PLÖTUÚTGÁFAN PROPHESY PRODUCTIONS UPPGÖTVAÐI TÓNLIST ELVARS ÚR LEIKRITI Á RÁS 2

0

glerakur 3

Út er komin fyrsta smáskífa hljómsveitarinnar GlerAkur, af breiðskífu sem er væntanleg með haustinu. Á smáskífunni, sem er þriggja laga og kemur út á vínyl og geisladiski, er að finna eitt lag úr leikritinu „Fjalla-Eyvindur & Halla“ sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu árið 2015 og auk þess tvö viðbótarlög, en stóra platan mun svo innihalda meiri tónlist úr verkinu. Það er þýska plötuútgáfan Prophecy Productions sem gefur út en GlerAkur skrifaði undir útgáfusamning við fyrirtækið fyrr á þessu ári.

glerakur 2
GlerAkur er tónlistarverkefni Elvars Geirs Sævarssonar sem starfar sem hljóðhönnuður við Þjóðleikhúsið en plötuútgáfan uppgötvaði tónlist Elvars þegar lag úr fyrrnefndu leikriti var leikið á Rás 2, en svo heppilega vildi til að útsendari fyrirtækisins var að streyma útvarpsstöðina í gegnum netið á sama tíma.

Tónlist GlerAkurs má lýsa sem draumkenndu, framsæknu síðrokki með blöndu af tilraunatónum leikhússins, svart-málmi og hávaða, og gítarveggir eru einnig áberandi í hljóðmyndinni. Liðsmenn sveitarinnar eru átta: Fimm gítarleikarar, tveir trommarar og einn bassaleikari.

glerakur
Hljómsveitin vakti athygli á nýloknu Eistnaflugi en þar kom hún fram í fyrsta sinn og hlaut einróma lof gagnrýnenda. Einnig hafa dómar um smáskífuna verið glæsilegir í erlendum miðlum. Platan kom út í takmörkuðu upplagi en hana er enn hægt að fá í öllum helstu plötubúðum Reykjavíkur en jafnframt er hún fáanlega á iTunes og mun von bráðar birtast á Spotify.

GlerAkur mun næst koma fram á Prophecy Fest í Þýskalandi um Verslunarmannahelgina en það er hátíð sem Prophecy-útgáfan heldur til að kynna þær hljómsveitir sínar sem gefa út tónlist á árinu.

Comments are closed.