Reptilicus og Stereo Hypnosis sameina krafta sína á fágætum raftónleikum í Mengi

0

Íslensku hljómsveitirnar Reptilicus og Stereo Hypnosis sameina krafta sína á fágætum raftónleikum í Mengi í kvöld. Waveshaper Television (frá framleiðendum hinnar vinsælu heimildarmyndar I Dream of Wires) kvikmynda tónleikana fyrir umfjöllun sína um Reptilicus og Stereo Hypnosis.

Hljómsveitin Reptilicus er samstarfsverkefni Jóhanns Eiríkssonar og Guðmundar I. Markússonar en sveitin hefur verið starfandi síðan árið 1988 og telst til brautryðjenda tilraunakenndrar raftónlistar á Íslandi. Meðal áhrifavalda sveitarinnar má nefna bresku iðnaðarraftónlistina, þýska krautrokkið og dadahreyfinguna. Reptilicus hefur staðið að margvíslegum útgáfum hérlendis og erlendis þar sem ólík stílbrigði mætast í deiglu raftónlistar. Um þessar mundir vinnur sveitin að heildarendurútgáfu verka sinna ásamt nýju efni í samstarfi við kanadíska fyrirtækið Artoffact Records.

Stereo Hypnosis varð til í Flatey árið 2006 og er stofnuð af feðgunum Óskari og Pan Thorarensen. Tónskáldið Þorkell Atlason gekk til liðs við sveitina árið 2014 og hafa þeir síðan þá ferðast beggja vegna atlantsála og leikið á öllum helstu raftónlistarhátíðum heims. Stereo Hypnosis hefur gefið út sex plötur á sínum ferli og hefur tónlistinni verið lýst sem lífrænt kryddaðri og sveimkenndri raftónlist.

Waveshaper Television eða WS-TV, sem er hugarfóstur framleiðenda hinnar vinsælu heimildarmyndar I Dream of Wires (2014), er væntanleg áskriftarstöð á Netinu sem verður helguð sögu raftónlistar ásamt umfjöllun um raflistamenn og þróun hljóðgervlatækni.

Húsið opnar kl. 20:30 og er miðaverð 2.000 krónur.

Reptilicus.org

Stereohypnosis.com

Skrifaðu ummæli