REBEKKA SIF SENDIR FRÁ SÉR MYNDBAND VIÐ LAGIÐ „WONDERING”

0

Tónlistarkonan Rebekka Sif gaf nýverið út myndband við lagið „Wondering“ sem er titillag fyrstu plötunnar hennar sem kemur út 17. ágúst. „Wondering“ er hress sumarsmellur sem fjallar um skondin samskipti milli pars. Á plötunni eru ellefu fjölbreytt frumsamin lög sem spanna allt frá indie poppi til rokktónlistar.

Rebekka Sif er efnileg söngkona og lagahöfundur úr Garðabænum. Hún byrjaði að semja tónlist snemma á unglingsárunum en fór ekki að koma fram með sitt eigið efni fyrr en 2014. Síðan þá hefur hún spilað vítt og breytt með hljómsveit sinni, skipaða frábærum hljóðfæraleikurum. Lagið hennar „Dusty Wind“ fékk góða spilun á Rás 2 seint árið 2014 og komst meðal annars inná Vinsældarlistann. Sumarið 2015 var mjög farsælt og var lagið hennar „I Told You“ fimm vikur á vinsældarlista Rásar 2. Það sama haust tók hún þátt í The Voice Ísland þar sem hún var valin í lið Unnsteins Manuel, söngvara Retro Stefson. Síðan þá hefur hún útskrifast úr Tónlistarskóla FÍH í jazz- og rokksöng, en áður hafði hún útskrifast með burtfarapróf í klassískum söng frá Tónlistarskólanum í Garðabæ sem hún lauk aðeins 19 ára gömul. Í haust heldur hún svo út fyrir landsteinana og mun hefja söngkennaranám í Complete Vocal Institute í Kaupmannahöfn Tónlist Rebekku má lýsa sem indie poppi með folk, blús og rokk áhrifum.

Síðustu ár hefur Rebekka unnið alfarið sem tónlistarkona og söngkennari. Hún hefur kennt hjá Sönglist í Borgarleikhúsinu frá árinu 2013 og verið söngstjóri í þremur jólasýningum Borgarbarna. Árið 2014 bjó hún til skapandi söngnámskeið fyrir börn ásamt Klifinu í Garðabæ þar sem börn fá að spreyta sig á að semja lag ásamt því að læra söngtækni, framkomu og jafnvel örlítið í hljóðfæranotkun. Rebekka hefur raddþjálfað fyrir Skoppu og Skrítlu, verið söngstjóri í uppsetningu Garðarskóla á söngleiknum Cry Baby, ásamt fleiri mismunandi verkefnum.

Rebekka Sif mun halda veglega útgáfutónleika á Rosenberg kl. 21:30 þann 17. ágúst í tilefni útgáfunnar. Þar mun hún koma fram með fullu bandi, Aron Andri Magnússon verður á gítar, Sindri Snær Thorlacius á bassa, Daniel Alexander Cathcart-Jones á hljómborð og Kristófer Nökkvi Sigurðsson verður svo á trommum. Söngkonurnar Silja Rós Ragnarsdóttir og Ingibjörg Erla Þórhallsdóttir verða bakraddir. 

Rebekkasif.com

Skrifaðu ummæli