QUARASHI

0

qrc 2

Hljómsveitin Quarashi er ein ástsælasta hljómsveit landsins og hefur hún verið það allt frá stofnun hennar árið 1996. Quarashi er að koma saman aftur og nú í fyrsta skiptið frá árinu 2002 þar sem allir upprunalegu meðlimir eru með. Nýtt lag og myndband kemur út á næstu dögum og kemur sveitin fram á Þjóðhátíð í eyjum í lok Júlí. Fjölmiðlamaðurinn landsþekkti Andri Freyr Viðarsson hitti þá Steinar Fjeldsted og Sölva Blöndal og tók hann þetta þrælskemmtilega viðtal fyrir Albumm.is. Andri náði ýmislegu upp úr strákunum en þeir tala um hvernig þetta allt saman byrjaði, hvernig það var að hanga með B Real úr Cypress Hill, um nýja lagið og um endurkomuna svo fátt sé nefnt.


Andri: Nú er hljómsveitin Quarashi tuttugu ára og hingað eruð þið komnir. Sölvi er í jakkafötum og þú steini ert nú nokkuð svipaður og þegar sveitin kom fyrst fram, en ýmislegt hefur nú breyst. Sölvi er t.d. hagfræðingur, hvernig tengist það tónlistinni?

Sölvi: Hún tengist tónlistinni ekki neitt! Ég hætti að hlusta á tónlist í fjögur ár, hlustaði ekki á eitt einasta lag!

Andri: Hvernig var það?

Sölvi: Það var sárt en nauðsynlegt. Svo árið 2009 fór ég að hlusta aftur.

Andri: Var einhver ástæða fyrir því að þú byrjaðir aftur að hlusta á tónlist?

Sölvi: Já það var nokkuð góð ástæða fyrir því. Ég var að klára mastersnám og það var að koma sumar og ég var bara ekki að gera neitt annað en að fara á ströndina í Stokkólmi og drekka bjór. Á þessum tímapunkti byrjaði ég að plötusnúðast á gömlum þýskum rokkbar og þá varð ég að hlusta á tónlist. (Hlátur).

Andri: En steini þú hefur samband við mig og biður mig um að taka viðtal fyrir Albumm.is við hljómsveitina Quarashi. Ég neita að gera það nema að þú værir með en þú varst nú hálftregur að koma í þetta viðtal. Ástæðan er sú að þú ásamt konunni þinni Sigrúnu átt og rekur Albumm.is. Þarna eruð þið að fjalla um það sem er þér afar kært, tónlist, menningu og jaðaríþróttir.

quarashi í brooklyn New York 2002

Quarashi í Brooklyn New York 2002

Steini: Já, þetta er eitthvað sem hefur fylgt mér ansi lengi. Margir héldu t.d. að hjólabretti væri bara bóla en hér er ég að verða fertugur og er enn að renna mér um götur borgarinnar. Ég hef aldrei hætt að hlusta á tónlist þó á einhverjum tímapunkti fékk ég leið á því að búa hana til. Albumm.is opnaði fyrir um einu og hálfi ári síðan og er búið að stækka ört síðan og er orðin okkar aðal vinna í dag sem var alltaf markmiðið. Það er heilmikið á döfinni hjá Albumm.is og spennandi tímar framundan.

Andri: En ef við byrjum á byrjuninni. Sölvi þú hefur alltaf verið alveg bilaður trommari og varst trommari í mörgum Indie böndum eins og t.d. 2001?

Sölvi: Ég hef verið stanslaust í hljómsveitum frá svona fimmtán ára aldri og hef verið í allskonar böndum. Allt frá svona Happy Mondays indie yfir í miklu þyngra rokk sem endaði svo í 2001. Allur minn vinahópur samanstóð af miklum indie boltum en hlutirnir voru farnir að breytast ansi mikið hjá mér. Ég var farinn að hlusta mikið á Elektróník og Hip Hop og var þess vegna mjög óvinsæll í partíum því ég var alltaf að setja Public Enemy eða LL Cool J á fóninn! (Hlátur).

Andri: Nú mætti segja að bæði Public Enemy og LL Cool J sé svolítið rokkað Hip Hop sem kannski Quarashi varð svo?

Sölvi: Jú, það mætti alveg segja það. Sko, það verður smá hljómsveitardrama í 2001 og sveitin hættir. Um þetta leiti dett ég inn í annan vinahóp sem eru Steini og vinir hanns og þarna fann ég eitthvað sem mig vantaði. Steini og strákarnir kynntu mér fyrir fullt af nýrri tónlist eins og t.d. A Tribe Called Quest, Pharcyde, Aphex Twin og allskonar danstónlist svo fátt sé nefnt. Þarna verður Quarashi svona „breed“ af þessu pönki sem ég kem með og það sem Steini og vinir hanns voru að hlusta á.

qrc 3

Ljósmynd: Svenni Speight

Steini: Þarna er ég og Sölvi bara að djamma og hlusta á tónlist, bjór og tónlist every night.

Sölvi: Já, það var mikið djammað!

Andri: En steini hvaðan kemur þú? Varst þú eitthvað í tónlist fyrir Quarashi?

Steini: Já, ég hef nú alltaf verið eitthvað viðloðinn tónlist. Ég stofna mína fyrstu hljómsveit um ellefu ára aldur og spila í kjölfarið á nokkrum tónleikum. Þrettán ára kaupi ég mér Amigu 500 tölvu og sampler og fer að gera danstónlist eða öllu heldur svona „old school hardcore.“ Ég og nokkrir vinir mínir stofnuðum hljómsveitina Plan B og vorum með eitt lag sem heitir „Startrip“ á danstónlistarplötunni Icerave. Þarna förum við að spila á einhverjum reifum en gerðum svo ekki mikið meira. Ég hef alltaf samið ljóð og texta og verið heillaður af laglínum og hljómum, en um svona sextán ára fer ég að taka upp rapp heima í stofu á Reynimel. Þarna rappaði maður allt í gegnum síma til að fá distortion effect og kasettutækinu var skellt fyrir framan til að taka þetta upp.

Andri: Svo eru fleiri í bandinu eins og t.d. Hössi, en hann kemur úr aðeins öðruvísi átt og var t.d. söngvari hljómsveitarinnar Wool. Þarna var hann í útvíðum gallabuxum með loðkraga og minnti mann óneitanlega heilmikið á Jim Morrison. Hvernig kom hann inn í Quarashi?

Steini: Sölvi var byrjaður að gera grunna og takta og ég var að gera rímur. Við ákváðum að fara út í skúr til Sölva og tékka á nokkrum lögum meðal annars á Switchstance. Sölvi segist þekkja gaur sem gæti passað inn í þessi lög þannig hann hóar í kauðann og the rest is history.

Sölvi: Raddirnar þeirra passa svo hrikalega vel saman, einhver harmónía á milli þeirra.

Andri: Á þessum tíma var ekkert svona í gangi. Það var þungarokk, nýbylgjurokk og sveitaballahljómsveitir, en svo komið þið og ég man að það var alveg geggjað! Að sjá ykkur á tónleikum var meira eins og að fara á rokktónleika heldur en á Hip Hop tónleika. Var þetta gert meðvitað?

Sölvi: Nei alls ekki sko. Þetta var bara eitthvað chemistry sem var í okkar hópi, það var rosa orka í okkur og í okkar tónlist. Allt frá fyrstu tónleikunum sem voru í hjólabrettabúðinni Týnda Hlekknum og svo á Kaffi Aulait höfum við alltaf gert allt brjálað!

Steini: Á þessum tíma áttum við bara einhver fjögur lög og við spiluðum þau bara aftur og aftur. (Hlátur).

Sölvi: Ég var búinn að vera í fullt af Indie böndum og það hafði aldrei gengið neitt sérstaklega vel. Fáir mættu á tónleika, kannski mamma söngvarans og kærasta einhvers ef maður var heppinn, (hlátur). En þegar Quarashi slær í gegn opnuðust allar dyr og mér var t.d. hleypt inn á skemmtistaði og stelpur fóru að reyna við mann sem var afar athyglisvert.

Andri: Ykkur var mjög vel tekið af tónlistarþyrstum ungmennum en hvernig tók tónlistarsenan í ykkur?

Steini: Okkur var vel tekið allstaðar við t.d. túruðum með allskonar böndum t.d. Botnleðju, Vínyl og Súrefni svo fátt sé nefnt og aldrei neitt beef neinstaðar.

Sölvi: Við vorum eiginlega okkar eigin sena enda kanski algjörlega sér á báti, en rokkararnir og alveg yfir í danstónlistarunnendur fíluðu okkur. Quarashi varð ótrúlega vinsæl hljómsveit og eiginlega bara á einni nóttu, þetta gerðist allt mjög hratt!

Andri: Switchstance kemur út og hún verður gríðarlega vinsæl og þið verðið strax miklar rokkstjörnur, steig það ykkur eitthvað til höfuðs?

Sölvi: Já, á einhverju tímabili held ég að það hafi nú gert það.

Steini: Við vorum ansi djammglaðir fyrir Quarashi en það margfaldaðist eftir að Quarashi varð ógeðslega fræg!

Sölvi: (Hlátur). Já nákvæmlega, sko í Hafnarstræti var þetta bara svona krúttlegt partý en þarna kom miklu meira áfengi inn því allt í einu var það orðið frítt.

Steini: Það varð bara allt í einu allt frítt. Föt, áfengi og í rauninni bara hvað sem er…

Sölvi: Þetta varð á tímabili svolítið klikkað! slagsmál og allskonar rugl.

Andri: Voru þá hljómsveitarmeðlimir að tuska hvorn annan til?

Steini: Nei reyndar ekki. Við vorum meira í að tuska einhverja aðra til, (hlátur).

Sölvi: Þetta var oft á tíðum algjört rugl en við fórum samt mjög fljótlega inn í stúdíó til að taka upp fyrstu breiðskífuna, svokallaða eggjaplötuna.

Steini: Þetta tímabil var algjört „chaos!“ Við gáfum út Switchstance og hún varð hitt á einni nóttu og við svaka poppstjörnur og spiluðum út um allar trissur. Á sama tíma og þetta var allt í gangi vorum við að semja og taka upp Eggjaplötuna og það var yfirleitt gert allt á nóttunni.

Sölvi: Við gerðum ekkert annað en þetta! En þarna var ég og Hössi á leið í nám.

Steini: Ég átti heima í Phoenix Arizona og ætlaði bara að vera á Íslandi yfir sumartímann en ég ætlaði að verða atvinnumaður á hjólabretti. Ég var kominn með einhverja díla þarna úti en það var bara allt sett á hold og bara gefið í.

Sölvi: Já, það var bara allt sett á hold, en í dag er Hössi útskrifaður Heimspekingur og ég reyndar hagfræðingur.

Steini: Ég er reyndar ekki atvinnumaður á hjólabretti, (hlátur).

Sölvi: Þarna túruðum við mikið um landið og úff, þetta var oft á tíðum mjög subbulegt. Stundum var þetta eins og að vera inn í einhverri Mötley Crue mynd.

Steini: Þessar ferðir voru langt út fyrir öll velsæmis mörk.

Sölvi: Já vá! Þær voru það sko, (hlátur). Þetta var oft á tíðum algjört rugl!

Strákarnir baksviðs á þjóðhátíð í eyjum 2014

Andri: Hvernig var svo fyrstu breiðskífunni tekið og voruð þið sáttir með viðtökurnar?

Steini: Þessari plötu var gríðarlega vel tekið og stækkaði bandið til muna en þarna eru lög eins og Catch 22, Mr Caulfield og Superwoman sem eru svona hittarar.

Sölvi: Það er mikið af allskonar „creative“ pælingum í gangi á þessarri plötu og mikið af allskonar brjáluðum sömplum.

Andri: Svo kemur næsta plata sem ber nafnið Xeneizes.

Sölvi: Já, það vinnuferli var allt öðruvísi. Á fyrri plötunni vorum við að gera þetta í fyrsta skiptið en á Xeneizes vissum við betur hvað við vildum gera og hvernig við ættum að gera það. Ég er mjög ánægður með þá plötu og mér finnst hún ein best heppnaða Quarashi platan.

Steini: Áður en við byrjuðum á að taka upp Xeneizes þá tókum við smá pásu frá hvort öðrum. Ég fór til Chicago í þrjá mánuði, Sölvi fór til Suður Ameríku og Hössi til Írlands. Komum svo ferskir inn og tilbúnir í verkið og kannski svolítið lentir eftir þetta flug sem var á okkur.

Andri: Þegar Xeinezes kemur út þá hafa orðið einhverjar mannabreytingar er það ekki?

Sölvi: Jú þarna var plötusnúðurinn Richard hættur og Björn Ingimundarson (Dj Dice) kominn í hans stað. Þarna var líka Ómar kominn á fullt en hann hefur samt verið með okkur nánast alveg frá upphafi. Einnig kemur Smári Tarfur inn og Gaukur Úlfarsson á bassa en þeir voru í live krúinu.

Andri:  Á þessu tíma fara hlutirnir að gerast erlendis og plötufyrirtæki byrja á að sýna ykkur áhuga.

Sölvi: Jú, þarna fáum við fljótlega samning við EMI

Steini: Sem er alveg sjúkt því enginn af okkur hafði nokkurn tímann spáð í einhverju svoleiðis.

qrc 1

Ljósmynd: Svenni Speight

Andri: Þarna var ykkur örugglega skotið aftur uppá stjörnu himininn eða hvað, hvernig tókuð þið þessu?

Sölvi: Þetta var öðruvísi.

Steini: Við vorum ekki mikið að velta þessu fyrir okkur heldur vorum við bara lentir inn í einhverri bólu. En við fórum að átta okkur á hlutunum þegar við fórum yfir á Columbia Records. Þá varð þetta allt miklu stærra og við trítaðir eins og stjörnur. Stórar hljómsveitarútur, mikið af flugvélum og mikið af partíum.

Sölvi: þarna byrjuðum við að selja ógeðslega mikið af plötum og vorum með lag í power spilun á MTV og í útvarpinu í ameríku. Við vorum tilnefndir til Mtv Music Awards og allskonar svona sem gerði þetta alltsaman mjög óraunverulegt.

Andri: Á hvaða tímapunkti flytjið þið til Ameríku og hvernig var það?

Sölvi: Fljótlega eftir Xeneizes, þá flytjum við allir til New York.

Steini: Við vorum með tveggja hæða bækistöð í East Village á Manhattan, æfingarhúsnæði skammt frá og stúdíó.

Andri: Hvernig var þessu skipt og hverjir voru saman í íbúð?

Steini: Við fyllibitturnar, Hössi og ég vorum á fyrstu hæðinni og Sölvi og Bjössi Dice á efri hæðinni, Ómar valsaði bara á milli.

Sölvi: (Hlátur). Þetta var snilld sko, en við sváfum allir í sama rúmi, þetta var ekkert mega kósí neitt.

Steini: Þarna erum við bara að semja, taka upp, æfa og spila á nokkrum svo kölluðum showcases ásamt því að stökkva af og til til Los Angeles

Sölvi: Já, við fórum til LA til að vinna meðal annars með Dj Muggs úr Cypress Hill. Þar var mikið tekið upp og mikið stuð!

Andri: Þarna myndast góður kunningsskapur á milli ykkar og einhverra meðlima Cypress Hill er það ekki?

Sölvi: Dj Muggs kom að nokkrum lögum og þar á meðal Baseline o.fl. Við urðum ágætis vinir B Real hann er svona mest næs gæinn af þeim. Dj Muggs er nett geðbilaður! Alltaf vopnaður og eitthvað!

Steini: Eitt skiptið sátum við á fínu veitingahúsi í New York ásamt Dj Muggs og einhverju liði og hann snappar á greyið þjónustustúlkuna af því að kampavínið var ekki nógu kalt!

Andri: B Real fór svo á einhvern þvæling með ykkur?

Sölvi: Já, hann kom með okkur í allavega eitt ferðalag.

Steini: Gisti í rútunni okkar en hann er áhuga ljósmyndari. Hann var bara að taka myndir á fullu og að skemmta sér, mjög gaman sko.

Andri: En svo verðið þið gríðarlega vinsælir í Japan hvernig er það fyrir stráka úr vesturbænum?

Sölvi: Jú þetta gekk gríðarlega vel þar en við seldum miklu fleiri plötur í Ameríku og vorum miklu meira þar.

Andri: Maður hefur alltaf ímyndað sér að ykkar aðal markhópur hafi verið í Japan er það bara rugl í manni?

Steini: Nei, kannski ekki rugl, en við vorum mest megnis í Ameríku . Tókum mikið af stórum túrum þar og meðal annars nokkra svokallaða „stadium“ túra og þá vorum við að spila fyrir um 40 til 60.000 manns í hvert skipti. Á þessum túrum vorum við að spila með Eminem, The Strokes og Sum 41 svo eitthvað sé nefnt. Einnig tókum við Vans Warped Tour sem var mjög langur túr og alveg klikkaður!

Sölvi: Vans túrinn var alveg í tvo mánuði og við spiluðum nánast á hverjum einasta degi. Eftir því sem við túruðum meira súrnaði stemmingin innan hópsins og menn fóru að fjarlægjast hvorn annan og þetta bræðralag sem var áður var farið að minka verulega.

Steini: Á þessum tíma spiluðum við alveg gríðarlega mikið og út um allar trissur.  Annað hvort ferðuðumst við með rútu eða með flugvél og keyrt var mörg hundruð kílómetra á dag eða flogið eitthvert á hverjum degi. Mest í Ameríku en líka í Evrópu, Ástralíu og auðvitað Japan.

Sölvi: Maður veit ekki hvað þreyta er fyrr en maður er búinn að taka flugvél fimm sinum í viku í nokkra mánuði.

Andri: Var þetta kannski bara orðið erfitt og jafnvel leiðinlegt?

Sölvi: Já, undir lokin var þetta orðið það og þetta tók toll af mönnum. Síðasti túrinn var um Evrópu og hann var bara ekki góður! Menn í blackouti og engin stemming.

Steini: Það mætti fullt af fólki á alla tónleika og uppselt allstaðar en við sjálfir vorum bara ekki í fíling.

Andri: Hvað gerðuð þið eftir þennan túr, var pása?

Steini: Já við fórum allir í pásu frá hvort öðrum.

Sölvi: Þetta var frekar erfitt sko.

Andri: Þið takið ykkur talsvert langa pásu því það líða þrjú ár þangað til næsta plata kemur út?

Sölvi: Já en í millitíðinni gerum við eitt lag sem heitir „Mess It Up,“ en þar er það stórvinur okkar Op eða Ólafur Páll Torfason sem er í því lagi. Þetta er eitt af okkar stærstu lögum en hefur aldrei komið út á plötu.

Andri: Svo kemur Tiny (Egill Ólafur Thorarensen) og hann festist í sveitinni. Var hann valinn af því að hann er með svipað tónsvið og Hössi?

Sölvi: Nei hann er bara með svo geggjaða texta og flow.

Steini: Líka attitude sem er alveg nauðsinlegt.

Andri: Þarna kemur svo út platan Gorilla Disco?

Sölvi: Já nákvæmlega og þar eru alveg killer lög eins og „Stun Gun,“ „Payback“ og „Stars.“ Ég er mjög ánægður með þá plötu.

Steini: Við fórum svo eitthvað út að spila t.d. til Japans og svona.

Andri: Þarna fer bandið í alvöru dvala og menn fara að sinna einhverju öðru. Þið komið svo saman aftur árið 2011 á Bestu Útihátíðinni og þá áttar fólk sig á því hvað það var búið að sakna Quarashi.

Sölvi: Já þetta var alveg klikkað. 10.000 manns mættu til að horfa á okkur spila. Þarna var ég bara búinn að vera í námi og var ekkert búinn að hugsa um Quarashi í langan tíma. Ég stend fyrir framan 10.000 manns og allir kunna textana og ég bara fékk tár í augun.

Steini: Við líka fundum fyrir því að þegar við strákarnir stöndum saman á sviði þá myndast eitthvað óútskýranlegt rafmagn. Að standa þarna saman á sviðinu eftir svona langan tíma var eiginlega bara ótrúlegt!

Andri: Nú sitjum við hér tuttugu árum síðar og á næstu dögum er Quarashi að senda frá sér nýtt lag og myndband. Nú eruð þið flestir orðnir feður og með meiri ábyrgð og svona. Hvernig er þetta alltsaman að virka?

Steini: Það eru allir „on board“ eins og sagt er. Ég, Sölvi, Hössi, Ómar og Tiny og líka gaman að segja frá því að Hössi hefur ekki verið með í lagi síðan frá árinu 2002. Það eru fjórtán ár síðan drengurinn tók upp míkrafóninn. hann er að rappa og að syngja og við erum bara allir í blússandi fíling.

Andri: nú eruð þið allir með fullt af hugmyndum og eruð afar frjóir einstaklingar. Eru ekki einhverjir afgangar sem væri hægt að gefa út seinna?

Sölvi: Jújú, það er alveg eitthvað til.

Steini: Það eru ýmsar pælingar á lofti og við erum ekki hættir að gera tónlist en hvað verður úr því er erfitt að segja. Það veit enginn hvað gerist í framtíðinni!

(Þess má geta að Andri Freyr Viðarsson er að vinna í sér þátt út frá viðtalinu sem fer í loftið á Rás 2 en tímasetning verður tilkynnt síðar.)

Fylgist nánar með Quarashi hér:

http://www.thequarashivibe.com/

https://www.facebook.com/Quarashi-official-198869463483759/?fref=ts

Comments are closed.