RAUÐUR SPRETTUR FRAM Á SJÓNARSVIÐIÐ

0

Rauður er listamannsnafn tónlistarkonunnar Auðar Viðarsdóttur. Auður söng og lék á hljómborð með hljómsveitinni Nóru sem gaf út tvær plötur við góðan orðstír á árunum 2010 og 2012. Nú sprettur rauður fram á sjónarsviðið sem sólóverkefni, þar sem lagasmíðar hennar og hljóðheimur fá að njóta sín til fulls. Sá heimur hefur verið í mótun allt frá því að hún stakk sínum fyrsta hljóðgervli í samband 17 ára í gömlum bílskúr í vesturbæ Reykjavíkur. Síðan þá hefur Auður fengist við ýmislegt, þar á meðal stofnun tónlistar – og jafnréttissamtakanna Stelpur rokka! sem miða að því að efla stelpur og konur í gegnum tónlistarsköpun. Hún er líka þjóðfræðingur og hefur rannsakað upplifun tónlistarkvenna af tækninotkun.

Síðustu mánuði hefur Auður hins vegar safnað allri sinni skapandi orku saman í litla heimastúdíóið sitt í smábænum Hjärup í Svíþjóð og nú hefur fyrsti singúllinn litið dagsins ljós, lagið „Dönsum.” Lagið er það fyrsta af röð laga sem gefin verða út í aðdraganda plötu sem kemur út síðar á árinu.

Tónlist rauðar fléttar hennar eigin marglaga röddum við einfaldar en áhrifaríkar lagasmíðar og þéttan undirtón ýmissa rafhljóðfæra. Textarnir fjalla yfirleitt um einhverskonar heimsendi – þó ekki alltaf í bókstaflegum né neikvæðum skilningi.

Laginu „Dönsum” fylgir tónlistarmyndband, unnið af tónlistarkonunni sjálfri, þar sem hún varpar fram sjónrænu túlkun sinni á laginu.

Raudurraudur.com

Instagram

Skrifaðu ummæli