RAGGI Í BOTNLEÐJU

0

DSC3669-1-1024x683

Albumm hitti hinn eina sanna Ragnar Steinson bassaleikara hljómsveitarinnar Botnleðju, sem er ein af vinsælustu hljómsveitum Íslands fyrr og síðar. Hann sagði okkur frá ferlinum, hvað er framundan og allt þar á milli.


Hvenær byrjaðir þú að hafa áhuga á tónlist, og hefur rokkið alltaf verið þitt aðal í tónlistinni?

Frekar snemma, foreldrar mínir hlustuðu nær eingöngu á Jazz, þannig að ég ólst upp við Miles Davis, Chet Baker, Duke Ellington og fleiri snillinga, ég tel mig hafa verið mjög heppinn að hafa kynnst því. Árið 1987 kom út Appetite for Destruction með Guns N Roses, en þá breyttist allt, við urðum algjörir villingar og lifðum fyrir rokkið. Síðan kom Nirvana, sem kom okkur á sporið og út frá því fórum við að spila. Rokkið var okkar aðal, við vorum mjög leitandi og grófum upp bæði ný og gömul bönd sem voru að gera góða hluti.

Þú spilar á bassa í Botnleðju er bassi fyrsta hljóðfærið sem þú lærðir á?

Nei, píanó er fyrsta hljóðfærið, við fórum í bílskúrinn hjá Halla, Heiðar átti gítar og Halli átti trommusett ég man ekki hver átti hljómborðið, við fórum stundum í frímínútum að leika okkur en svo fljótlega fór ég og keypti mér Bassa, það vantaði bassaleikara, þá var ég kannski 16 eða 17 ára þá fór líka allt að gerast eyddum öllum frítímum okkar í að æfa og semja.

Eru þið Strákarnir í Botnleðju búnir að þekkjast lengi?

Ég er búinn að þekkja Halla síðan við vorum sex ára gamlir. Ég kynnist svo Heiðari á unglingsárunum, þetta voru galdrar við áttum að hittast og búa til tónlist. Síðan þá höfum við verið góðir vinir og verðum alltaf.

Raggi, Heiðar og Halli

Raggi, Heiðar og Halli

Var mikil gróska í tónlist í Hafnarfirðinum?

Það hefur alltaf verið mikil gróska í músík í Hafnarfirði. Hafnfirðingar hafa alltaf staðið við bakið á sínum og það hefur skilað sér. Það voru forréttindi að fá að alast þar upp með öllum þessum vitleysingum.

Þið tókuð svo þátt í Músíktilraunum, voru þið búnir að koma víða við áður en þið komuð sáuð og sigruðu?

Við fórum snemma að spila með hinum og þessum og stofnuðum nokkur bönd undir mismunandi nöfnum. Ég held að okkar fyrstu gigg hafi verið í Flensborg en þar vorum við í menntaskóla, þá hétum við Dive. 1994 skráðum við okkur í músíktilraunir sem Botnleðja, og þar byrjaði það.

Það má segja að þið hafið orðið þjóðþekktir á einni nóttu.

Við vorum bara með þessa músík á réttum stað á réttum tíma. Það var ekkert í gangi líkt því sem við vorum að gera. Svo varð einhver vakning á sama tíma og það fóru að spretta upp fullt af góðum böndum og allir bara ógeðslega graðir í að spila og tónleikar út um allt. Ég var einmitt að hlusta á upptöku með Stjörnukisa um daginn, þeir voru helvíti góðir, Það er komin tími að heiðra minningu hanns Úlla. Svo var það Hljómalind, eða Kiddi Kanína, hann fór að flytja inn plötur sem aðrar plötubúðir voru ekki að sinna og hreinlega mataði okkur af góðri tónlist. Svo flutti hann böndin inn, þannig að það fór af stað einhver jaðarsena, sem var nauðsynleg. Hann ætti svo skilið heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna eða fálka orðuna fyrir framlag sitt til tónlistar á Íslandi. Svo einnig með komu útvarpstöðvarinnar x-ið varð algjör drifkraftur fyrir rokk á Íslandi og eiga þeir miklar þakkir skilið. Þetta var rosa skemmtilegur tími, alveg magnaður. Í kringum 1997 vorum við alltaf spilandi, ef við vorum ekki að spila þá vorum við að æfa, maður hélt bara að þetta yrði að eilífu amen og hvað það er ótrúlega fyndið að hlusta á gamlar upptökur og heyra hvernig maður talaði … það var bara þá.

_DSC3654

Þú ert búin að plokka bassann í mörg ár, hvernig bassa áttu?

Hef átt nokkra um ævina en Music Man (Sting Ray) er mitt hljóðfæri. Ég lét laga hann um daginn og komst þá að því að hann er framleiddur sama ár og ég er fæddur og meira að segja á afmælisdegi mínum, þannig að við erum bræðu, mjög merkilegt (hlátur).

_DSC3570-2

En var þetta ekki mikið ævintýri?

Þetta var frábær tími. Eitthvað sem mig hefði aldrei grunað. Fá að spila út um allt með litlum og stórum böndum. Fullt af sögum og ævintýrum sem eru best geymdar hjá okkur 🙂

Þið fóruð svo að túra um heiminn, hvernig var það?

Við vorum mjög duglegir að spila og vorum að spila alveg tvisvar í viku, við fengum svo góða hjálp frá Kristinn Gunnari (KGB) og Andra Frey, ómetanlegt innpútt frá þessum meisturum, við vorum voða vel æfðir og tilbúnir í að fara út. Við tókum eftir því að sum bönd sem við vorum að hlusta á og fengum tækifæri á að spila með voru ekki eins góðir live og við, það var okkar forskot. Þótt að sum lögin okkar voru ekki það sterk, það skipti ekki máli, við vissum hvað við vorum að gera. Við vorum að spila í gamla tunglinu og Damon Albarn sá okkur spila og hafði fljótlega samband við okkur og bauð okkur á túr með Blur um England. Við vorum einmitt miklir Blur aðdáendur, þannig að þetta var það besta sem gat komið fyrir okkur. Þetta var alveg mögnuð ferð, nýr kafli hjá okkur. Eftir þann túr gerðist allt mjög hratt. Við komumst í kynni við gott fólk sem vissi hvað það var að gera og við tókum allan pakkann. Við túruðum Evrópu, Norðurlöndin og Bandaríkin. Fórum í stúdíó í Los Angeles og Englandi og spiluðum á öllum búllum sem við gátum. Við gerðum samning við Trust Me Records og tókum festivölin. Annars er þessi tími hjá mér hulin móðu og ég man ekki eftir þessu öllu, Skál!

Þið unnuð til margrar verðlauna og gáfuð út, hvað fimm plötur?

Við gáfum út sex stórar plötur. Fyrstu plötuna tókum við upp á tuttugu og fimm tímum en hún er tekin öll upp live. Hún líður svolítið fyrir „soundið“ en mér þykir mjög vænt um hana, væri til í að endurhljóðblanda hana og gefa hana út á vínyl. Svo á næstu plötu gáfum við okkur nægan tíma í þetta eða kannski um þrjár vikur. Ég á erfitt með að gera upp á milli þeirra, þær hafa allar sinn stíl, eftir því hvað við vorum að hlusta á og reyna að ná fram. Við fengum svo einhver verðlaun fyrir allt þetta sem er frábært, alltaf gott að fá viðurkenningu fyrir það sem maður gerir.

Stóð aldrei til að þú færir í pollapönk?

Nei, þetta var þeirra verkefni. Ég spilaði reyndar allann bassann inn á fyrstu plötuna sem var mjög gaman. En að hafa Adda og Guðna, tvo snillinga í bandinu það getur bara komið gott út úr því.

Hvernig var svo að spila aftur saman sem Botnleðja árið 2012?

Það var alveg frábært! Tókum tvenna tónleika á gamla Gauknum, staður sem við þekktum mjög vel. Þar tókum við tveggja klukkutíma sett, fullt af lögum. Spiluðum síðan á Eistnaflugi sem var mjög eftirminnilegt og síðan á þjóðhátíð, fengum loksins borgað fyrir að spila og allir glaðir. Það var mjög gaman að koma að lögum sem maður hefur ekki spilað lengi, maður fær svona aðra sín á þau.

_DSC3618

Stóð aldrei til að halda áfram og gera plötu?

Það er ekkert útilokað með það. Við erum ekki starfandi sem stendur en höfum aldrei hætt, við þurfum þess ekki. Það hefur oft verið rætt, við eigum alltaf eitthvað inni. Við erum orðnir kallar sem kallar á eitthvað meira.

Hvað ertu að bralla núna og ertu með einhverja aðstöðu til að semja tónlist?

Ég er svo heppinn að ég er með æfingarhúsnæði heima þetta er algjört birgi, bara lúga í gólfinu og þar niðri er aðstaðan. Það heyrist ekkert út ekki einu sinni frá trommusettinu, það er ógeðslega gaman að tromma en maður er stundum að leika sér að taka upp trommutakta og spila ofan á þá, en maður er ekkert að fara að bóka sig á gigg með þetta. Ég er bassaleikari og smiður sem er bæði mjög skapandi, ég þrífst á þessum sköpunarkrafti. Ég hef verið svo heppinn með verkefni bæði í músík og í smíðamennskunni. Ég hef verið í smíðavinnu sem er mjög óhefðbundin, ég hef verið að smíða úr öllum fjandanum t.d. frauði og búa til geimskip og skúlptúra. Maður er enn að hlusta á músík og þegar maður heyrir gott stuff þá vill maður heyra meira af því en ég leita samt mjög mikið í gamalt og gott stuff ég er algjör alæta á tónlist hvort sem það er rokk, hip hop, techno, house eða annað,  það skiptir ekki máli svo lengi sem það er gott. Það var tímabil þar sem maður var bara að hlusta á rokk og ról en hugurinn er búinn að opnast eitthvað, en ef ég mundi vilja stofna band í dag og spila þá væri það eitthvað svona shellac dót, eitthvað hart og helst drulla yfir eitthvað og skamma fólk, þetta er búið að blunda í mér lengi sko. Ég og Heiðar höfum stundum verið að leika okkur og þá er öll flóran tekin það kemur bara það sem kemur hvort það sé hart eða ekki, getur alveg verið eitthvað sætt en samt alltaf töff. Mig langar að vera uppá sviði með bandi sem kann allt uppá tíu!

 

Comments are closed.