REYKJAVÍKURDÆTUR BLÁSA TIL HELJARINNAR TÓNLEIKAVEISLU Á GAUKNUM ANNAÐ KVÖLD / KATRÍN HELGA KOM Í SPJALL

0

dætur 3

Reykjavíkurdætur hafa verið mjög áberandi frá fyrsta degi enda ekki annað hægt þegar hópur af stelpum koma saman og rappa, segja sínar skoðanir og hafa boðskap. Rvk-Dætur slógu heldur betur í gegn á síðustu Iceland Airwaves hátíðinni en sveitin hefur fengið fjölmörg tilboð erlendis frá.

dætur 4

Það verður heljarinnar veisla á Gauknum annað kvöld en þar ætla Rvk-Dætur að trilla líðinn en allir slagararnir verða teknir í bland við nýtt efni og óhætt er að segja að eftirvæntingin er mikil.

Dæturnar eru fantagóðar og virkilega skemmtilegar á sviði og ætti því enginn að láta þessa snilld framhjá sér fara!

Hægt er að kaupa miða við hurð á 2.000 kr og á Tix.is á litlar 1.700 kr.

Albumm náði tali af Katrínu Helgu úr Reykjavíkurdætrum og svaraði hún nokkrum spurningum –

dætur

Þið ætlið að trilla lýðinn á Gauknum annað kvöld hvernig legst það í ykkur og takið þið mikið af nýju efni?

Það leggst fáránlega vel í okkur. Ég prófaði um daginn að vera í áhorfendaskaranum á tónleikum hjá RVK-dætrum og get staðfest að ég hef aldrei fundið fyrir annari eins orku frá sviðinu. Það verður frumflutningur á ógeðslega nettu nýju lagi með McBlævi og Bleach Pistol og ýmislegt fleira sem ég er sjálf mjög spennt að heyra, í bland við gamla slagara að sjálfsögðu.

Þið hafið fengið frábæra dóma fyrir tónleika ykkar. Hvað er það sem gerir gott gigg og hvað er eftirminnilegasta giggið ykkar?

Gott gigg veltur mest á orkunni sem við gefum frá okkur annars vegar og á orkunni sem við fáum frá áhorfendum hins vegar. Það er tildæmis mikill munur á að spila fyrir ólögráða ofurölva unglinga á djamminu og félag eldriborgara í þriðjudagskaffi. Bæði sjarmerandi á sinn hátt. Það eru svo mörg eftirminnileg gigg að ég get ómögulega valið eitt sem stendur uppúr. Reyndar man maður alltaf best eftir giggunum sem fara úrskeiðis. Til dæmis í síðustu viku þegar við spiluðum í MS virtist allt fara úrskeiðis sem gat farið úrskeiðis. Þegar við komum niðureftir var ekki til snúra í hljóðkerfið og við áttum að stíga á svið eftir tvær mínútur. Ég hringdi í stelpurnar sem voru á leiðinni til að athuga hvort þær væru með snúru og þá kemur í ljós að þær höfðu misskilið og héldu að þær væru að fara að performera í MK. Á meðan var fullur íþróttasalur af fólki að bíða eftir okkur. Eftir spennuþrungna bið stigum við hálflaskaðar á svið, allar hálflasnar og ein fótlama með hækju. Þegar fyrsta lagið fer í gang kemur í ljós að annar míkrafónninn er bilaður og það heyrist varla í hinum. Á endanum þurftum við að hafa undirspilið svo lágt stillt að það var eins og við værum að reyna að passa okkur að vekja engann, auk þess sem það var áskorun að ná að skipta á milli okkar aðeins einum mæk. Sem betur fer voru MS-ingar frábærir áhorfendur og giggið var á endanum bara mjög skemmtilegt.

Þið hafið fengið helling af tilboðum að spila erlendis er það eitthvað á dagskrá hjá ykkur?

Heldur betur! Við munum spila á nokkrum tónleikum í London í mars, Kanada í maí og svo á nokkrum festivölum í evrópu í sumar, en ég má víst ekki tilkynna strax hvaða hátíðir það verða. Eitt er hinsvegar víst; Það verður gaman!

Hvað er framundan hjá Reykjavíkurdætrum?

Auk þess að skipuleggja þessar tónleikaferðir erlendis erum við að taka upp plötu um þessar mundir. Tónleikarnir á föstudaginn eru liður í að fjármagna þessa plötu. Svo er að koma út nýtt lag og myndband á næstunni, sem verður mergjað! Þó ég segi sjálf frá. Ef fólk hefur ekki fengið nóg af okkur eftir Gaukinn á föstudaginn, getur það líka komið og séð okkur hita upp fyrir Angel Haze á Sónar!

Comments are closed.