Reyna nýja hluti og kljást við óhefðbundin rými

0

Skipuleggjendur hátíðarinnar: Logi Bjarnason, Sigursteinn Sigurðsson, Bára Dís Guðjónsdóttir og Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir

Samtímalistahátíðin Plan-B Art Festival fer fram í Borgarnesi dagana 9. – 12. ágúst í þriðja sinn. Hátíðin hefur hýst á fjórða tug listamanna frá upphafi, bæði íslenska og erlenda og hafa viðburðir hennar verið í óhefðbundnum rýmum bæði í Borgarnesi og nágrenni bæjarins. Stofnendur hátíðarinnar koma öll af svæðinu. Hópurinn segist hafa viljað skapa líflega og frjóa hátíð, vettvang fyrir nýja og reyndari listamenn til þess að þrýsta á þolmörk sköpunar sinnar. Reyna nýja hluti og kljást við óhefðbundin rými á borð við gamalt fjós, loft í pakkhúsi, gamalt sláturhús og svo mætti áfram telja.

„Við vildum koma aftur í Borgarnes með þá kunnáttu og þann sköpunarkraft sem myndlistin hefur fært okkur og glæða Borgarnes af lifandi og frjórri menningu. Þá varð til Plan-B Art Festival. Nafnið er tilkomið vegna sögu Borgarness sem iðnaðarbæjar. Um tíma var blómlegur landbúnaður og iðnaður í bænum en tímarnir breyttust og tími er kominn á Plan-B, það er listir og menningu.“

Aðstandendur hátíðarinnar eru þau Logi Bjarnason myndlistarmaður, Sigursteinn Sigurðsson arkitekt, Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, MA nemi í listfræði og sýningarstjóri og Bára Dís Guðjónsdóttir, verkefnastýra.

Gestir á hátíðinni í fyrra

Hópurinn hefur farið af stað með Karolina fund söfnun og er meðal annars hægt að kaupa miða á tilraunakvikmynd Jóhanns Jóhannssonar tónskálds, sem lést fyrr á árinu.

„Það er okkur sannur heiður að fá að sýna tilraunkvikmynd Jóhanns, End of Summer, sem fjallar um ferðalag Jóhanns um Suðurskautið. Áhorfendur fá að fylgjast með hæglátri náttúrunni sem er auðguð með stórfenglegri tónlist Jóhanns. Við hlökkum mjög til að sýna myndina“

Hópurinn segir hátíðina fara stækkandi með ári hverju en enn erfitt sé að fjármagna menningarstarf á landsbyggðinni.

„Fólk lítur ennþá dálítið á myndlist sem áhugamál en við höfum frá fyrsta degi haft það sem prinsipp að borga listamönnum fyrir þátttöku á hátíðinni. Þó það þýði að við séum í sjálfboðaliðastarfi og höfum borgað með hátíðinni, okkur finnst mikilvægt að borga myndlistarmönnum laun.“

Karolina fund söfnun er liður í því að hægt sé að halda hátíðina og vildu þau því leita til velunnara myndlistar. Upplýsingar um söfnunina má nálgast hér.

Skrifaðu ummæli