QUEENS OF THE STONE AGE HEIÐRUÐ OG ÞAÐ Í ANNAÐ SINN

0

Laugardagskvöldið 20.janúar verður bandaríska eyðimerkurrokksveitin, Queens of The Stone Age, heiðruð og það í annað sinn. Queens of The Stone Age fagnar þessa dagana 20 árum í tónlist og sendi frá sér sína sjöundu hljóðversskífu, Villains, í ágúst 2017.

Af því tilefni hópuðu sig saman nokkrir vinir úr íslensku tónlistarsenunni og vottuðu Queens of The Stone Age virðingu sína á Gauknum þann 21.október sl. Gengu tónleikarnir framar björtustu vonum og var stemmingin vægast sagt sturluð. Voru meðlimir heiðurssveitarinnar vart komnir niður af sviðinu þegar hugað var að því að endurtaka leikinn. Enda stemmingin innan hópsins gulls ígildi og spilagleðin í algleymingi. Svo ekki sé minnst á stemminguna og almenna ánægju gesta Gauksins.

Queens of The Stone Age heiðurssveitina skipa þeir Birkir Rafn Gíslason á gítar, Daníel Hjálmtýsson, söngvari, Hálfdán Árnason bassaleikari, Helgi Rúnar Gunnarsson á gítar, Ragnar Ólafsson söngvari, hljómborðs – og gítarleikari og trommarinn Skúli Gíslason.

Miðasala er í fullum gangi á Tix.is og lofa drengirnir eftirminnilegum og löngum tónleikum en, líkt og áður, er gert ráð fyrir að flytja yfir annan tug laga frá öllum ferli Queens of The Stone Age og bæta í frá síðast.

Hægt er að nálgast miða á Tix.is

Facebook viðburðinn má sjá hér

Skrifaðu ummæli