhrifaríku heimild um hverfandi samfélag eru þrír hirðar teknir fyrir, hver af sinni kynslóð: Ivan (82), Vasyl (39) og Ivanko (10). Þeir eru táknmyndir um fortíð, nútíð og hugsanlega framtíð þessa fámenna hóps.

The Other Side

Roberto Minervini

FRA/ITA

92 min

2015

Á ósýnilegu landsvæði á útjaðri siðmenningarinnar, á mörkum stjórnleysis og lögleysu, býr fólk í mýrinni. Þessu jaðarfólki er hér lýst á einstaklega ljóðrænan hátt þótt það sé erfitt að finna til samkenndar með fólki sem talar niðrandi um minnihlutahópa, tekur heróín, skýtur rifflum og virðir fátt annað en sitt eigið ímyndaða frelsi.

The Queen of Silence

Agnieszka Zwiefka

GER/POL

2014

83 min
Denisa er á skjön við samfélagið. Hún er tíu ára rómastúlka, ólöglegur borgari í Póllandi þar sem feðraveldið ríkir. Hún talar ekki og lifir í eigin heimi þar sem hún hermir eftir Bollywood myndum. Þegar Denisa dansar getur hún verið hver sem er og tjáð það sem hún getur ekki sagt. Einn daginn útvegar læknir henni heyrnartæki.

The Wanted 18

Amer Shomali, Paul Cowan

PAL/CAN/FRA

75 min

2014
Ótrúleg en sönn saga: Palestínumenn í Beit Sahour reyna að koma af stað umfangslitlum mjólkuriðnaði og fela í þeim tilgangi átján mjólkurkýr fyrir ísraelskum öryggissveitum því mjólkursamlagið var talið ógn við þjóðaröryggi Ísraela. Myndin samanstendur af viðtölum, eldri upptökum, teikningum, einföldum teiknimyndum og leiknu efni.

War of Lies

Matthias Bittner

GER

2014

89 min

 

Árið 2003 lýstu Bandaríkin stríði á hendur Írak til að stöðva framleiðslu þeirra á gereyðingarvopnum. Ákvörðunin um hernaðaríhlutun byggði á vitnisburði eins manns, írakska uppljóstrarans Rafid Ahmed Alwan. Vitnisburður Rafids reyndist uppspuni og í þessari mögnuðu heimildarmynd er glímt við spurninguna: Hvernig geta fölsk ummæli eins manns hrundið af stað stríði?

Warriors from the North

Nasib Farah, Søren Steen Jespersen

DAN/SOM

2015

59 min.
Þrír ungir múslimar frá Danmörku ákveða að ferðast til Sómalíu og ganga til liðs við hryðjuverkasamtökin Al-Shaabab. Innan nokkurra mánaða hafa tveir þeirra tekið eigin líf og margra annarra í sjálfsmorðssprengingum, og líklegt er að sá þriðji eigi svipuð örlög í vændum. En faðir hans sættir sig ekki við það og hefur því óþreyjufulla leit að syni sínum í von um að ná til hans áður en það verður um seinan.

Who took Johnny?

David Beilinson, Michael Galinski, Suki Hawley

USA

2014

77 min
Fyrir þrjátíu árum hvarf Johnny Gosch þegar hann var að bera út blöð í Iowa. Hann var fyrsta týnda barnið sem birtist á mjólkurfernu. Móðir Johnny, Noreen Gosch, hefur aldrei hætt að leita sannleikans um hvarf hans og rekur myndin raunalega sögu hennar. Hlaut áhorfendaverðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Brooklyn.

A DIFFERENT TOMORROW:

Drone

Tonje Hessen Schei

NOR/PAK/USA

2014

78 mins

 

CIA notar flygildi, eða dróna, sem vopn í leynilegu stríði. Við fylgjumst bæði með íbúum Pakistan sem búa við stöðuga ógn flygildanna og innri baráttu þeirra sem fljúga þessum drápstólum. Á meðan tæknin þróast á ógnarhraða dregst alþjóðlegt lagaumhverfi aftur úr meðan flygildin breyta stríðsrekstri til frambúðar. Handhafi fjölda friðar- og mannréttindaverðlauna á kvikmyndahátíðum liðins árs.

Haida Gwaii: On the Edge of the World

Charles Wilkinson

CAN

2015

74 min.

Á eyjunni Haida Gwaii undan vesturströnd Kanada hefur Haida þjóðflokkurinn lifað í þúsundir ára. Eftir að sjúkdómar vestrænna landnema útrýmdu þjóðinni nánast á 19. öld, hefur hún þurft að berjast óslitið gegn ofurliði erlendra yfirráða til að fá að nýta eigin auðlindir á sjálfbæran máta. Sú barátta virðist nú loks farin að bera árangur.

 

How to Change the World

Jerry Rothwell

CAN/GBR

2015

110 min.

 

Árið 1971 hélt fámennur vinahópur frá Vancouver í för til að mótmæla tilraunum Nixons með kjarnorkuvopn í Alaska. Aðgerðin varð svo kveikjan að stofnun Grænfriðunga, þeirrar byltingarkenndu náttúruverndarhreyfingar. Hér er sagt frá sigrum þeirra en líka ósættinu sem varð meðal félagsmanna þegar á leið. Myndin hlaut verðlaun fyrir klippingu á Sundance.

Last of the Elephant Men

Arnaud Bouquet, Daniel Ferguson

FRA/CAN/CAM

2015

90 min.

 

Í samfélagi Bunong þjóðflokksins í Austur-Kambódíu gegna fílar mikilvægu hlutverki, ekki aðeins vegna þess að þeir eru mikilvæg burðardýr heldur líka af trúarlegum ástæðum. En nú á dögum er vegið að velferð manna og fíla, bæði með eyðingu skóganna sem hýsa villta fílana áður en þeir eru tamdir og með reglugerðum sem banna tamningu fleiri fíla.

The Messenger

Su Rynard

CAN

2015

84 min.

 

Hvernig væri heimur án fuglasöngs? Fyrir leikstjórann Su Rynard er þetta ekki aðeins fræðileg spurning því víða um heim eru söngfuglategundir að hverfa af himninum. Hér fáum við að skyggnast inn í heim fuglanna frá þeirra eigin sjónarhóli og kynnumst fólkinu sem vonast til að hindra útrýmingu þeirra.

 

The Shore Break

Ryley Grunenwald

RSA

2014

90 min.
Ástralskt stóriðjufyrirtæki hyggst verka títaníum meðfram suður-afrísku strandlengjunni en skiptar skoðanir eru um þessi áform meðal íbúanna. „Framfarasinninn“ Madiba er sannfærður um að iðnaðurinn muni efla efnahaginn á svæðinu meðan frænka hans Nohnle leiðir hóp hinna sem óttast áhrifin á umhverfi og menningu svæðisins.

OPEN SEAS:

Chasuke’s Journey

Hiroyuki Tanaka

JAP / FRA

2014

106 mins

 

Ástarfantasía sem flakkar milli himins og jarðar. Chasuke hellir upp á te á himnum en er hrifinn af mennskri konu sem heitir Yuri. Hann þekkir til hennar gegnum höfundinn sem skrifar handrit lífs hennar á himnum. Af sömu ástæðu veit hann að hún er dæmd til að deyja í bílslysi. Til að bjarga lífi hennar hættir Chasuke sér til Jarðar. Tilnefnd til gullbjörnsins í Berlín.

Chevalier

Athina Rachel Tsangari

GRC

2015

99 min

 

Ástralskt stóriðjufyrirtæki hyggst verka títaníum meðfram suður-afrísku strandlengjunni en skiptar skoðanir eru um þessi áform meðal íbúanna. „Framfarasinninn“ Madiba er sannfærður um að iðnaðurinn muni efla efnahaginn á svæðinu meðan frænka hans Nohnle leiðir hóp hinna sem óttast áhrifin á umhverfi og menningu svæðisins.

 

Eisenstein in Guanajato

Peter Greenaway

NED/BEL/FIN/MEX/FRA

2015

105 mins

 

 

Eftir frumsýningu meistaraverksins Beitiskipið Pótemkín var Eisenstein dáður um heim allan. Bandaríkjamenn tóku honum þó dauflega og árið 1931 ferðaðist hann til Mexíkó til að undirbúa næstu kvikmynd sína. Munúðarfull reynsla hans þar virðist hafa haft mikil áhrif á líf hans og feril. Tilnefnd til gullbjörnsins á kvikmyndahátíðinni í Berlín.

Embrace of the Serpent

Ciro Guerra

COL/VEN/ARG

2015

125 mins
Á 40 ára tímabili hafa tveir vísindamenn heimsótt töfralækninn Karamakate í Amazon þar sem hann er síðastur eftirlifenda af sínum ættbálki. Þeir eru í leit að heilagri plöntu sem hefur mikinn lækningamátt. Í þessari mögnuðu svart/hvítu mynd fylgjum við þeim í forskilvitlega för inn í frumskóginn. Myndin vann til verðlauna í Director’s Fortnight flokknum á Cannes.

Journey to the Shore

Kiyoshi Kurosawa

JAP

2015

127 min.

 

Þremur árum eftir að Yusuke drukknaði undan norðuströnd Japans, snýr hann aftur heim til ekkju sinnar Mizuki og býður henni í ferðalag að ströndinni þar sem hann kvaddi heiminn. Ljúfsár drauga-ástarsaga sem sýnir að náin tengsl geta náð út fyrir dauðann. Myndin hlaut leikstjórnarverðlaun í Un Certain Regard flokknum á Cannes.

Last Days in the Desert

Rodrigo García

USA

2015

98 mins
Ewan McGregor leikur Jesús Krist – og djöfulinn sjálfan – í ímyndaðri viðbót við fjörutíu daga og fjörutíu nátta föstu Krists í eyðimörkinni þar sem Satan freistaði hans. Á heimleið úr útlegðinni glímir Jesús aftur við djöfulinn um örlög fjölskyldu á vonarvöl og býr sig undir mikla þrekraun. Gríðarlegt sjónarspil sem situr í manni.

Mountains May Depart

Zhangke Jia

CHI

2015

131 min.

 

Zhao Tao verður að gera upp á milli tveggja vonbiðla, fátæka námuverkamannsins Liangzi og auðjöfursins Zhang. Við kynnumst ástum og örlögum þremenninganna yfir þrjú tímabil, á árunum 1999, 2014 og 2025. Um leið fáum við einstaka sýn á gjána milli nýríkra fjármagnseigenda og vinnandi fólks í Kína. Tilnefnd til Gullpálmans í Cannes.

Tangerine

Sean Baker

USA

2015

88 min.

 

Eftir mánaðarlanga fangelsisdvöl ætlar trans-vændiskonan Sin-Dee Rella að setja Los Angeles á annan endann í leit sinni að dólgnum Chester sem hélt fram hjá henni meðan hún var bak við lás og slá. Þessi fjöruga og frumlega mynd var öll tekin upp með þremur iPhone 5 snjallsímum og vann til verðlauna á Karlovy Vary hátíðinni.

The Measure of a Man

Stéphane Brizé

FRA

2015

93 min.
Thierry hefur leitað að starfi í rúmt ár en virðist hvergi passa inn á atvinnumarkaðinn. Starfsráðgjafar og atvinnurekendur mæla hann í sífellu út og þegar hann finnur loks starf þá víkja gömul vandamál aðeins fyrir nýjum. Aðalleikarinn Vincent Lindon hlaut verðlaun fyrir besta leik í Cannes.

Those Who Fall Have Wings

Peter Brunner

AUS

2015

93 min.

 

Kati dvelur hjá hjartveikri ömmu sinni sem reynir að hjálpa barnabarninu að rífa sig úr andlegri lægð með því að miðla eigin reynslu af slíkri þjáningu. Náið innlit í hugarheim þunglyndrar stelpu þar sem veruleiki og draumkenndar sýnir blandast og skapa margslungna mynd af meininu. Vann til dómnefndarverðlauna á Karlovy Vary hátíðinni.

 

ALLAR MYNDIR Í STAFRÓFSRÖÐ:

1989

A Flickering Truth

Around the World in 50 Concerts

Cartel Land

Chasukes Journey

Chevalier

Democrats

Drones

Eisenstein in Guajanato

Embrace of the Serpent

Foodies

Haida Gwaii: On the Edge of the World

How to Change the World

Jäg är Ingrid

Jia Zhang-ke: A Guy from Fenyang

Journey to the Shore

Last Days in the Desert

Last of the Elephant Man

Leaving Africa

Listen to Me Marlon

Mountains May Depart

Pervert Park

Rolling Papers

Sweet Mickey

Tangerine

The Amina Profile

The Arms Drop

The Circus Dynasty.

The Closer We Get.

The Living Fire.

The Measures of a Man

The Messenger

The Other Side

The Queen of Silence

The Shore Break

The Wanted 18

Those Who Fall have Wings

War of Lies

Warriors from the North

Who Took Johnny

 

 

Comments are closed.