RAFTÓNLIST LITUÐ AF TILFINNINGARÍKRI TAKTSMÍÐI OG SÍBREYTILEGUM BASSA-PÆLINGUM

0

Eðvarð verður með dj-sett á Prikinu í byrjun maí.

Tónlistarmaðurinn Kíruma eða Eðvarð Egilsson eins og hann heitir réttu nafni var að senda frá sér plötuna „Kíruma EP.“ Eðvarð er búsettur í borg englanna en hann var áður meðlimur í hljómsveitinni Steed Lord!

Kappinn er afar lunkinn við að skapa flottann og áhrifaríkann hljóðheim en áhrifin fær hann frá kvikmyndum, sögum og Michael Jackson svo fátt sé nefnt!

Albumm.is náði tali af kappanum og svaraði hann nokkrum spurningum um plötuna!


Er platan búin að vera lengi í vinnslu og hvernig mundir þú lýsa tónlistinni þinni?

Platan hefur verið í vinnslu í um það bil ár og ég myndi skilgreina tónlistina sem raftónlist lituð af tilfinningaríkri taktsmíði og síbreytilegum bassa-pælingum.

Ég hlusta mikið á allskyns tónlist og finnst áhugavert að finna út hvernig lög eru uppbyggð og leynist bak við þau.

Hvaðan færðu innblástur fyrir þína tónlistarsköpun og hverjir eru þínir helstu áhrifavaldar?

Ég sem allskonar tónlist og innblásturinn kemur víða að. Mjög gjarnan er þetta hljóðheimur sem ég uppgötva allt í kring um mig og hefur einhver áhrif á mig. Ég hef mikinn áhuga á frásögnum, sögum og kvikmyndum og finnst rosalega spennandi að ímynda mér mismunandi hljóð eða melódíur sem karaktera og spinna síðan saman í einhverskonar „samtal.” Ég hlusta líka mikið á alls kyns tónlist og finnst áhugavert að finna út hvernig lög eru uppbyggð og hvað leynist bak við þau. Daft Punk, John Williams, Pink Floyd, Michael Jackson og Soulwax eru nokkrir af uppáhalds tónlistarmönnum mínum.

Hvernig græjur notar þú á plötunni og hver er draumagræjan?

Þetta verkefni byrjaði eiginlega stuttu eftir að ég keypti mér Roland System-1 hljóðgervilinn og byrjaði að fikta í honum. En á plötunni vinn ég mest megnis með analog syntha eins og Prophet-5, Moog Mini og Modular, Jupiter-8 til að nefna nokkra og svo Ableton Live. Ætli draumagræjan sé ekki Minimoog Voyager, OP-1 eða Collidoscope. Erfitt að velja á milli.

Á að fylgja plötunni eftir með tónleikahaldi og á að spila eitthvað á Íslandi á næstunni?

Já, það er aldrei að vita! Ég hef verið að vinna með flottum grafíklistamanni frá Kaliforníu með live-visuala og er í þeim pælingum einmitt núna. Ég verð með dj-sett á Prikinu í byrjun maí. Hvet fólk eindregið til að mæta!

Eitthvað að lokum?

Nú eftir að hafa gefið út þessa smáskífu er ég spenntur að semja meira og gefa meira út svo að hægt er að fylgjast með mér á facebook og soundcloud. Margt spennandi framundan!

Skrifaðu ummæli