PLUG & PLAY HALDIÐ Í ANNAÐ SINN Á BOSTON Í KVÖLD

0

Plug & Play eru haldin á Boston annan hvern fimmtudag þar sem kynnt er ný tónlist. Sex tónlistar atriði koma fram á hverju kvöldi úr allskyns tónlistarstefnum. Að þessu sinni bættist við eitt auka atriði og eru því 7 tónlistaratriði sem koma fram, en það er listamaður frá USA sem kallar sig Chill Witch en hún ætlar að byrja kvöldið.

Tónleikarnir hefjast á slaginu 21.30 og það er frítt inn.

Fram koma:

Chill Witch (USA) 

Chill Witch er á ferðalagi um heiminn og hefur áður spilað á íslandi í góðum félagsskap núna síðastliði sumar með stákunum í Shades Of Reykjavík. Hún frétti af Plug & Play og bað um að vera með á stuttu stoppi sínu á klakanum.

The Soundation Project  

The Soundation project er tónlistarverkefni tveggja einstaklinga sem leita að sínum eina sanna hljóm. Þau byrjuðu að spila saman árið 2013 eftir að hafa verið leidd saman af kennurum Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og hafa unnið saman síðan. Birta Rós Sigurjónsdóttir syngur og spilar á bassa og Sveinbjörn Ólafsson spilar á gítar.

Unnur Malín 

Unnur Malín er 33 ára fjölhæfur listamaður með undurfagra rödd og leikur á margskonar hljóðfæri. Hún kemur nú fram ein, í fyrsta skipti í Reykjavík, á Plug & Play tónleikaröðinni á Boston og mun syngja eigin tónlist og leika sjálf undir á gítar.

Tónlistin er samsuða ýmissa stíla – m.a. popps, djass, þjóðlagatónlistar, klassískrar tónlistar, og R’n’B. Textana semur hún suma sjálf, en aðra fær hún að láni hjá íslenskum skáldum.

Unnur er frá Reykjavík, en hefur verið búsett í Biskupstungum undanfarin ár þar sem hún hefur fengist við tónsköpun meðfram öðrum störfum. Hún er meðlimur í reggí hljómsveitinni Ojba Rasta, Lúðrasveit Reykjavíkur og Kammerkór Suðurlands. Auk þess að semja þjóðlagaskotna tónlist fyrir sig sjálfa, hefur hún samið tónverk fyrir aðra flytjendur og má þar nefna tvíeykið Duo Harpverk, Kammerkór Suðurlands og Skálholtskórinn og á döfinni er frumflutningur Lúðrasveitar Reykjavíkur á tveimur nýjum verkum eftir hana.

Unnur Malín hélt sína fyrstu sólótónleika í fyrra við góðar viðtökur og hefur komið fram ein við ýmis tilefni. En nú gerir hún það í fyrsta skipti í uppeldisstaðnum, Reykjavík og verða glæný lög leikin í bland við eldra efni.

Þorsteinn Kári 

Þorsteinn Kári er listmaður frá Akureyri sem spilar rólega tónlist sem á margt skilt með folk og indie tónlist. Hann kemur ýmist fram einn eða með hljómsveit.

Feigðin 

Sérð þú ljós í myrkri? Fegurð í ljótleika? Komdu og dansaðu í gálganum með okkur

Mt. Fujitive 

Mt. Fujitive er 20 ára taktsmiður úr Grafarvoginum sem finnst fátt annað betra en að búa til rólega og afslappaða takta/beats. Hann er kominn með yfir 5.000 fylgjendur á Soundcloud og er að leggja lokahönd á sína aðra EP-plötu sem kemur í lok mars/byrjun apríl.

MIMRA 

MIMRA er listamannsnafn söngkonunnar, lagahöfundarins og pródúsentsins Maríu Magnúsdóttur. Tónlist MIMRU má lýsa sem electro-acoustic folk pop. Í nóvember gaf MIMRA út sitt fyrsta lag af væntanlegri breiðskífu sinni, en lagið ber heitið „Söngur Valkyrjunnar.“ Lagið er í senn gruggugt og draumkennt og lágstemmdur hljóðheimurinn rís og hnígur með rödd MIMRU í þungamiðju. Lagið og ekki síst víðfem rödd MIMRU, vöktu verðskuldaða athygli á tónlistarbloggum víðsvegar um heim. MIMRA kemur fram ein á sviði, syngur og spilar með tölvu, synta og lúppur sér til aðstoðar.

Langar þig að spila á Plug & Play?

Öllum er velkomið að sækja um að vera með. Hvort heldur sem þú ert gamall reyndur að prófa nýtt efni eða nýtt andlit að stimpla þig inn. Einu kröfurnar eru að setup þarf að vera einfalt: Playback + söngur/rap, eitt hljóðfæri + söngur, lítið work station á borði sem er ekki mikið meira en 1-2 rásir í mixer.
Umsókn á Plug & Play: mosimusik@gmail.com

Skrifaðu ummæli