„Planið var alltaf að hafa þetta bæði gallerí og vinnustofu”

0

Það verður heljarinnar stuð í Gallerí Port í dag en það er verið að fagna því að nú er Portið ekki bara Gallerí heldur einnig vinnustofa. Vinnustofan hefur verið opin í nokkrar vikur og hefur fólk verið að droppa inn í kaffi og í dag verður afrakstur þessara vinnu afhjúpuð.

Albumm.is náði tali af Árna Má Erlingsyni einum af eigendum gallerísins og svaraði hann nokkrum skemmtilegum spurningum.


Hvenær var Gallerí Port stofnað og hverjar eru helstu áherslur gallerísins?

Gallery Port var stofnað í lok mars 2016, við vorum þrír í þessu í upphafi. Ég fékk Þorvald Jónsson og Skarphéðinn Bergþóruson með mér í lið, en í dag þá sjáum við Skarpi um þetta en Þorvaldur er ekki langt undan.

Áherslur okkar liggja ekki endilega í stefnu heldur virðist vera að myndast hefð fyrir því að við vinnum helst með listamönnunum sem eru á sínum fyrstu 10 árum eftir útskrift. Hefðum við vitað að þetta yrði svona langt verkefni í upphafi þá er ég ekki viss um að við hefðum gert þetta, fyrst áttu þetta að vera nokkrir mánuðir því það átti að rífa húsnæðið en svo seinkaði því. Þetta hefur gengið svo vel að við erum ennþá í miklu fjöri.

Hvað er List fyrir þér og átt þú þér einhvern uppáhalds listamann?

Það er erfitt að svara spurningunni hvað list er. Margir eru með sterkari skoðanir á þessu, sumum finnst list eigi að endurspegla samfélagið, öðrum finnst að listamenn eigi alltaf að vera að segja eitthvað sem skiptir máli. Aðrir vilja skreyta samfélagið og umhverfi sitt á meðan aðrir fara í pólitískar áttir. Einhver staðar heyrði ég að lífið snúist um að njóta og upplifa, mér finnst það líka góður útgangspunktur í myndlist.

Hvað varðar uppáhalds listamenn þá tel ég alltaf eitthvað æði fyrir. Uppáhalds íslenski listamaðurinn minn hefur frá upphafi verið Birgir Andrésson. Ég er að eignast verk eftir hann þessa dagana og er búinn að vera eins og krakki sem er að fá svartan ruslapoka af sælgæti. Erlendir listamenn sem ég hef haldið upp á eru ansi margir. Sá fyrsti var Jean-Michel Basquiat, ég hugsa að ég hafi tengt við hann. Var ungur þegar hann byrjaði, var alltaf í nettu rugli og krotaði á veggi einnig heillaðist ég af Blek le Rat. En síðan hefur Arte Povera stefnan alltaf heillað mig, þar eru þeir Mario Merz og Alighiero Boetti. Yayoi Kusama er líka algjör töffari, Keith Haring skorar alltaf hátt hjá mér, sama hvað fólk ætlar að framleiða mikið af drasl varningi með myndum sem refrensar í hann. En síðan er jafn skemmtilegt að hobbíast í að finna list og listamenn sem gerir ekkert fyrir mann. Banksy og Damien Hirst eru fyrstu nöfnin sem poppa upp í huga mér þegar kemur að listamönnum sem mér finnst fá allt of mikla athygli.

Nú er heljarinnar stuð í Gallerí Port á laugardaginn, hvað er að gerast?

Heyrðu já þetta verður eitthvað! Við strákarnir fengum loksins að vita að við verðum í rýminu næsta árið. Þá fórum við strax í að gera upp rýmið, búa til alvöru vinnustofu á bakvið og bæta sýningarýmið. Planið var alltaf að þetta yrði tvískipt, bæði gallerí og vinnustofa.

Það er loksins að gerast og af því tilefni höfum við ásamt félögum okkar unnið eins og vitleysingar síðustu vikur. Við erum búnir að hafa opna vinnustofu og hefur fólk verið að droppa inn í kaffi. Þetta er búið að vera mjög skemmtilegt og áhugavert ferli. Í dag ætlum við að opna afrakstur þessara vinnu.

Þeir listamenn sem tóku þátt í þessu eru:

Arngrímur Sigurðsson , Árni Már Erlingsson , Loji Höskuldsson , Skarphéðinn Bergþóruson , Ýmir Grönvold , Þorvaldur Jónsson.

Hvenær byrjar stuðið og við hverju má fólk búast?

Gleðin hefst næsta laugardag kl. 17:00 og stendur yfir til 21:00. Það verður mikið af góðum verkum í boði, enn betri félagsskapur  og léttar veigar til þess að skola niður gleðinni.

Hvað er framundan hjá Galleríinu og eitthvað að lokum?

Úff, það er margt. Næsta stóra verkefnið er að koma af stað vefsíðu í desember, samhliða henni þá verðum við með flotta sýningu þar sem við kynnum til leiks þá listamenn sem við ætlum að einbeita okkur að betur. Við ætlum ekki alveg í kommersjal gallerí rekstur en höfum fengið til liðs við okkur ótrúlega flottan hóp sem vill vinna nánar með okkur. Þetta hjálpar okkur að skerpa fókusinn og gera betur í því sem við erum að gera. Hér má sjá lista af því góða fólki.

Arnar Ásgeirsson, Auður Lóa Guðnadóttir, Auður Ómarsdóttir, Árni Már Erlingsson , Eva Ísleifsdóttir, Helga Páley Friðþjófsdóttir, Loji Höskuldsson , Skarphéðinn Bergþóruson, Sophie Gough, Styrmir Örn Gunnarsson, Una Björg Magnúsdóttir , Valgerður Sigurðardóttir, Þrándur Þórarinsson og Þorvaldur Jónsson.

Annars hlakka ég til að taka á móti fólki á laugardaginn og hvet fólk til að njóta með okkur!

Herlegheitin byrja stundvíslega kl 17:00. Facebook viðburðinn má finna hér.

Skrifaðu ummæli