„PLATAN FULLMÓTAR HEIMINN SEM VIÐ HÖFUM VERIÐ AÐ SKAPA FRÁ LAGI TIL LAGS“

0

Hljómsveitin Sycamore Tree var að senda frá sér glænýtt lag sem ber heitið „Trouble.” Þetta er síðasta lagið sem mun heyrast frá sveitinni áður en platan kemur út en hún lýtur dagsins ljós 24. September næstkomandi!

Albumm.is náði tali af Gunna Hilmars einn af meðlimum sveitarinnar og svaraði hann nokkrum skemmtilegum spurningum um lagið, plötuna og hvað fær hann til að fara fram úr á morgnana!


Um hvað er lagið og var það lengi í vinnslu?

Trouble fjallar um ástina eins og í raun öll platan okkar Shelter. Ástin er allskonar, falleg, ljót, erfið, flókin en fyrst og fremst eitt mesta náttúruafl heimsins. Í Trouble erum við að fjalla um fólk sem fellur alltaf fyrir röngum aðila. Einhvern sem kveikir blossann hjá þeim sem um munar en á sama tíma er einhver sem hentar þeim alls ekki og oft bara líkar alls ekki við. Sumir lenda ítrekað í þessu.

Við Ágústa Eva spiluðum þetta fyrst í vor og síðan var það tekið upp í sumar. Það var ekki lengi í vinnslu, það eiginlega rann bara út, bæði lag og texti. Ég man eiginlega bara ekkert eftir því að hafa samið það, ég er víst mjög gleyminn. Þetta er lag sem við getum ekki beðið eftir að leyfa fólki að heyra. Það er enn einn flötur á Sycamore Tree soundinu. Aðeins meira „grit“ en áður, en samt sama „gamla“ soundið á okkur. Ómar Guðjónsson útsetti lagið eins og önnur lög frá okkur.

Hvaðan kemur tónlistaráhugi þinn og hvernig hefur hann breyst í gegnum tíðina?

Ég hef alltaf verið alæta á tónlist. Það kemur frá mömmu, hún hlustar mikið á tónlist og var ég alinn upp á íslenskri tónlist. Villi Vill, Ellý og allt það og mikið af kántrí tónlist þótt hún hafi nú ekki fylgt mér síðan. Í seinni tíð hlusta ég á allt, klassíka tónlist, jazz, rokk, rapp og eiginlega bara allt sem skapað er með góðu hjartalagi.

Hvaðan sækir þú innblástur fyrir þína tónlistarsköpun og hvað er það í tónlistinni sem kveikir í þínu hjarta?

Tónlist og textar Sycamore Tree er brothætt, opin og einlæg. Tónlist sem er vel gerð og gerð frá hjartanu kveikir í mér, það skiptir engu hvort það er sinfónía eða pönk það virkar eins á mig. Ég hleyp mikið og ferðast mikið og hef þess vegna mikinn tíma til að hlusta og stúdera tónlist sem er mér mikilvægt. Það er ótrúlega mikið af kláru fólki þarna út.

Nú er þetta seinasta lagið sem heyrist frá ykkur þangað til platan kemur út. Hvenær er von á gripnum og við hverju má fólk búast?

Shelter kemur út 24. sept og við verðum með tónleika í Hörpunni sama dag ( Hægt er að kaupa miða á tix.is og harpa.is ). Platan fullmótar heiminn sem við höfum verið að skapa frá lagi til lags. Fyrsti kaflinn í okkar sögu. Við vonum að sem flestir gefi sér tíma til að hlusta frá upphafi til enda. Platan er saga og hvert lag er einn kafli.

Hvað fær þig til að vakna á morgnana og eitthvað að lokum?

Það er svo margt. Lífið er gott. Fjölskylda, vinir, tíska og tónlist. Það er gaman að skapa og enn skemmtilegra að fá svona frábær viðbrögð frá fólki. Gefur lifinu gildi.

Ást og Friður (ekki veitir af)

Sycamoretreeband.com

Skrifaðu ummæli